Lög, stjórnskipulag og starfsreglur
Lög SÍBS
Lög SÍBS samþykkt á aukaþingi SÍBS 14. október 2021
- 1.gr. Nafn
1.1 SÍBS, kennitala 550269-7409.
- 2. gr. Tilgangur
2.1 Að sameina innan vébanda SÍBS aðildarfélög einstaklinga með berkla, hjarta- og lungnasjúkdóma, astma og ofnæmi, sjúklinga með svefnháðar öndunartruflanir og aðra langvinna, lífsstílstengda sjúkdóma.
2.2 Að vinna að því að heilbrigðisþjónusta og félagsleg aðstaða þessara sjúklingahópa verði jafnan sem best.
2.3 Að stuðla að fræðslu um áðurnefnda sjúkdóma og rannsóknum á þeim, sem og að beita sér fyrir forvörnum.
2.4 Að hafa samstarf um markmið SÍBS við hliðstæð félög innlend og erlend.
2.5 Að reka fyrirtæki sem styðja við tilgang SÍBS og vinna að framtíðaruppbyggingu á nýjum sviðum.
- 3. gr. Aðildarfélög
3.1 SÍBS er skipað aðildarfélögum sbr. gr. 2.1.
3.2 Umsókn um aðild að SÍBS skal berast stjórn SÍBS eigi síðar en þremur mánuðum fyrir aðalfund SÍBS og skal stjórnin senda slíka umsókn til umsagnar hjá aðildarfélögum SÍBS.
3.3 Aðalfundur SÍBS fjallar um hverja aðildarumsókn og þarf ⅔ hluta greiddra atkvæða til að aðild teljist samþykkt.
3.4 Öll aðildarfélög eru sjálfstæðar einingar innan vébanda SÍBS og njóta réttinda og bera skyldur samkvæmt lögum þess. Hinar eldri berkladeildir koma þó fram í heild sem eitt aðildarfélag innan SÍBS.
- 4. gr. Skyldur aðildarfélaga
4.1 Aðalskrifstofa SÍBS heldur heildarskrá yfir félagsmenn aðildarfélaga innan SÍBS. Aðildarfélög skulu senda skrifstofunni uppfært félagatal um hver áramót sem stjórn SÍBS fer yfir og staðfestir.
4.2 Til að öðlast seturétt á aðalfundi SÍBS skulu aðildarfélögin vera skuldlaus við SÍBS, halda löglega aðalfundi og skila endurskoðuðum ársreikningi og skýrslu stjórnar í síðasta lagi 31. desember ár hvert fyrir næstliðið ár.
4.3 Uppfylli aðildarfélag ekki skilyrði gr. 4.2 um þátttöku á aðalfundi SÍBS fellur aðild þess að SÍBS sjálfkrafa úr gildi frá og með aðalfundardegi.
- 5 gr. Aðalfundur SÍBS
5.1 Aðalfundur SÍBS fer með æðsta vald í málefnum SÍBS og skal hann haldinn árlega fyrir lok júní. Stjórn SÍBS er heimilt að kalla saman aukaaðalfund.
5.2 Stjórn SÍBS skal tilkynna aðildarfélögum um dagsetningu aðalfundar með fjögurra vikna fyrirvara. Aukaaðalfund skal boða með tveggja vikna fyrirvara.
5.3 Aðalfundir eru skipaðir fulltrúum aðildarfélaga sem skipaðir eru samkvæmt reglum hvers aðildarfélags. Umboð þeirra tekur til aukaaðalfunda ef haldnir eru. Aðalfundarfulltrúar geta aðeins verið félagsmenn í aðildarfélögum, sem ekki eru fastir starfsmenn þeirra, SÍBS eða rekstrareininga þess.
5.4 Hvert aðildarfélag má skipa aðalfundarfulltrúa út frá félagafjölda sínum skv. gr. 4.1 eftir neðangreindri töflu:
Félagsmenn - Fulltrúar
- 0–99 1
- 100–199 2
- 200–499 4
- 500–749 6
- 750–999 8
- 1000–1999 10
- 2000–2999 12
- 3000–3999 14
- 4000–4999 16
- 5000 og fleiri 18
Aldrei skal þó eitt aðildarfélag hafa meira en þriðjung leyfðra aðalfundarfulltrúa.
5.5 Skila skal til skrifstofu SÍBS framboðum til stjórnar, skriflegum ályktunartillögum og kjörbréfum undirrituðum af formanni og ritara aðildarfélags eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund.
5.6 Stjórnarmenn í stjórn SÍBS og nefndarmenn í fastanefndum, sem ekki eru kjörnir fulltrúar, hafa fullt málfrelsi og tillögurétt á aðalfundi SÍBS. Jafnframt hefur hver framkvæmdastjóri rekstrareiningar SÍBS málfrelsi á þingi og tillögurétt um málefni varðandi þá rekstrareiningu er hann stjórnar.
5.7 Dagskrá aðalfundar SÍBS:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara.
- Fundarstjóri úrskurðar um lögmæti kjörbréfa.
- Lagðar fram skýrslur stjórnar SÍBS, einstakra rekstrareininga, fastanefnda og aðildarfélaga um störf þeirra milli aðalfunda.
- Staðfesting samstæðureiknings næstliðins rekstrarárs.
- Afgreiðsla löglega fram kominna tillagna til lagabreytinga, sbr. gr.9.
- Kosning í stjórn SÍBS skv. gr. 6.3, 6.4 og 6.5.
- Ákvörðun árgjalds aðildarfélaga til SÍBS.
- Ályktunartillögur skv. gr. 5.5 og önnur mál.
5.8 Fundargerð skal send aðildarfélögum eigi síðar en einum mánuði eftir aðalfund. Athugasemdir skulu sendar stjórn innan mánaðar þar eftir. Fundarstjóri og fundarritari árita lokaútgáfu fundargerðar.
- 6. gr. Stjórn SÍBS
6.1 Stjórn SÍBS fer með æðsta vald í málefnum SÍBS milli aðalfunda.
6.2 Tillögur um innra skipulag og skipurit rekstrareininga SÍBS skal leggja fyrir stjórn SÍBS til staðfestingar áður en þær koma til framkvæmda. Með sama hætti setur stjórnin SÍBS skipurit.
6.3 Stjórnarmenn SÍBS skulu kosnir á aðalfundi SÍBS til tveggja ára í senn og skal stjórnin skipuð 5 aðalmönnum og 2 til vara.
6.4 Formaður, tveir meðstjórnendur og einn varamaður skulu kosin á oddatöluári. Varaformaður, einn meðstjórnandi og einn varamaður skulu kosin á slétttöluári. Falli atkvæði jöfn skal varpað hlutkesti.
6.5 Í stjórn geta setið allir félagsmenn í aðildarfélögum, sem ekki eru fastir starfsmenn þeirra, SÍBS eða rekstrareininga þess.
- 7. gr. Fundir stjórnar SÍBS
7.1 Formaður SÍBS kallar saman stjórn að jafnaði einu sinni í mánuði eða oftar eftir því sem efni standa til. Formanni er skylt að boða stjórnarfund ef þrír stjórnarmanna eða fleiri óska þess.
7.2 Fundur er lögmætur ef meirihluti stjórnar SÍBS er mættur, enda hafi öllum stjórnarmönnum verið boðaður fundurinn með hæfilegum fyrirvara. Varamönnum skal heimil fundarseta þótt stjórn SÍBS sé fullskipuð. Ætíð skal kynna varamönnum fundarefni stjórnarfunda með sama hætti og aðalmönnum.
7.3 Gerðabók skal halda yfir fundi stjórnar SÍBS. Fundargerð hvers fundar skal samþykkt af stjórn.
- 8. gr. Lagabreytingar
8.1 Lögum þessum má breyta á aðalfundi SÍBS með samþykki ⅔ hluta greiddra atkvæða. Aðalfundur getur aðeins tekið lagabreytingar til afgreiðslu hafi minnst helmingur leyfðra fulltrúa mætt á aðalfundinn.
8.2 Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórn SÍBS þremur vikum fyrir aðalfund SÍBS. Hún sendir þær aðildarfélögunum til kynningar minnst tveimur vikum fyrir aðalfundinn. Hafi aðildarfélag athugasemdir við tillögurnar, skal stjórn þess senda þær skriflega til skrifstofu SÍBS eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund SÍBS.
- 9. gr. Félagsslit
9.1 Komi fram vilji meirihluta aðildarfélaga eða stjórnar SÍBS, að SÍBS skuli lagt niður, skal málið tekið fyrir á næsta reglulega aðalfundi SÍBS. Hljóti tillaga um slit SÍBS þá ⅔ hluta greiddra atkvæða skal boðað til sérstaks aukaaðalfundar innan 3 mánaða, þar sem tillagan verið tekin til endanlegrar afgreiðslu þar sem aftur þarf ⅔ hluta greiddra atkvæða til að staðfesta félagsslitin. Aðalfundur getur aðeins tekið lagabreytingar til afgreiðslu hafi minnst helmingur leyfðra fulltrúa mætt á aðalfundinn en engin slík takmörkun gildir um eftirfylgjandi aukaaðalfund.
9.2 Komi til slita SÍBS skal eignum þess og fjármunum ráðstafað í samræmi við tilgang SÍBS eins og hann er fram settur í gr. 2.2 og 2.3 í lögum þessum.
Stjórnskipan SÍBS
Stjórn og embættismenn kjörnir á 42. þingi SÍBS 28. nóvember 2020
Formaður
- Sveinn Guðmundsson
Varaformaður
- Sólveig Hildur Björnsdóttir
Meðstjórnendur
- Fríða Rún Þórðardóttir
- Selma Árnadóttir
- Valur Stefánsson
Varamenn í stjórn
- Andrjes Guðmundsson
- Valgerður Hermannsdóttir
Skoðunarmenn reikninga
- Sólrún Óskarsdóttir
- Margrét Albertsdóttir
Varaskoðunarmenn reikninga
- Jóhanna Garðarsdóttir
- Kjartan Birgisson
Framkvæmdastjóri
Guðmundur Löve
Viðbragðsáætlun vegna eineltis og áreitis
Stefna og viðbragðsáætlun vegna eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni, ofbeldis eða annarrar ótilhlýðilegrar hegðunar (EKKO)
Síðast endurskoðað 24. janúar 2022
Stefna
Í öllu starfi SÍBS eiga starfsmenn, stjórnendur og verktakar (saman nefnd „aðilar“) að sýna kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur ótilhlýðileg hegðun verður ekki umborin á vinnustaðnum og er aðilum með öllu óheimil.
SÍBS skal reyna að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega hegðun í starfi samtakanna með forvörnum og virkri viðbragðsáætlun.
Skilgreiningar
Einelti
Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Kynferðisleg áreitni
Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Kynbundin áreitni
Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Ofbeldi
Ofbeldi er hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða sviptingu frelsis.
Viðbragðsáætlun
Fara skal eftir eftirfarandi viðbragðsáætlun í öllum þeim tilvikum þar sem grunur er um að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur ótilhlýðileg hegðun eigi sér stað eða hafi átt sér stað milli aðila innan eða utan vinnustaðar. Viðbragðsáætlun skal m.a. virkjuð:
- Verði stjórnendur varir við hegðun eða ágreining í samskiptum aðila sem vekur grunsemdir um að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur ótilhlýðileg hegðun sé til staðar á vinnustað.
- Berist stjórnendum kvörtun frá aðila um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega hegðun á vinnustað.
- Berist ábending um að aðili hafi orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi eða annarri ótilhlýðilegri hegðun á vinnustaðnum.
- Berist ábending um að aðili hafi beitt einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnni áreitni, ofbeldi eða annarri ótilhlýðilegri hegðun utan vinnustaðar.
