Aðildarfélög

Aðildarfélög SÍBS er fimm talsins og hvert og eitt þeirra hefur ákveðið sérsvið.Tilgangur SÍBS er að sameina innan vébanda sinna fólk með berkla, hjartasjúkdóma, lungnasjúkdóma, astma- og ofnæmi og svefnháðar öndunartruflanir og vinna að bættri aðstöðu og þjónustu við þann hóp. 

Hjartaheill

Hjartaheill eru landssamtök hjartasjúklinga og voru samtökin stofnuð 8.október árið 1983. Stofnfélagar voru 230, flestir hjartasjúklingar, vandamenn þeirra og velunnarar þeirra, en einnig voru þar læknar og hjúkrunarfólk. Árið 2004 var nafni samtakanna breytt í Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga. Starfsemi Hjartaheilla og markmið samtakanna snýst meðal annars um að sameina félagsmenn til baráttu fyrir hagsmunamálum hjartasjúklinga og gæta réttar þeirra á öllum sviðum, að vinna að úrbótum á sviði heilbrigðisþjónustu og bættri félagslegri aðstöðu hjartasjúklinga.

Vefsíða: www.hjartaheill.is
 

Berklavörn

Allt frá stofnun SÍBS hafa SÍBS deildir verið virkar í starfi samtakanna. Fyrst inni á berklahælunum og síðan í sjálfstæðum félögum sem störfuðu um land allt. Þeim hefur síðan fækkað mjög og nú hafa Reykjavíkurdeild og deildir á Suður- og Vesturlandi, aðrar en Reykjalundardeildin, sameinast undir nafninu Berklavörn.

Aðrar SÍBS deildir eru Reykjalundardeild, Akureyrardeild og Austurlands-deild. Samstarf er með þessum deildum, enda teljast þær sameiginlega vera ein af fimm meginstoðum SÍBS.

Samtök lungnasjúklinga

Samtök lungnasjúklinga voru stofnuð þann 20.maí 1997 af lungnasjúklingum og öðrum áhugamönnum um velferð lungnasjúklinga og forvarnir. Markmið frá stofnun samtakanna hefur verið að vinna að velferðar og hagsmunamálum lungnasjúklinga. Lungnasjúklingar hittast reglulega á mánudögum kl 16-18 í Síðumúla 6 fá sér kaffi og spjalla saman. Fræðslufundir eru haldnir reglulega á vegum samtakana um lungnasjúkdóma og málefni tengdum þeim og hafa þeir verið vel sóttir af félögum. Samtökin gefa út tvö fréttabréf á ári tengd lungnasjúkdómum og lungnapésa sem er bæklingur um lungnasjúkdóma og hvernig hægt er að lifa með þeim.

Vefsíða: www.lungu.is

Astma– og ofnæmisfélag Íslands

Astma– og ofnæmisfélag Íslands var stofnað 1974 til að berjast fyrir hagsmunum þeirra sem eru með astma og ofnæmi. Félagið leggur áherslu á á fræðslu og þjónustu við félagsmenn sína. Félagið heldur fræðslufundi, gefur út fréttablöð og bæklinga. Félagið talar máli sjúklinga með astma og ofnæmi við yfirvöld heilbrigðismála, kennslumála og aðra áhrifahópa í þjóðfélaginu. Félagið er deild í Samtökum íslenskra berkla – og brjóstholsskjúklinga (SÍBS) og aðili að norrænum samtökum sjúklinga með astma og ofnæmi. 

Vefsíða: www.ao.is

Vífill

Vífill er félag einstaklinga sem eru með kæfisvefn eða aðrar svefnháðar öndunartruflanir. Talið er að ca. 20.000 manns séu með kæfisvefn á Íslandi. Í dag er búið að greina yfir 5000 einstaklinga og eru nú u.þ.b. 2000 einstaklingar sem sofa daglega með grímu og loftdælu til hjálpar á öndun í svefni. Vífill er að reyna að ná til þessa stóra sjúklingahóps sem er með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir. Það er félaginu kappsmál að skapa félagsmönnum sínum vettvang til að hittast, skiptast á skoðunum, fræðast og fjalla sameiginlega um þennan sjúkdóm og skyld efni. Auk þessa sinnir félagið fræðslu út fyrir félagið. Með þessu er félagið að reyna að bæta lífsgæði félagsmanna sinna og annarra landsmanna sem eins er ástatt um.

Sjálfsvörn

Sjálfsvörn, Reykjalundardeild SÍBS, var stofnuð 13.febrúar 1945 af 19 af þáverandi vistmönnum á Reykjalundi.  Deildin hefur verið starfandi síðan en áherslur hafa eðlilega breyst í tímans rás. Nú er deildin opin öllum þeim sem vilja starfa að markmiðum hennar, þ.e. „ að vinna að stefnumálum í samræmi við lög SÍBS og stuðla að góðum aðbúnaði þeirra sem njóta endurhæfingarmeðferðar á Reykjalundi. Einnig að eiga samstarf við aðrar deildir og félög um markmið SÍBS“.

Um SÍBS