Greinar / 15. júlí 2019

Tvíbent tvíhyggja

Tvíhyggja í heilbrigðisvísindum felur í sér þá afstöðu að líkami og hugur séu aðskilin og mismunandi í eðli sínu. Þekktustu útgáfu tvíhyggjunnar í okkar heimshluta má rekja til kenninga franska heimspekingsins, stærðfræðingsins og vísindamannsins René Descartes frá 17. öld um hugann sem óefnislegt en hugsandi fyrirbæri og líkamann sem efnislegan en án hugsunar.

Vissulega var tvíhyggjan stórt skref fram á við þegar til þess er litið að þegar Descartes kom fram með kenningar sínar var hið viðtekna kristna viðhorf að manneskjan væri andleg vera þar sem líkami og sál væru eitt. Sjúkdómar voru þá tileinkaðir óefnislegum kröftum svo sem rangri breytni og líkaminn var álitinn nauðsynlegt farartæki fyrir sálina til að komast til himna. Því bönnuðu trúarbrögðin til að mynda krufningar sem aftur stóð í vegi fyrir skilningi á líffræði mannsins.

Aðferð Descartes við að búta vandamálin niður í smærri einingar og leysa þau þannig reyndist mörgum vísindagreinum vel, svo sem eðlisfræði, efnafræði og stjörnufræði. Þessi góði árangur varð til að styrkja enn í sessi heimspeki Descartes um að þessi aðferð við að hluta niður og aðskilja væri eina rétta leiðin til þekkingaröflunar.

Aðferðafræði tvíhyggjunnar einkenndi í kjölfarið heilbrigiðisvísindin líkt og önnur vísindi. Þegar hugurinn hafði verið skilinn frá líkamanum mátti halda áfram og líta á manneskjuna sem veru sem skilja mætti til hlítar með því að skoða hvernig hún væri sett saman úr grunneiningum sínum. Þetta leiddi til þess að sjúkdómur varð í raun skilgreindur sem ástand sem vék frá hinum líffræðilegu normum og stafaði af greinanlegum efnislegum þáttum – og þar með varð heilsa skilgreind sem fjarvera greinanlegs sjúkdóms.

Nú á dögum hefur skilningur okkur á manneskjunni tekið verulegum breytingum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin skilgreindi til að mynda árið 1947 heilsu sem líkamlega, andlega og félagslega vellíðan en ekki aðeins það að vera laus við sjúkdóm eða skerðingu. Almennt má kannski segja að hið nútímalega viðhorf sé að góð heilsa sé það geta lifað lífinu til fulls, bæði persónulega og í hinu félagslega umhverfi. Þetta getum við kallað hina heildrænu heilsu.

Framþróun heilbrigðisvísindana síðastliðin þrjú hundruð ár hefur að mestu verið knúin áfram af hinni efnislegu nálgun. Þessu getum við þakkað gríðarlegan árangur í meðhöndlun sjúkdóma með nýjum lyfjum og líffræðilegum aðferðum. Því er ekki að undra að tök tvíhyggjunnar séu enn firnasterk og ef til vill stundum ómeðvituð; það sem passar ekki inn í tiltekið módel er lagt til hliðar eða jafnvel talið hrein vitleysa. Slíkt er afl þessarar undirliggjandi heimspeki að við gerum okkur stundum ekki grein fyrir þeirri rörsýn sem hún kann að valda okkur og á það ekki síður við um sjúklingana sjálfa en heilbrigðisstarfsfólkið.

Kenning tvíhyggjunnar um að líkami og hugur væru aðskilin og mismunandi í eðli sínu gerði okkur kleift að ná vopnum okkar gegn ríkjandi trúarlegum viðhorfum 17. aldar sem stóðu í vegi fyrir framförum í heilbrigðisvísindum. Nú er stóra spurningin hvernig okkur tekst að tileinka okkur nýja heimspeki og þróa aðferðafræði heilbrigðisvísindanna upp á næsta stig til að uppfylla markmiðið um heildræna heilsu.

Í grein þessari hefur að mestu verið stuðst við eftirfarandi heimild: Mehta, N. (2011). Mind-body dualism: A Critique from a Health Perspective. Brain, Mind and Consciousness: An International, Interdisciplinary Perspective (A.R. Singh and S.A. Singh eds.), MSM, 9(1), bls. 202-209. Birni Þorsteinssyni prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands er þakkaður yfirlestur.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum