Greinar / 16. febrúar 2021

Skaðvaldurinn einelti

Félagslegt og andlegt heilbrigði barna og unglinga á Íslandi er eitthvað sem skiptir okkur flest miklu máli. Óhætt er að segja að einelti sé einn af þeim þáttum sem geta haft neikvæð áhrif þar á og geng ég svo langt að kalla einelti einn helsta skaðvald í lífi barnanna okkar. Í þessari grein ætla ég að útskýra af hverju.

Hvað er einelti?

Ef fjalla á um einelti þarf að byrja á að útskýra hvað það er nákvæmlega. Orðið einelti er nefnilega oft misnotað og ofnotað hér á landi og örugglega víðar. Mikilvægt er að halda því til haga að ekki er öll neikvæð hegðun í garð annars einelti, því til að um einelti sé að ræða þarf endurtekin neikvæð hegðun að vera til staðar, ásamt misbeitingu á valdi og valdaójafnvægi. Dæmi um hegðun sem er neikvæð en er ekki einelti er a) stríðni, þar sem viðhöfð er særandi hegðun og aðeins öðrum aðilanum finnst gaman, b) samskiptavandi, þar sem neikvæð hegðun er til staðar en báðir aðilar eiga hlut að máli og c) einstök neikvæð jafnvel ofbeldisfull atvik. Stríðni, samskiptavandi og einstök neikvæð atvik hafa oft slæm áhrif ásamt því að geta þróast yfir í að vera einelti. Því þarf að sjálfsögðu að taka á þeim en án endurtekningar, þar sem barn verður fyrir síendurteknu niðurbroti, er með slæma félagslega stöðu og býr við valdaójafnvægi gagnvart gerenda eða gerendum sínum þá er ekki um einelti að ræða. Stundum getur þó verið erfitt að greina á milli hvað er einelti og hvað er önnur neikvæð hegðun og hægt er að flakka þar á milli. Þetta gerir fagfólki sem vinnur með börnum oft erfitt um vik. Ég er með skýra lausn á þessu: Það skiptir ekki svo miklu máli hvað þetta heitir, aðal málið er að barni eða börnum líður illa og það þarf að leysa. Nú virka ég kannski í mótsögn við mig sjálfa, því ég fjalla hér fyrir ofan um mikilvægi þess að greina á milli hvað er einelti og hvað ekki. Staðreyndin er að hvoru tveggja er mikilvægt. Við þurfum að vera með það á hreinu hvað einelti er og hvað ekki en á sama tíma að átta okkur á að þetta hugtak er mjög flókið og í sumum tilfellum nær ógreiningur að segja til um hvort um einelti er að ræða eða ekki. Það eina sem er alveg öruggt er vanlíðan barnanna og þangað á að beina kröftum fagfólksins og foreldra.

Ein2.JPG

Víðtækur vandi

EIN.JPG

Hér á landi höfum við staðið okkur frekar vel í að taka á einelti, í alþjóðlegum samanburði. Gríðarleg þekking hefur myndast í skólum landsins og fullt af metnaðarfullu fagfólki er að vinna mjög gott starf. Þá tryggja lög og reglugerðir að einelti á ekki að líðast og ber starfsfólki skóla, sem og foreldrum að tryggja að svo verði. Til að mynda eiga skólar að vera með eineltisáætlanir og foreldrar eiga að vinna með skólum að lausn mála. Þrátt fyrir lögin og reglugerðirnar, eineltisáætlanirnar og alla þá vinnu sem er í gangi hefur þeim börnum í 6., 8. og 10. bekk sem finnst þau vera lögð í einelti fjölgað, samkvæmt rannsókninni Heilsa og lífskjör skólabarna. Auk þess, samkvæmt íslenskum og alþjóðlegum rannsóknum, snertir einelti 20 – 30% barna með beinum hætti. Það þýðir að tvö til þrjú börn af hverjum tíu svara þeirri spurningu játandi að þau hafi annað hvort lagt í einelti, orðið fyrir því eða hvoru tveggja. Ef áhorfendur og þeir sem styðja gerenda eru taldir með þá hækkar þessi tala umtalsvert. Þessir óbeinu þátttakendur verða margir hverjir einnig fyrir neikvæðum áhrifum af einelti, því það eitrar anda í bekkjum og hópum, veldur ugg og ótta, samviskubiti og ýtir undir neikvæða menningu. Ef þetta er sett í samhengi við alvarlegar og langvarandi afleiðingar eineltis þá má sjá að einelti er alvarleg ógn við lýðheilsu og velferð barna á Íslandi.

Áhrif og afleiðingar

kat-j-NPmR0RblyhQ-unsplash (1).jpg

Afleiðingar eineltis á þolendur hafa verið staðfestar í ótal rannsóknum innanlands sem utan. Má þar nefna kvíða, þunglyndi, áfallastreitu, einmannaleika, óöryggi, ótta, brottfall úr skóla, líkamleg einkenni, eins og svefnvandamál og magaverk, sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg. Að sama skapi getur það að leggja í einelti haft neikvæð áhrif, þar á meðal áframhaldandi andfélagslega og ofbeldisfulla hegðun, neyslu, þunglyndi, skólaforðun, sakfellingu fyrir glæpi og sjálfsvíg. Þessar afleiðingar geta fylgt einstaklingum fram á fullorðinsár, eins og fram kemur í rannsókn sem ég, ásamt nemendum við Háskóla Íslands, höfum unnið á undanförnum árum. Um er að ræða um 150 viðtöl við fyrrum þolendur og gerendur eineltis og sýna niðurstöður að nær allir tala um afleiðingar á fullorðinsárum, bæði þolendur og gerendur. Athygli vekur að gerendur ræða um þá ósk sína að þeim hefði verið hjálpað á barnsaldri, þeir eru með samviskubit og vildu að þeir hefðu verið stoppaðir af. Margir hafa þurft að leita aðstoðar fagfólks, eins og sálfræðinga. Þolendur lýsa víðtækum og mjög alvarlegum afleiðingum sem hafa litað líf margra á neikvæðan hátt. Margir hafa þurft að nýta sér ýmis kerfi samfélagsins ásamt sálfræðimeðferð. Lýsingarnar eru afskaplega sorglegar og þyngri en tárum taki. Við verðum því sem samfélag að standa okkur betur.

