Fréttir / 30. nóvember 2007

Vilji til að bæta hag öryrkja og aldraðra og leiðrétta þjónustusamninga


Í framsögu formanns fjárlaganefndar, Gunnars Svavarssonar til annarrar umræðu fjárlagafrumvarps í gær kom fram vilji hans og nefndarinnar til að staða aldraðra og öryrkja verði styrkt og málefni þeirra fari til félagsmálaráðuneytisins. Ástæða er til að fagna þessari yfirlýsingu og taka mark á henni.

Þá gat hann þess m.a. að þjónustusamningar bæði SÁÁ og Reykjalundar yrðu skoðaðir og þá væntanlega til þess að leysa þá misvísun sem orðinn er á þeim og ríkisstofnanir með hliðstæða starfsemi hafa fengið bætta. Það er einnig ástæða til að fagna þessu, því svo nauðsynleg stofnun sem Reykjalundur er fyrir samfélagið verður að fá skilyrði til þess að geta haldið rekstri sínum gangandi. Samningar um þjónustuna þurfa að hafa sveigjanleika til að mæta breytilegum aðstæðum á gildistímanum en fá sinn hlut bættan ef á það skortir.

Það er ánægjulegt að fjárlaganefnd skuli hafa lýst skilningi á þessu.

 

Í ræðu formannsins kom einnig fram að fjárlaganefndin mun ekki slaka á eftir 3. umræðu fjárlaga heldur vinna hörðum höndum, m.a. við að fjalla um stjórnsýsluúttektir Ríkisendurskoðunar og styrkja eftirlitshlutverk þingsins varðandi framkvæmd fjárlaganna. Þetta er stórt skref í rétta átt og reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að þessa er mikil þörf.

Ástæða er til að óska nefndinni til hamingju með þetta og ekki síður það sem lesa má úr ræðu formannsins að nefndin muni starfa sem heild og nýta krafta stjórnarandstöðuþingmanna til þessara starfa. Fjárlaganefndin er í góðri aðstöðu til mikilla verka og aðhalds er vissulega þörf.

Nýtt á vefnum