Hefur þig alltaf langað til að láta á það reyna að æfa hlaup? Nú er tækifærið, í boði er "flott og notendavænt hlaupaprógram" eins og einn þátttakandi orðaði það. - NÁMSKEIÐINU HEFUR VERIÐ FRESTAÐ.
SÍBS stendur aftur fyrir hinu vinsæla “fjar”- hlaupanámskeiði í gegnum lokaðan hóp á Facebook. Námskeiðið stendur yfir í 10 vikur og er opið öllum, hvar á landi sem er og hefst 5.september. Áherslur á námskeiðinu miðast við byrjendur eða þá sem eru að hefja hlaup eftir hlé. Skráning og nánari upplýsingar hér.
Nú hafa yfir 500 sótt "fjar"-hlaupanámskeið SÍBS með góðum árangri og það hefur fengið frábærar umsagnir:
" Góðan daginn 🙂 mig langar að þakka ykkur fyrir fjarhlaupanamskeiðin ykkar. Ég var á hlaupanámskeiði í janúar 2021 ég var þá 49 ára og hafði aldrei hlaupið markvisst áður. Ég náði ekki einu sinni að hlaupa 400m. Ég hafði aldrei séð fyrir mér að ég myndi geta verið í hlaupahóp en eftir námskeiðið ykkar var löngunin að halda áfram það mikil að ég lét mig hafa það að prófa að fara í hlaupahóp. Lenti í frábærum hóp og hef æft markvisst og reglulega með þeim síðan. Í gær(ári síðar) kláraði ég mína fyrstu 15km utan vega. Mig langar bara að segja takk svo mikið, ég væri sennilega ekki hér í dag ef ég hefði ekki skráð mig hjá ykkur. Ég hvet SÍBS til að halda þessu áfram, þetta breytti miklu fyrir mig og ég er mjög þakklát🥰"
" Fullkomið. Ég er mjög ánægð með allt námskeiðið, fræðsluefnið passaði mjög. Það að geta farið á sínum hraða í gegnum námskeiðið var mjög hjálplegt, sérstaklega það að hellast ekki úr lestinni þó að upp hafi komið Covid eða meiðsl. Með þessu upplifir maður sig ekki sem looser að falla afturúr námskeiðinu."
Þjálfarar á námskeiðinu eru þær Fríða Rún Þórðardóttir og Ingunn Guðbrandsdóttir sem báðar hafa mikla reynslu af þjálfun á ýmsum vettvangi.