Við mat á því hvort viðbragðsáætlun sé virkjuð skiptir ekki máli hvort annar en aðili sé gerandi, t.d. viðskiptamenn eða stjórnarmenn, eða hvort atvikið átti sér stað utan vinnustaðar.
Samskiptavandi á vinnustað
Ef upp koma ágreiningsmál, samskiptaerfiðleikar eða hagsmunaárekstrar er mikilvægt að stjórnendur bregðist við með viðeigandi hætti án tafar áður en þau þróast til verri vegar.
Viðbrögð stjórnenda og eða starfsmanna
Verði aðilar varir við einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega hegðun eða hafi rökstuddan grun um að framangreind hegðun eigi sér stað milli aðila innan eða utan vinnustaðarins ber þeim að bregðast við án tafar í því skyni að koma í veg fyrir að slík hegðun endurtaki sig. Kvörtun eða ábendingu skal komið til næsta yfirmanns eða framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri skal upplýsa formann félagsins og virkja viðbragðsáætlun þess. Sé næsti yfirmaður eða framkvæmdastjóri gerandi í málinu skal málið tekið upp við stjórn SÍBS.
Fyrstu viðbrögð
Framkvæmdastjóri SÍBS ber ábyrgð á rannsókn mála og skal hann þegar í stað virkja viðbragðsáætlun þessa. Taka skal allar tilkynningar og ábendingar alvarlega og sýna nærgætni í aðgerðum gagnvart aðilum máls.
Skal framkvæmdastjóri í samráði við stjórn, án ástæðulauss dráttar, meta þörf þolanda fyrir bráðan stuðning og veita hann.
Leggja skal ríka áherslu á að brugðist sé við hið fyrsta í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að hegðunin endurtaki sig og koma þannig í veg fyrir frekari skaða.
Kynning á stefnu og viðbragðsáætlun SÍBS
Stefna og viðbragðsáætlun þessi skal kynnt aðilum a.m.k. einu sinni á ári á starfsmannafundi. Nýjum starfsmönnum skal kynnt þessi stefna og viðbragðsáætlun þegar við upphaf starfs. Stefnan og viðbragsáætlunin skal endurskoðuð reglulega og allar breytingar eða uppfærslur á henni kynntar og hafðar aðgengilegar öllum starfsmönnum.
Málsmeðferð
Framkvæmdastjóri skal sjá til þess að gerð verði athugun á málsatvikum í þeim tilgangi að meta hvers eðlis umrædd kvörtun eða ábending er ásamt því að meta hvort ástæða sé til að leita til utanaðkomandi fagaðila, þar á meðal viðurkenndra þjónustuaðila, til aðstoðar svo leiða megi mál til lykta og tryggja hlutlausa málsmeðferð. Einnig skal virða óskir málsaðila um aðkomu utanaðkomandi aðila að málinu. Við úrvinnslu máls skal hann ráðfæra sig við formann SÍBS.
Við meðferð máls skal sýna varfærni og nærgætni í aðgerðum með virðingu og einkahagi hlutaðeigandi starfsmanna í huga, meðal annars með því að veita ekki óviðkomandi aðilum upplýsingar um mál og tryggja að utanaðkomandi aðilar sem kunna að koma að meðferð máls geri slíkt hið sama.
Áður en málsmeðferð hefst skal framkvæmdastjóri upplýsa aðila máls að mál þeirra muni verða tekið til meðferðar.
Upplýsinga aflað
Framkvæmdastjóri skal tryggja að við matið sé hlutaðeigandi starfsmönnum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að jafnan sé rætt við einn aðila máls í senn.
Athugun á málsatvikum skal fela í sér viðtal við ætlaðan þolanda, ætlaðan geranda, vitni eða aðra þá sem veitt geta upplýsingar sem skýra málsatvik. Skrásetja skal allar frásagnir aðila og bera þær undir viðkomandi til samþykktar. Leitað verður upplýsinga um tímasetningar og önnur gögn, s.s. tölvubréf, smáskilaboð í síma eða tölvu eða annað sem varpað getur ljósi á málavöxtu.
Framkvæmdastjóri skal sjá til þess að allt sem tengist meðferð máls sé skráð niður og halda hlutaðeigandi aðilum sem og formanni upplýstum meðan á meðferðinni stendur.
Ráðstafanir vegna samskipta meðan á rannsókn stendur
Meðan athugun fer fram skal framkvæmdastjóri grípa til ráðstafana sem tryggja að ætlaður þolandi og ætlaður gerandi þurfi ekki að hafa samskipti er varðar starfsemi vinnustaðarins.
Varði málsatvik aðila sem ekki er starfsmaður stofnunarinnar mun framkvæmdastjóri sjá til þess að starfsmaður þurfi ekki að vera í samskiptum við aðilann.
Allar upplýsingar meðhöndlaðar sem trúnaðarmál
Allar upplýsingar sem fást um málið verða meðhöndlaðar sem trúnaðarmál og verða öll gögn varðveitt á öruggum stað á ábyrgð SÍBS og meðhöndluð samkvæmt persónuverndarlögum.
Framkvæmdastjóri skal tryggja eftir bestu getu að óviðkomandi verði ekki veittar upplýsingar um málið og að utanaðkomandi sem kunna að koma að meðferð máls geri slíkt hið sama.
Aðgerðir í kjölfar niðurstöðu
Þegar mál telst nægjanlega upplýst skal framkvæmdastjóri taka ákvörðun, í samráði við formann, til hvaða aðgerða verði gripið í samræmi við alvarleika máls hverju sinni.
Þegar atvik eða hegðun telst vera einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur ótilhlýðilega hegðun verður brugðist við eftir eðli máls með því að veita geranda tiltal, áminningu, tilfærslu í starfi eða honum sagt upp störfum.
Þolanda og geranda verður veitt viðhlítandi aðstoð.
Haldi þolandi og gerandi áfram störfum hjá félaginu er lögð áhersla á að viðeigandi breytingar verði gerðar á vinnustaðnum eins og kostur er, svo sem breytingar á vinnuskipulagi, verkferlum, staðsetningu innan starfsstöðva o.s.frv.
Mál sem varða við almenn hegningarlög á að tilkynna til lögreglu.
Tilkynna skal hlutaðeigandi aðilum sem og viðeigandi vinnuverndarfulltrúum skriflega um málalyktir. Áður en málinu er lokið skal bera skýrsluna undir ætlaðan þolanda og ætlaðan geranda.
Upplýsingar til annarra starfsmanna
Framkvæmdastjóri skal meta hvort nauðsynlegt sé að upplýsa aðra aðila um lyktir mála eða farveg þeirra, með það að markmiði að tryggja heilsusamlegt vinnuumhverfi. Gæta skal að því að persónuupplýsingar eða aðrar upplýsingar séu ekki veittar óviðkomandi.
Eftirfylgni mála
Framkvæmdastjóri skal fylgja málinu eftir í þeim tilgangi að tryggja eftir bestu getu að umrædd háttsemi endurtaki sig ekki. Láti gerandi ekki af háttsemi sinni sem leiddi til málsmeðferðar, þrátt fyrir leiðsögn eða áminningu, getur það leitt til tafalausrar brottvikningar úr starfi.
Forvarnaraðgerðir
Þessi stefna og viðbragðsáætlun skal ávallt endurskoðuð í kjölfar þess að viðbragðsáætlun er virkjuð án tillits til hver niðurstaða rannsóknarinnar var og mögulegar breytingar gerðar á grundvelli þess. Áhættumat skal endurskoðað að lágmarki einu sinni á ári og mögulegar breytingar gerðar. Til forvarnaraðgerða telst einnig fræðsla ásamt mögulegum breytingum á vinnuaðstöðu, verkferlum og öðru vinnuskipulagi.
Enn fremur skal SÍBS óska eftir mati viðurkennds þjónustuaðila á árangri slíkra aðgerða þegar ástæða þykir til eða starfsmenn óski sérstaklega eftir því.