Aukin harka í samskiptum

Í þessu samhengi verð ég að minnast á að teikn eru á lofti í samfélaginu um aukna grimmd í samskiptum. Fullorðið fólk leyfir sér ummæli og hegðun sem er ekki til fyrirmyndar fyrir börnin okkar og harka hefur færst í samskipti barnanna. Þau nota dónaleg orð, finna veika bletti á öðrum börnum, útiloka, eru með fordómafull ummæli um samkynhneigða og börn af erlendum uppruna svo eitthvað sé nefnt. Þetta er daglegt brauð í of mörgum barnahópum hér á landi. Mörkin virðast hafa færst til. Þá eru börn sem ekki hafa aldur til inni á samfélagsmiðlum sem þau ráða ekki við. Ég aðstoða í mörgum grunnskólum í erfiðum málum og eru samfélagsmiðlar hluti af vandanum í langflestum tilfellum. Að segja eitthvað ljótt og særandi við einhvern gegnum tæki, jafnvel nafnlaust er mun auðveldara en augliti til auglitis. Í sumum tilfellum hverfa skilaboðin, sem gerir það enn meira freistandi að segja eitthvað ljótt. Mörg börn ráða illa við þetta og úr verða niðurbrjótandi skilaboð sem oft ganga fram og til baka milli barnanna eða beinast að einu barni sem verður með endurtekningu að rafrænu einelti. Önnur birtingamynd rafræns eineltis er höfnun og útilokun sem börn beita því miður ansi oft. Samskiptamiðlarnir og stundum tölvuleikirnir hafa því sínar skuggahliðar og geta verið tæki til að særa, meiða og leggja í einelti. Það er okkar fullorðna fólksins að sjá til að svo verði ekki og er ábygð foreldra gagnvart börnum sínum þar algjört lykilatriði. Ábyrgð kennara og fagfólks í grunnskólum er einnig mikil, því í meistararitgerð Katrínar Hallgrímsdóttur kemur fram að 47,5% af þeim tæpu 10% sem sögðust hafa orðið fyrir rafrænu einelti á síðustu tveimur mánuðum sögðu að eineltið hefði farið fram eingöngu í skólanum eða bæði í skólanum og eftir skóla. Börnin okkar í dag eru flott, klár, einlæg, umhyggjusöm og vel upplýst en nýjar hættur blasa við, hættur sem við virðumst ekki vera búin að læra almennilega á. Nú þurfum við fullorðna fólkið að bretta upp ermar, skella okkur í hlaupagallann og hlaupa börnin uppi, ná þeim, læra á þetta nýja umhverfi, búa til ramma og reglur, fræða og beina á réttar brautir. Hjálpa þeim að nýta tæknina á góðan hátt, krefjast þess að þau geri það og vera alveg skýr með að í okkar fjölskyldu sé það einfaldlega ekki í boði að nota tæknina á meiðandi og særandi hátt.

Allir með

Að lokum vil ég benda á mikilvægi þess að tilheyra og vera hluti af hóp. Einelti ræðst gegn þessari sammannlegu þörf og upplifa þolendur höfnun og útilokun. Lokaðu augunum og ímyndaðu þér að þú megir ekki vera með, allir svara nei þegar þú spyrð hvort þeir vilja leika, engin svarar á samfélagsmiðlum, engin „lækar“ neitt sem þú gerir, þér er hent út úr hópum á Snapchat, engin spyr eftir þér, enginn yrðir á þig í skólanum, þú ráfar ein um skólalóðina í frímínútum. Hver höfnun er eins og hnífur í hjartastað. Það er ekkert grín að standa slíkt af sér án afleiðinga. Höfnun veldur kvíða og vanlíðan, minnkar sjálfstraust, hefur neikvæð áhrif á sjálfsmynd, veldur sjálfsásökun og skömm. „Það hlýtur eitthvað að vera að mér.“ Höfnun veldur svefnleysi, magaverk og höfuðverk. „Verð ég alveg ein í skólanum á morgun?“ Höfnun veldur einmannaleika, vonleysi og uppgjöf. „Mér finnst bara fínt að vera einn heima“ sagði drengur við mig fyrir nokkrum árum. Hann meinti það ekki, hann langaði mest í heiminum að eignast vini en það var búið að hafna honum svo oft að hann lagði ekki í að vera hafnað einu sinni enn. Hann lokaði sig því af, einn heima og taldi sjálfum sér trú um að þetta væri það sem hann vildi. Höfunin hefur neikvæð áhrif á félagslega, andlega og líkamlega heilsu, á lífsgæði, velferð og vellíðan. Þess vegna er alvarlegt að eitt af því sem ég hef tekið eftir í þeim málum sem ég er að vinna að er aukning á höfnun og útilokun. Það er svo auðvelt að segja: „En ég gerði ekki neitt“ og þá áttum við okkur kannski ekki á að einmitt það að gera ekki neitt, að hundsa og útiloka er að gera alveg heilmikið. Félagsleg útilokun er í einu orði sagt hræðileg. Allir sem vinna með börnum verða að skoða hópinn sinn reglulega og gæta að því að enginn verði út undan.

Við verðum að passa að allir tilheyri, að allir fái að vera með.

Vanda Sigurgeirsdóttir

Lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ og einn af eigendum og þjálfari hjá KVAN

Nýtt á vefnum