Síðustu ár hefur fjölgað mjög í hópi þeirra sem eru utan vinnumarkaðar sökum skertrar starfsgetu. Árið 1999 var tekinn upp nýr örorkumatsstaðall hjá Tryggingastofnun Ríkisins sem byggði eingöngu á læknisfræðilegum forsendum og skiptist í mat á líkamlegri og andlegri færni. Þetta var þónokkur breyting frá því sem áður var en fyrir upptöku nýs örorkumatsstaðals byggði örorkumatið á læknisfræðilegum forsendum að teknu tilliti til félagslegra og fjárhagslegra þátta.
Fjárframlög ríkisins og lífeyrissjóða í örorkubyrði hafa tvöfaldast á undanförnum árum og nema um 50 milljörðum á ári og eru hlutfallslega hæst hér á landi í samanburði við önnur ríki OECD. Það er því ljóst að mikið er í húfi fyrir einstaklinga, atvinnurekendur og samfélagið í heild sinni að grípa til ráðstafanna og reyna að snúa þessari þróun við.
Í skýrslu Forsætisráðuneytisins frá árinu 2007 er lagt til að í stað mats á vangetu verði tekið upp mat á getu einstaklingsins til að afla sér tekna í kjölfar sjúkdóms eða slyss. Samhliða þessu var lagt til að sem fyrsta skref í þessu mati þá þurfi að ígrunda vel möguleika starfsendurhæfingar sem geti þá oft átt sér stað samhliða læknisfræðilegri endurhæfingu. Samhliða starfsendurhæfingu og í lok hennar verði geta einstaklingsins til atvinnuþátttöku og tekjuöflunar metin (Forsætisráðuneytið, 2007).
VIRK - Starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignastofnun stofnuð af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins í maí 2008. Í janúar 2009 var undirrituð ný stofnskrá sjóðsins með aðkomu stéttarfélaga og atvinnurekenda á opinberum vinnumarkaði. Sjóðurinn byggir á samkomulagi um nýtt fyrirkomulag starfsendurhæfingar í kjarasamningum á vinnumarkaði á árinu 2008. Um VIRK gilda lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða nr. 60/2012.
Þróun starfsgetumats VIRK
Á undanförnum árum hefur verið bent á kosti heildræns starfsgetumats þar sem færni einstaklinga er metin út frá líf-sál-félagslegri nálgun (bio-psycho-social approach). Þá hefur einnig verið bent á aðra kosti þess að innleiða starfsgetumat og tengja það markvisst við starfsendurhæfingu. Með þessari aðferðafræði aukast líkur einstaklingsins á að vera boðin viðeigandi starfsendurhæfing og að réttur hans til vinnu við hæfi sértryggður. Innleiðing starfsgetumats verður einnig til að raunhæfur möguleiki verður á að samræma á landsvísu mat innan almannatryggingakerfisins og hjá lífeyrissjóðum. VIRK hefur lagt mikla vinnu í að þróa matsferil sem er samofinn starfsendurhæfingarferli einstaklingsins. Upphaf þessarar þróunar má rekja til skýrslu faghóps að útfærslum á slíku mati „Drög að starfshæfnismati“ sem var gefin út árið 2009 og átti VIRK fulltrúa í þeim faghópi (Forsætisráðuneytið, 2009). Síðan þá hefur VIRK haldið markvisst áfram að þróa þá hugmyndafræði og áherslur sem þar eru settar fram. Rúmlega 80 sérfræðingar hérlendis og erlendis hafa verið kallaðir til í þessari vinnu í formi rannsóknaverkefna og þróunar, m.a. á alþjóðlegum vettvangi. Þessi þróun hefur vakið mikla athygli erlendis frá, matsferillinn og þverfaglega teymisvinnan sem hann byggist á er meðal þeirra þátta í starfsemi VIRK sem erlendir fagaðilar líta til sem fyrirmyndar.
Mikilvægir þættir í starfsgetumatsferli
Sjúkdómsgreiningar eru mikilvægar til að skilgreina orsök vandans og þar með átta sig á raunhæfum horfum í starfsendurhæfingarferlinu. Greining á færniskerðingu og hvernig hún hefur áhrif á einstaklinginn eru hinsvegar þær upplýsingar sem unnið er með í starfsendurhæfingunni. Þannig má segja að skipulega og markvisst sé unnið að því að bæta færni einstaklingsins til að hámarka þátttöku hans á vinnumarkaði. Það að vinna að því að bæta færni einstaklings á einu sviði hefur síðan áhrif á færni hans á öðru sviði til dæmis í formi þátttöku (Bornman, 2004, Loisell, 1994).
ICF (International Classification of Functioning) er alþjóðlegt flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu, gefið út af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) árið 2001. Þetta kerfi er nýtt sem hugmyndafræðilegur rammi í starfsgetumatsferlinu (World Health Organization 2001). Einn af kostum þessa kerfis er að það gefur möguleika á stöðluðu alþjóðlegu tungutaki yfir heilsu og heilsutengt ástand þar sem lögð er áhersla á að horfa á einstaklinginn út frá færni hans og þátttöku í samfélaginu. Hugmyndafræðin að baki ICF gerir ráð fyrir að horft sé á ástand einstaklings út frá heilsu og getu en ekki út frá skerðingu eða fötlun. Auk þess er færni einstaklingsins skoðuð út frá því samfélagi sem hann býr í, án tillits til hvað olli skerðingunni. Samspili ólíkra þátta er því markvisst lýst og áhrifum þeirra á hvorn annan (sjá mynd 1).
Rétt er að undirstrika í þessu samhengi mikilvægi heildrænnar sýnar og ekki síst þverfaglegrar vinnu og nálgunar í starfsendurhæfingu. Rannsóknir hafa sýnt fram á betri árangur þegar þverfagleg nálgun er til staðar ef viss tími er liðinn frá því að einstaklingur datt út af vinnumarkaði. Tímamörkin sem oftast eru nefnd hér eru 3-6 mánuðir. Í flóknari tilfellum er þverfagleg vinna forsenda þess að vel takist til (Loisell og félagar, 1994, Gutenbrunner, C. , Ward, A.B., Chamberlain, M.A. , 2006)
Starfsgetumat í lok ferlis
Litið er á starfsgetumat sem eitt órofa ferli mats annars vegar og virkniaukandi aðgerða og/eða starfsendurhæfingar og meðferðar hins vegar. Starfsgetumatið skiptist í þrjá þætti eða stig og eru útleiðir út úr ferlinu á hverju stigi (mynd 2). Gert er ráð fyrir því að sumir fari aldrei lengra inn í matsferlið en í svokallað grunnmat. Þannig verði þörfum þeirra mætt strax á því stigi. Aðrir munu fara í gengum allt matsferlið.
Einstaklingi er vísað í starfsgetumat VIRK þegar starfsendurhæfingaráætlun er lokið og ljóst er að einstaklingur hefur ekki náð fullri starfsgetu. Í starfsgetumati er tekin afstaða til þess hvort starfsendurhæfing sé fullreynd með tilliti til mögulegra starfa á vinnumarkaði. Teljist starfsendurhæfing fullreynd eru styrkleikar og hindranir einstaklings sérstaklega skoðaðir og metnir og þeir tengdir við möguleg störf á vinnumarkaði. Styrkleikar eru þannig nýttir til að leiðbeina markvisst í störf sem talin eru raunhæf en á sama tíma er tekið tillit til þeirra hindrana sem eru til staðar (mynd 2).
Þróun starfsendurhæfingarferlis VIRK og starfsgetumats
Mikil þróun matsferlisins á undanförnum mánuðum hefur ekki síst ráðist af þeirri reynslu sem VIRK byggir á til dagsins í dag, auk áframhaldandi þekkingaröflunar og samstarfs erlendis frá. Eftirtaldir þættir hafa haft mikil áhrif á þessa þróun:
- Eumass, samtök evrópskra tryggingalækna, hafa tekið saman 20 þætti er skipta máli í mati á starfsgetu eða rétti á bótum innan evrópskra velferðarkerfa. Þættirnir eru tengdir við ICF flokkunar- og kóðunarkerfið (Brage, Donceel og Fatez 2008, Anner, Brage, Donceel, Falez, Freudenstein, Oancea og de Boer 2013)
- Í Svíþjóð hefur verið þróað starfsgetumat m.a. með aðstoð ICF kerfisins. Markmiðið er að tryggja að ólíkar stofnanir tali sameiginlegt tungumál og að faglegar kröfur um starfsgetumat séu staðlaðar (Larsson 2013).
- Bandaríkjamenn hafa áratuga reynslu í miskamati, samkvæmt AMA (Rondinelli 2007). Þótt þetta sé ekki starfsgetumat má nýta þá sýn sem það veitir á stöðluð vinnubrögð og notkun matslista.
- Hollendingar hafa búið til staðlaða og áreiðanleikaprófaða spurningalista og leggja áherslu á staðlað viðtal (Spanjer, Krol, Brouwer, Popping, Groothoff og van der Klink 2010).
- Bretar hafa þróað mat á starfsgetu og raunhæfi starfsendurhæfingar út frá þekktum áhættuþáttum sem snúa að endurkomu til vinnu (Health and Work Service 2014).
Árangur og ávinningur
Rannsóknir benda eindregið til þess að einstaklingsmiðuð starfsendurhæfing skili sér í aukinni færni og betri líkamlegri og andlegri líðan. Þannig stuðlar hún að lægra nýgengi örorku og að einstaklingarnir verði á ný virkir þátttakendur í samfélaginu. Ljóst er að sá ávinningur verður meiri því fyrr sem starfsendurhæfing hefst í veikindaferlinu.
Frá því VIRK hóf að veita þjónustu haustið 2009 hafa um 7700 einstaklingar leitað til VIRK, þar af eru um 65% konur og 35% karlar. Um 3800 einstaklingar hafa lokið þjónustu, útskrifast.
