Fréttir / 4. febrúar 2002

Uppsagnir blasa við nema úr rætist


Í bréfi dags. 31. janúar 2002 tilkynnti Þorbjörn Árnason, formaður stjórnar Múlalundar, vinnustofu SÍBS, til Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins að fyrirhugað sé að segja upp öllum starfsmönnum vinnustofunnar, 52 talsins, frá og með 1. mars n.k. með þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Múlalundur, vinnustofa SÍBS hefur um langt árabil verið vinnustaður öryrkja af Reykjavíkursvæðinu, að jafnaði 40 - 50 manns hverju sinni. Vinnustofan hefur verið starfrækt allt frá árinu 1959 og reksturinn alla tíð verið mjög erfiður. Flest árin hefur verið tap, sem SÍBS hefur greitt úr sjóðum sínum og Happdrættis SÍBS.

Undanfarin þrjú ár hefur tapið farið vaxandi og er nú svo komið að SÍBS treystir sér ekki til þess að standa undir því lengur án aðstoðar félagsmálayfirvalda. Hafa farið fram viðræður við Félagsmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg um þessi mál. Ekki liggur fyrir niðurstaða úr þeim viðræðum en áfram verður reynt að leita leiða til þess að leysa þennan vanda án þess að öryrkjar þeir sem unnið hafa á Múlalundi missi vinnuna. Ástæður rekstrarvandans eru margvíslegar, en eru þó einkum taldar stafa af harðnandi samkeppni hérlendis á markaði fyrir skrifstofuvörur með tilheyrandi undirboðum. Starfsemi Múlalundar byggist á störfum öryrkja með tilheyrandi starfsþjálfun og því kann að vera að hann geti ekki lagað sig eins og þarf að vaxandi sjálfvirkni og vélvæðingu annarra. Nú stendur yfir úttekt á rekstri og starfsháttum á Múlalundi, þar sem farið verður yfir alla þætti starfseminnar og lagt mat á hvort unnt er að aðlagast þessum markaði eða hvort breyta þarf starfseminni. Ekki er útilokað að vinnustofunni verði lokað, finnist ekki rekstrargrundvölllur fyrir starfsemina. Sömuleiðis verður haldið áfram viðræðum við félagsmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg um mögulega aðkomu þeirra að þessu máli.
Nýtt á vefnum