Rekstrareiningar

SÍBS á og rekur endurhæfingarmiðstöðina Reykjalund og öryrkjavinnustaðinn Múlalund, SÍBS Verslun og Happdrætti SÍBS. SÍBS tekur jafnframt þátt í Icelandic Health Symposium og Stuðningsneti sjúklingafélaganna.

Múlalundur

Múlalundur vinnustofa SÍBS er öflugt þjónustu- og framleiðslufyrirtæki sem rekið er af SÍBS í því skyni að skapa störf fyrir fólk með skerta starfsorku. Þar starfar saman fjölbreyttur hópur fólks með og án örorku og eftirspurn eftir störfum er mikil.

Múlalundur selur eigin framleiðslu og vörur frá innlendum og erlendum birgjum, auk þess að taka að sér fjölbreytt verkefni. Kaup á vörum og þjónustu af Múlalundi eru einföld og árangursrík samfélagsverkefni sem hafa bein áhrif á framboð starfa. Tekjur Múlalundar koma að mestu af sölu á fjölbreyttum vörum og þjónustu sem er nær einsdæmi í starfsemi sem þessari.

Saga Múlalundar nær allt aftur til ársins 1959 þegar sjúklingasamtökin SÍBS stofnuðu vinnustofu fyrir öryrkja sem áttu í erfiðleikum með að fá störf við hæfi eftir endurhæfingu. Frá upphafi hafa viðskiptavinir Happdrættis SÍBS verið bakhjarl Múlalundar.

Vefsíða: www.mulalundur.is

Reykjalundur

Reykjalundur er stærsta endurhæfingarstofnun landsins. Árlega njóta þar á fjórða þúsund sjúklingar meðferðar, ýmist á sólarhringsdeild, dagdeild eða göngudeild. Þar fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að því að bæta lífsgæði, færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita. Meðferðin á Reykjalundi byggist á hugmyndafræði endurhæfingar þar sem teymisvinna sérhæfðs fagfólks er lögð til grundvallar. Markmiðið er að sjúklingar nái aftur eins góðri andlegri, félagslegri og líkamlegri færni og mögulegt er. Lögð er áhersla á að sníða meðferðina að þörfum sjúklinga og fer hún fram bæði í hópum og einstaklingsbundið.

Vefsíða: www.reykjalundur.is

SÍBS verslun

SÍBS Verslun opnaði í desember 2015. Verslunin er rekin án hagnaðarsjónarmiða. Þar má finna fjölbreytt úrval af stoðvörum og heilsutengdum vörum. Fyrir þá sem búa út á landi eða eiga erfitt með að koma til okkar þá má nýta sér vefverslunina okkar.

Heimilisfang Síðumúli 6 - SÍBS húsið
Veffang: www.verslun.sibs.is

Happdrætti SÍBS

HAPPDRÆTTI SÍBS er hornsteinn framkvæmda á Reykjalundi og undirstaða þess að hægt er að sinna fölmörgum öryrkjum og veita þeim atvinnu við hæfi. Það var stofnað til að kosta uppbyggingu endurhæfingarmiðstöðvar á Reykjalundi og hefur alla tíð síðan staðið undir uppbyggingu að Reykjalundi, Múlalundi og víðar þar sem SÍBS hefur lagt hönd á plóg til að styðja sjúka til sjálfsbjargar.

Önnur verkefni

SÍBS kom að stofnun HL stöðvarinnar, sjálfseignastofnunar sem stofnuð var 1989. Markmið HL stöðvarinnar er að veita hjarta- og lungnasjúklingum endurhæfingu í beinu framhaldi af sjúkrahúsvist og/eða framhaldsendurhæfingu.

SÍBS er hluthafi í Icelandic Health Symposium sem stendur fyrir ráðstefnunni "Foodloose" um heilsu og næringu þann 25. maí 2016 í Hörpunni. Markmið IHS er að vinna að verkefnum tengdum bættri heilsu, forvörnum og lífsstílstengdum sjúkdómum.

SÍBS kom að stofnun Stuðningsnets sjúklingafélaganna sem stofnað var 18. janúar 2018. Að Stuðningsnetinu standa 15 sjúklingafélög.

Um SÍBS