Fréttir / 11. maí 2010

Lautartúr í Heiðmörk

Farin verður ferð á vegum SÍBS í SÍBS lundinn í Heiðmörk sunnudaginn 16. maí n.k. Ráðgert er að hittast við SÍBS húsið, Síðumúla 6, kl. 12.50. Lagt verður af stað kl. 13.00 og farið í samfloti frá Síðumúla 6, áleiðis að SÍBS lundinum í Heiðmörk. Þeir sem þurfa far eru beðnir um að láta vita. Þeir sem vilja, geta farið beint í lundinn.

Vinsamlega tilkynnið um þátttöku í síma: 552-2150 eða á tölvupóstfang: [email protected] fyrir lok miðvikudags, 12. maí.

Áætlað er að koma í SÍBS lundinn kl. 13.15. Kynning verður frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur um Heiðmerkursvæðið. Þá verður nesti borðað sem boðið verður upp á og sungið við harmonikuleik. Þeir sem vilja og geta hjálpast að við að grisja og hreinsa til á svæðinu, en aðrir fylgjast með og njóta náttúrunnar og útiverunnar. Gert er ráð fyrir heimferð úr lundinum kl. 15.45.

Félagsmenn aðildarfélaga SÍBS, starfsmenn rekstrareininga SÍBS, fjölskyldumeðlimir, vinir og velunnarar eru hvattir til að mæta.

Greinargerð:

Upp úr miðri síðustu öld var félagasamtökum úthlutað landspildum í Heiðmörk. Eitt þeirra félaga sem þá fékk úthlutað svæði var Berklavörn. Berklavörn hafði hins vegar ekki nýtt spilduna í fjölda ára. Á þingi SÍBS 2008, tilkynnti þáverandi formaður Berklavarnar að hann f.h. Berklavarnar,,afhenti“ þessa spildu til SÍBS. Í framhaldi af því hafa starfsmenn SÍBS kannað aðstæður á staðnum. Þeir hafa jafnframt haft samband við Skógræktarfélag Reykjavíkur sem sér um að grisja og halda landinu við.

Nýtt á vefnum