Greinar / 17. febrúar 2022

Ef við ættum að gera eitthvað eitt …

Árlegur kostnaður vegna heilsufarsskaða á Íslandi nemur um þúsund milljörðum króna sé miðað við æviár sem glatast vegna ótímabærs dauða og skerðingar, margfaldað með landsframleiðslu á íbúa. Þetta er fjórum sinnum meira en það sem áætlað er að verja til mótvægisaðgerða vegna Covid-19 árin 2020–2022. Þetta er líka þrisvar sinnum meira en varið er árlega til heilbrigðismála.

Hvað getum við gert til að stemma stigu við þúsund milljarða heilsufarsskaða svo ekki sé minnst á þann mannlega harmleik sem liggur þar að baki? Þótt við búum við gott og öflugt heilbrigðiskerfi er það fyrst og fremst viðbragðsdrifið og fer í gang þegar skaðinn er skeður. Augljós sóknarfæri eru því í fræðslu- og forvarnastarfi ýmis konar enda er yfirgnæfandi hluti heilsufarsskaðans á áhrifasviði lífsstíls. En samhliða fræðslu þarf helst einnig að koma til fjárhagslegur hvati eða stjórnvaldsákvarðanir til að fræðslan ein skili tilætluðum árangri.

Sykursýki er sá áhættuþáttur ótímabærs dauða og skerðingar sem er í hröðustum vexti á Íslandi. Nýgengi sykursýki hefur nú þegar meira en tvöfaldast á Íslandi á þessari öld og líklegt að hún eigi eftir að tvöfaldast aftur á næstu árum. Ofþyngd og offita er svo næststærsti einstaki áhættuþáttur sjúkdómsbyrðinnar á eftir tóbaksnotkun og í næstu sætin þar á eftir raða sér háþrýstingur, slæmt mataræði, hár blóðsykur og blóðfita. Þetta eru allt nátengdir áhættuþættir þar sem of mikil sykurneysla er stór sameiginlegur þáttur.

Ef við gætum aðeins gert eitthvað eitt til að lækka þúsund milljarða heilsufarsskaða og draga úr mannlegri þjáningu, þá væri það að draga úr neyslu á sykri. Árið 2013 var gerð tilraun hér á landi til að leggja afar hóflegt vörugjald á sykur, sem langsamlega óhollasta einstaka næringarefnið sem í boði er á opnum markaði. Sykurskatturinn 2013 var bæði bitlaus og illa grundaður og í aðdragandanum var flutt inn gríðarmikið sykurfjall sem entist megnið af 21 mánaðar gildistíma skattsins.

Frelsi fylgir ábyrgð. Við getum ekki verið frjálshyggjumenn meðan við fórnum heilsunni með slæmum lífsstíl en félagshyggjumenn þegar að því kemur að borga reikninginn. Fyrir liggja tillögur sérfræðingahóps um hvernig beita megi vörugjaldi á sykur með betri hætti sem skilað var til heilbrigðisráðuneytisins í október 2020. Það er löngu kominn tími til að sykurgjald bætist í hóp sjálfsagðra mótvægisaðgerða líkt og áfengisgjald og tóbaksgjald.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum