Greinar / 16. febrúar 2021

Það eru engir töfrar – íslenska forvarnarmódelið

Undanfarna áratugi hefur forvarnarstarf á Íslandi verið unnið út frá hinu svonefnda íslenska forvarnarmódeli. Ekki er um að ræða sérstakt verkefni eða átak – í raun má segja að módelið sé samofið íslensku samfélagi. En hvað einkennir þetta módel og hvað skýrir þann mikla árangur sem náðst hefur í því að draga úr vímuefnaneyslu meðal nemenda í efstu bekkjum á Íslandi?

Stutta svarið er að það eru engir töfrar – íslenskt samfélag er einfaldlega að gera hluti sem vitað er að virka, vitað vegna þess að módelið byggir á vísindalegum gögnum – gagnreyndri þekkingu sem sótt er í Ungt fólk kannanir Rannsókna & greiningar. Í eftirfarandi grein verður stiklað á stóru um hvað módelið inniheldur, hvaða þættir eru verndandi og hvað eru áhættuþættir, þegar kemur að frávikshegðan barna og ungmenna.

Undirstaða íslenska forvarnarmódelsins

Li3.JPG

Öflugt forvarnarstarf hefur verið rekið undanfarin ár meðal nemenda í efstu bekkjum grunnskóla á Íslandi. Árangurinn hefur verið einstakur og er vímuefnaneysla ungmenna á þessum aldri með því lægsta sem gerist í hinum vestræna heimi. Þennan góða árangur ber að þakka þeirri samstöðu sem tókst að skapa meðal flestra þeirra sem komið hafa að umönnun og uppeldi barna og unglinga undanfarin ár. Fjöldi rannsókna á málefnum barna og unglinga á mið- og efsta stigi grunnskóla sem Rannsóknir & greining hefur framkvæmt síðastliðna rúma tvo áratugi gefur raunsanna mynd af stöðu þessara mála. Þá hefur afstaða fólks til vímuefnaneyslu unglinga breyst á þessum tíma og sýnt að unnt er að ná árangri í forvarnarstarfi ef rétt er á spilum haldið og sem flestir láti sig málið varða.

Árið 1998 sýndu niðurstöður Rannsókna & greiningar að hlutfall nemenda í 10. bekk sem höfðu orðið ölvuð síðastliðna 30 daga var 42% og daglegar reykingar meðal sama aldurshóps voru 23%. Á þeim tíma má segja að blásið hafi verið í alla lúðra og ákall komið frá þeim sem störfuðu með börnunum og ungmennum að breyta þyrfti stefnu. Fjölmargt var unnið í því sambandi. Lögð var áhersla á þátt og ábyrgð foreldra og forráðamanna í lífi barna sinna. Unnið var í nærumhverfinu á hverjum stað og samstarf foreldra, skóla, sveitarfélaga, lögreglu o.fl. aðila eflt. Lög og rammar líkt og útivistartími barna, foreldrasamningar og foreldrarölt var nýtt í þágu barna. Nú í október 2020 var ölvun meðal 10. bekkinga síðastliðna 30 daga 7% og hlutfall daglegra reykingar komið niður í 1%. Þessar niðurstöður sýna okkur svo ekki verður um villst að yfirgnæfandi meirihluti barna í efstu bekkjum grunnskóla árið 2020 hefur aldrei notað vímuefni og einnig að ef staðan er slæm er hægt að breyta hugsun og hafa þannig áhrif á hegðan.

Li4.JPG

Vísindamenn Rannsókna & greiningar hafa nýtt gögn R&G til að greina þá þætti sem eru verndandi í lífi barna sem og þá þætti sem eru áhættuþættir er kemur að frávikshegðan. Þannig sýna rannsóknir R&G að þáttur foreldra og forráðamanna og þátttaka í skipulögðu íþrótta- og félagsstarfi gegna lykilhlutverki sem verndandi þættir í lífi barna og ungmenna. Þegar hlúð er að þeim þáttum sýna gögnin allajafna lágar tölur þegar kemur að vímuneyslu. Að sama skapi sýna niðurstöður að áhættuþættir í lífi barnanna er að eiga vini sem neyta vímuefna, óskipulagt hangs og slaki í félagslegu taumhaldi foreldra. Það sem einkennir íslenska forvarnarmódelið er samspil þriggja lykilþátta. Í raun má segja að forvarnarmódelið hvíli á þremur lykilstoðum sem eru notkun gagnreyndrar þekkingar sem safnað er með rannsóknum R&G, vinna í nærumhverfi þar sem fagmenn innan sveitarfélaga, einstakra hverfi og skóla nýta gögnin til að rýna í stöðuna og þá hvernig samræða er sköpuð og henni viðhaldið milli rannsakenda, stefnumótenda og starfsfólks sem vinnur með börnum/ungmennum og foreldra/forráðamanna.

Það er óumdeilt að foreldrar eru fyrirmyndir barna á fyrstu árum lífsins. Það sem við veitum börnunum okkar á þessum fyrstu árum fylgir þeim eftir um ókomna tíð. Tengslakenningar ganga meðal annars út á að þau tengsl sem við myndum við foreldra okkar sem börn verða sniðmát fyrir frekari tengslamyndun síðar á lífsleiðinni. Því kemur ekki á óvart að sterk tengsl barna við foreldra sína og fjölskyldu eru mikilvæg fyrir þroska þeirra, líðan og einstaklingsvitund. Börn og ungmenni sem eiga stöðug og jákvæð samskipti við foreldra sína, og fá mikinn stuðning frá þeim, eru líklegri til að líða vel í skóla og eignast vini þar sem svipað samskiptamynstur er haft í heiðri. Þegar unglingsárin nálgast eykst sjálfstæði og aðstæðum fjölgar þar sem unglingarnir taka sjálfir ákvörðun. Hlutverk foreldra er að aðstoðað börnin sín við þess að taka góðar ákvarðanir með því að hlusta, styðja þau og kenna þeim að vega og meta ólíka kosti. Ungt fólk rannsóknirnar sýna að samvera fjölskyldunnar skiptir máli fyrir vellíðan barna. Gott aðhald, eftirlit og stuðningur hefur jákvæð áhrif á námsárangur, auk þess að fyrirbyggja og draga úr áhættuhegðun. Stöðugleiki skiptir einnig miklu máli, en þau börn sem búa við öruggar aðstæður eru mun ólíklegri til þess að upplifa þunglyndi, kvíða og reiði en þau börn sem búa við erfiðar heimilisaðstæður.

Li1.JPG

Li2.JPG

Eins og nefnt er hér að framan er þátttaka í skipulögðu íþrótta- og félagsstarfi einn hinna verndandi þátta íslenska forvarnarmódelsins. Með skipulögðu íþrótta- og félagsstarfi er átt við starfsemi þar sem börn og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum sem þau sjálf meta að verðleikum. Á Íslandi er mikið lagt upp úr stefnumótun í faglegu starfi fyrir börn og unglinga. Ásamt því að gerð er sú krafa að nægt framboð og jöfn tækifæri séu til þátttöku í æskulýðsstarfi, er gerð krafa um að þeir sem starfa að æskulýðsmálum hafi þá menntun og þjálfun sem uppfylla kröfur samtímans. Lykilorð í þessu starfi er skipulag og hafa rannsóknir sýnt að starfsemi sem er markmiðabundin, skipulögð og í umsjón ábyrgra aðila er líklegri til að hafa uppbyggjandi áhrif í lífi ungmenna en það starf sem er ekki skipulagt og í umsjá ábyrgra aðila. Í slíku starfi er enn fremur lögð áhersla á að í öllu starfi með börnum og ungmennum skal velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Niðurstöður Ungt fólk rannsókna R&G sýna vel þann verndandi þátt sem starfsemin hefur. Á Íslandi er mikill metnaður lagður í vinnu sem snýr að skipulögðu starfi. Börn og ungmenni stunda til að mynda íþróttir í auknum mæli og það er alls ekki óalgengt að leggja stund á fleiri en eina íþrótt. Ásamt því að fá útrás fyrir hreyfiþörf hefur formlegt íþróttastarf ýmis jákvæð áhrif. Mikilvægt er greina á milli formlegs íþróttastarfs sem stundað er innan íþróttafélaga og óformlegra íþrótta sem stundaðar eru í annarskonar félagslegu samhengi og standa utan við íþróttafélögin. Ungt fólk rannsóknir R&G sýna að þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur jákvæð áhrif á líðan ungmenna, dregur úr áhættuhegðun eins og áfengisneyslu, reykingum og neyslu annarra vímuefna. Aftur á móti sýna niðurstöðurnar að þau ungmenni sem stunda eingöngu óformlegt íþróttastarf, utan íþróttafélaga, eru jafnvel líklegri en þau ungmenni sem engar íþróttir stunda til að drekka áfengi.

Skólinn gegnir að sama skapi mikilvægu hlutverki í lífi barna og ungmenna frá 6 ára aldri, þar á sér stað formleg og óformleg menntun. Í skólum myndast jafningjahópar sem munu koma til með að skipa veigamikinn sess í lífi barna fram eftir aldri. Mikilvægt er að foreldrar, nemendur og starfsfólk skóla geti unnið vel saman og ávinningur af foreldrasamvinnu kemur fram í betri líðan barna, betri námsárangri og minni líkum á vímuefnaneyslu. Líðan barna í skólanum skiptir miklu máli og mikilvægt er að fylgjast grannt með líðan einstakra barna sem og bekknum í heild.

Nýjar áskoranir

Margvíslegir þættir skapa heilsu og líðan fólks, má þar nefna neyslu, hreyfingu, samskipti, almenn lífsskilyrði og það umhverfi sem að við búum í. Saman geta þessir þættir stuðlað að betri heilsu eða jafnvel haft neikvæð áhrif á heilsu.

Líðan ungmenna hefur verið mikið í deiglunni undanfarin ár. Gögn Rannsókna & greiningar frá árinu 2000 til dagsins í dag sýna að þeim ungmennum sem upplifa kvíða eða depurð hefur fjölgað, og hefur breytingin verið töluverð á meðal stúlkna. Vissulega er þessi þróun áhyggjuefni og vafalaust er það samspil margra þátta sem hefur áhrif. Á sama tíma hafa rannsóknir þó greint mikið af þeim þáttum sem stuðla að vellíðan ungmenna, má þar helst nefna umhyggju og hlýju foreldra, stuðning, aðhald og jákvætt eftirlit.

Rannsóknir R&G hafa sýnt að svefntími íslenskra barna er ekki í samræmi við viðmið. Eftir því sem unglingar eldast eru meiri líkur á að þeir fái ekki nægan svefn. Þeir sem sofa of lítið eru auðvitað þreyttir og geta upplifað dagsyfju sem hefur áhrif á afköst og virkni yfir daginn, en það kemur meðal annars niður á námsárangri. Margir þættir hafa áhrif á svefn og svefngæði, til að mynda hefur hreyfing jákvæð áhrif á svefn á meðan skjánotkun fyrir háttatíma hefur neikvæð áhrif á svefn. Að sama skapi sýna niðurstöður Ungt fólk rannsóknanna að neysla koffíndrykkja og notkun nikótíns hefur aukist undanfarin misseri og klárt að sömu verndandi þættir virka í því sambandi. Þau börn sem neyta slíkra efna eru hlutfallslega líklegri til að búa við miður gott taumhald foreldra, þau upplifa minni samveru með foreldrum og eru líklegri til að vera úti eftir að lögbundnum útivistartíma lýkur.

Höldum áfram að gera það sem við vitum að virkar

Íslenskt samfélag hefur náð góðum árangri með forvörnum gegn vímuefnaneyslu barna og ungmenna undanfarna áratugi. Íslendingar eru þannig fyrirmyndir annarra þjóða þegar kemur að slíkri vinnu. Mikilvægt er að átta sig á að vinna í forvörnum er ekki átaksverkefni heldur langtíma vinna. Það er ómögulegt að sjá fram í tímann en rétt ákvörðun í dag getur skipt sköpum fyrir framtíðina. Starfið hefur á þessum tíma, einkum og aðallega beinst að nemendum í efstu bekkjum grunnskóla og vímuefnaforvarnir meðal eldri ungmenna hafa hlotið minni athygli. Sá árangur sem náðst hefur meðal unglinga á grunnskólastigi á undanförum árum mun ekki nást meðal eldri ungmenna, nema að við notum svipaðar grunnaðferðir og þar voru nýttar. Lykilatriðið er samstarf allra þeirra aðila sem koma að uppeldi og daglegu lífi þessara ungmenna. Rannsóknirnar Ungt fólk væru ekki framkvæmanlegar án samstarfs við skólafólk; bæði kennara og nemendur. Framlag skólastjórnenda, kennara og nemenda í grunn- og framhaldsskólum landsins, aðstoð þeirra við fyrirlagnir og sú natni sem þeir gjarnan sýna við að koma til okkar athugasemdum um hvað betur megi fara, slíkt er algjörlega ómetanlegt.

Nauðsynlegt er að beina forvörnum að heildinni ef ætlunin er að ná til þeirra einstaklinga sem eru í mestri áhættu. Sú nálgun sem líklegust er til að bera árangur er að líta á vímuefnaneyslu ungmenna sem félagslegt og aðstöðubundið mál sem megi breyta með samræmdum aðgerðum í nær samfélaginu og mikilvægt er að slík forvörn sé unnin í samstöðu allra þeirra sem koma að málefnum barna og ungmenna. Lykilatriði er að allir þeir sem að málefnum barna- og ungmenna koma til dæmis; foreldrar, fagaðilar innan einstakra sveitarfélaga, kennarar og aðrir starfsmenn skóla, félagasamtök ásamt öðrum aðilum í stefnumótun og stjórnmálamönnum, vinni saman. Þannig náum við að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur og einnig takast á við nýjar áskoranir sem stöðugt banka uppá í lífi barnanna okkar.

Nánari upplýsingar um íslenska forvarnarmódelið má nálgast á heimasíðu Rannsókna og greiningar, rannsoknir.is

Margrét Lilja Guðmundsdóttir

Sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu

Nýtt á vefnum