Rekstrareiningar

SÍBS á og rekur endurhæfingarmiðstöðina Reykjalund og öryrkjavinnustaðinn Múlalund, SÍBS Verslun og Happdrætti SÍBS.  SÍBS tekur jafnframt þátt í Icelandic Health Symposium og Stuðningsneti sjúklingafélaganna.   

Múlalundur

Múlalundur er stærsta og elsta öryrkjavinnustofa landsins þar sem öryrkjar njóta endurhæfingar ásamt því að framleiða og selja mest allra af bréfabindum og lausblaðabókum. Starfsemin hófst árið 1959. Fyrirtækið er í eigu SÍBS og er rekið af því. 

Í Múlalundi hefur fólk með skerta starfsorku átt þess kost að vinna létt störf við hagnýtan iðnað þar sem vinnutími getur verið sveigjanlegur. Nú vinna um 40 manns hjá fyrirtækinu en Múlalundur flutti upp að Reykjalundi árið 2010 og hófst vinna þar mánudaginn 3. maí. Múlalundur hefur sérhæft sig í framleiðslu á plast- og pappavörum fyrir skrifstofur ásamt fylgihlutum skrifstofunnar.

Vefsíða: www.mulalundur.is

Reykjalundur

Reykjalundur er stærsta endurhæfingarstofnun landsins. Árlega njóta þar á fjórða þúsund sjúklingar meðferðar, ýmist á sólarhringsdeild, dagdeild eða göngudeild. Þar fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að því að bæta lífsgæði, færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita. Meðferðin á Reykjalundi byggist á hugmyndafræði endurhæfingar þar sem teymisvinna sérhæfðs fagfólks er lögð til grundvallar. Markmiðið er að sjúklingar nái aftur eins góðri andlegri, félagslegri og líkamlegri færni og mögulegt er. Lögð er áhersla á að sníða meðferðina að þörfum sjúklinga og fer hún fram bæði í hópum og einstaklingsbundið.

Vefsíða: www.reykjalundur.is

SÍBS verslun

SÍBS Verslun opnaði í desember 2015. Verslunin er rekin án hagnaðarsjónarmiða. Þar má finna fjölbreytt úrval af stoðvörum og heilsutengdum vörum.  Fyrir þá sem búa út á landi eða eiga erfitt með að koma til okkar þá má nýta sér vefverslunina okkar. 

Heimilisfang Síðumúli 6 - SÍBS húsið 
Veffang: www.verslun.sibs.is

Happdrætti SÍBS

HAPPDRÆTTI SÍBS er hornsteinn framkvæmda á Reykjalundi og undirstaða þess að hægt er að sinna fölmörgum öryrkjum og veita þeim atvinnu við hæfi. Það var stofnað til að kosta uppbyggingu endurhæfingarmiðstöðvar á Reykjalundi og hefur alla tíð síðan staðið undir uppbyggingu að Reykjalundi, Múlalundi og víðar þar sem SÍBS hefur lagt hönd á plóg til að styðja sjúka til sjálfsbjargar. 

Önnur verkefni

SÍBS kom að stofnun HL stöðvarinnar, sjálfseignastofnunar sem stofnuð var 1989. Markmið HL stöðvarinnar er að veita hjarta- og lungnasjúklingum endurhæfingu í beinu framhaldi af sjúkrahúsvist og/eða framhaldsendurhæfingu. 

SÍBS er hluthafi í Icelandic Health Symposium sem stendur fyrir ráðstefnunni "Foodloose" um heilsu og næringu þann 25. maí 2016 í Hörpunni. Markmið IHS er að vinna að verkefnum tengdum bættri heilsu, forvörnum og lífsstílstengdum sjúkdómum.  

SÍBS kom að stofnun Stuðningsnets sjúklingafélaganna sem stofnað var 18. janúar 2018. Að Stuðningsnetinu standa 15 sjúklingafélög. 

Um SÍBS