Gönguhópur

Göngunámskeið

Nýtt sex vikna göngunámskeið sem fer alfarið fram í lokuðum hópi á Facebook undir leiðsögn Einars Skúlasonar leiðsögumanns og stofnanda gönguklúbbsins Vesen og vergangs og Önnu Bjarnadóttur íþróttafræðings. 

Námskeiðið felur í sér áskorun um að stunda rösklega hreyfingu daglega. 

Viltu fá tölvupóst þegar næsta námskeið er komið á dagskrá? Hér getur þú skráð þig á tölvupóstlista fyrir áhugasama.

Skráðir þátttakendur fá tölvupóst frá SÍBS með boði í Facebookhóp nokkrum dögum fyrir upphaf námskeiðs athugið að sá póstur getur lent í "ruslinu". Ef engin póstur berst hafið samband [email protected].

Um námskeiðið

Á námskeiðinu er boðið upp á faglega hópfræðslu um fjölbreytt göngutengd málefni auk hvatningar og aðhalds.

 • Áherslur á námskeiðinu miðast við þá sem vilja koma sér af stað í reglulega hreyfingu og byggja upp þol með því að stunda gönguæfingar.
 • Námskeiðið getur verið góður grunnur fyrir léttar fjallgöngur eða þá sem stefna á hlaupanámskeið SÍBS fyrir byrjendur.
 • Unnið er út frá einfaldri æfingaáætlun sem gerir ráð fyrir að gengið sé 3 til 4 x í viku og þess á milli séu stundaðar annars konar æfingar. Álag æfinga eykst hægt og rólega en æfingar eru á ábyrgð þátttakenda sjálfra.
 • Markmiðið er að þátttakendur byggi upp þol til að geta gengið rösklega í minnst 30 mín eða lengur án hvíldar og hreyfi sig í 150 til 300 mínútur á viku og finni fyrir jákvæðum áhrifum hreyfingar á andlegt- og líkamlegt form.

Umgjörð þjálfunar á Facebook

 • Alla virka daga setja þjálfarar  inn stöðufærslur með fræðslu og hvatningu.
 • Haldnir verða fjarfundir með þjálfurum, á fyrsta degi námskeiðs, um miðbik þess og í lokin.
 • Æfingaáætlun vikunnar verður til umfjöllunar í upphafi hverrar viku.
 • Þjálfarar setja inn fræðsluefni og veita góð ráð eftir því sem við á s.s. um skó, göngufatnað, teygjur, upphitunar- og styrktaræfingar, gönguleiðir, markmiðssetningu, skráningu á hreyfingu og skipulag.
 • Spurningum þátttakenda svara þjálfarar reglulega.
 • Þjálfarar fylgjast með því hvort og hvernig þátttakendum gengur að fylgja æfingaáætlun og gefa góð ráð eftir því sem við á.
 • Þátttakendur deila reynslu sinni og góðum ráðum og styðja þannig við bakið hvert á öðru.

Markhópur   

 • Áherslur á námskeiðinu miðast við þá sem hreyfa sig að jafnaði lítið eða þá sem eru að hefja reglulega hreyfingu eftir hlé.
 • Þátttakendur verða að hafa Facebookaðgang.  

Þjálfarar    

Einar SkúlasonÞjálfarar2.JPG

Einar er með langa reynslu af gönguleiðsögn og þjálfun á því sviði. Hann stofnaði gönguklúbbinn Vesen og vergang árið 2011 og hefur leitt hópa í mörg hundruð ferðir um allt land auk þess að starfrækja reglubundnar göngur á mismunandi erfiðleikastigi. Hann stofnaði jafnframt gönguappið Wapp-Walking app og hefur skrifað bækur um gönguleiðir.

Anna Bjarnadóttir      

Anna er íþróttafræðingur að mennt og hefur verið íþróttakennari í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi til fjölda ára og sér nú líka um hreyfingu eldri borgara þar í bæ. Anna stundar reglulegar göngur hingað og þangað um náttúru Íslands og hefur ástríðu fyrir bættri lýðheilsu og aukinni hreyfingu almennt.     

Gönguáskorun

Göngur.jpg

Gönguáskorun SÍBS eru liður í forvarna- og lýðheilsustarfi félagsins. Göngurnar eru fyrir alla sem vilja gera hreyfingu að daglegri venju, eflast að líkamlegum og andlegum styrk og kynnast skemmtilegu fólki. Frá upphafi hafa göngurnar verið haldinar í samvinnu við Einar Skúlason, sem er í forsvari fyrir gönguhópinn Vesen og vergangur. Fjöldi fólks hefur tekið sín fyrstu skref í útivist með SÍBS í þessum göngum. Göngurnar eru jafnan kynntar á Facebook SÍBS.

Um göngurnar: Göngur eru í boði tvisvar á ári og ná yfir sex vikur ef aðstæður eru fyrir hendi. Skipulagðar hópgöngur eru farnar vikulega undir leiðsögn þjálfara. Þess á milli endurtaka þátttakendur sambærilegar göngur tvisvar, þannig er gönguformið taki framförum. 

Markhópur: Allir velkomnir en göngurnar eru sérstaklega sniðin að þörfum þeirra sem af einhverjum ástæðum hafa ekki getað stundað mikla hreyfingu eða vilja koma sér af stað eftir hlé í góðum félagsskap. 

Erfiðleikastig: Gengið er rólega eða sem nemur 3-5 km hraða á klst., fer eftir færð, undirlagi og hvort það eru brekkur eða ekki. 

Gönguleiðir: Gönguleiðir eru breytilegar en allar á höfuðborgarsvæðinu. Ný gönguleið hverju sinni.

Verð: Göngurnar eru ókeypis.

Heilsuefling