Eins og sjá má þá eru um 65% stöðugilda þeirra sem útskrifast með framfærslustöðu sem gefur til kynna starfsgetu og virka þátttöku á vinnumarkaði, þ.e. þeir eru annað hvort í launaðri vinnu, í virkri atvinnuleit eða í lánshæfu námi. Hafa ber í huga að hér er um að ræða skráningu á stöðugildum, þannig að einstaklingur sem fer t.d. í hálft starf á vinnumarkaði í lok þjónustu VIRK skráist aðeins að hálfu leyti í „laun á vinnumarkaði“. Þegar horft er til einstaklinga, ekki stöðugilda þá, þá kemur í ljós að um 74% einstaklinga sem útskrifast frá VIRK eru virkir á vinnumarkaði við útskrift – þ.e. eru annað hvort í launuðu starfi, atvinnuleit eða í lánshæfu námi við útskrift.
VIRK hefur frá stofnun unnið markvisst að og fjárfest umtalsvert í uppbyggingu þverfaglegs starfsendurhæfingarferils samtvinnuðum matsferli með það að markmiði að vinnuna verði hægt að nýta inn í þróun á nýju starfsgetumati sem æ fleiri eru sammála um að taka eigi upp hér á landi. Ljóst er að grunnforsenda þess að taka upp starfsgetumat í stað örorkumats er sú að til staðar sé samræmdur ferill, að öllum bjóðist skipulagður og faglegur starfsendurhæfingarferil. Mikilvægt er því að til staðar sé eitt heildarkerfi atvinnutengdrar starfsendurhæfingar með jöfnum aðgangi fyrir alla einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda, eins og stefnt var að með lögum 60/2012 um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.
Mikilvægt er að halda þessu starfi áfram og efla enn frekar. Ekki aðeins er árangursrík starfsendurhæfingarþjónusta eins og VIRK býður upp á ein allra arðbærasta fjárfestingin í samfélagi okkar, heldur er frekari efling starfsendurhæfingar nauðsynleg svo að gerlegt sé að skipta úr örorkumati í mat á starfsgetu hjá bæði lífeyrissjóðum og opinberum aðilum.
Heimildaskrá
- Anner, J., Brage, S., Donceel, P., Falez, F., Freudenstein, R., Oancea, C. og de Boer, W.E.L. (2013). Validation of the EUMASS Core Set for medical evaluation of work disability. Journal of Disability and rehabilitation 35(25): 2147-2156.
- Brage, S., Donceel, P. og Falez, F. (2008). Development of ICF core set for disability evaluation in social security. Disability and Rehabilitation 30:1392-1396.
- Drög að starfshæfnismati (2009). Skýrsla faghóps um aðferðir við mat á starfshæfni. Forsætisráðuneytið. Sótt 14. mars 2014 af http://www.velferdarraduneyti.is/media/ acrobat-skjol/Drog_ad_starfshaefnismati06112009.pdf.
- Everhardt, T.P. og de Jong, R. (2011). Return to Work After Long Term Sickness The Role of Employer Based Interventions. De Economist 159:361-380.
- Health and Work Service. (2014). Sótt 14. mars 2014 af https://www.gov.uk/government/uploads/system/uploads/ attachment_data/file/280988/health-and-work-servicespecification.pdf.
- Larsson, J. (2013). Metoder för bedömning av arbetsförmåga inom sjukförsäkringen – slutrapport. Stockholm: Försäkringskassan.
- Loisel, P., Durand, M., Diallo, B., Vachon, B., Charpentier, N. og Labelle, J. (2003). From Evidence to Community Practice in Work Rehabilitation: The Quebec Experience. Clinical Journal of Pain: 19(2): 105-113.
- Norwegian Labor and Welfare Service (2014). Sótt 14. Mars 2014 af https://www.nav.no/English/English/ Sickness+benefits+for+employees.283831.cms
- Rondinelli, R. D. (2007). Guides to the Evaluation of Permanent Impairment, 6. Útg. American Medical Association.
- Spanjer, J., Krol, B., Brouwer, S., Popping, R., Groothoff, J.W. og van der Klink, J.J.L. (2010). Reliability and Validity of the Disability Assessment Structured Interview (DASI): A Tool for Assessing Functional Limitations in Claimants. Journal of Occupational Rehabilitation:20 (1) 33-40.
- Ward, A.B., Gutenbrunner, C., Giustini, A., Delarque, A., Fialka-Moser, V., Kiekens, C., Berteanu M., og Christodoulou, N. (2012). A Position Paper on Physical & Rehabilitation Medicine Programmes in Post-Acute Settings. Journal of Rehabilitation Medicine:44 (4) 289-298.
- Westregård, A. (2013). Changes in Swedish health insurance system and labour law due to the influence of EU. School of Economics and Management, Lund University. Sótt 14. mars 2014 af http://ilera-europe2013.eu/uploads/paper/ attachment/51/WestregardAmsterdamCS21.pdf.
- World Health Organization (2001). International Classification of Functioning, Disability and Health. Sótt 14.03.2014 af http://www.disabilitaincifre.it/documenti/ICF_18.pdf.