Óflokkað / 10. september 2010

Stofnun SÍBS - Sagan

Haustið 1938, hinn 24. október, voru 26 berklasjúklingar samankomnir á Vífilsstaðahæli til að stofna Samband íslenskra berklasjúklinga. Tilgangurinn var að reyna að hjálpa útskrifuðum berklasjúklingum að ná fótfestu í lífinu, eftir ára eða áratuga dvöl á heilsuhælum.

Berklavörn

Stofnendur SÍBS hófust strax handa um stofnun deilda um allt land, undir nafninu Berklavörn. Fjársöfnun var undirbúin og 6. október 1939 voru seld merki SÍBS og blaðið Berklavörn og dagurinn nefndur "Berklavarnardagur". Það var gengið í nánast hvert hús á landinu og viðtökur voru slíkar að unnt var að byggja Reykjalund og hefja starf sem löngu er landsþekkt. SÍBS hefur frá þeim tíma ,,átt" fyrsta sunnudag í október og sá dagur m.a. verið nýttur til fjáröflunar.

Framkvæmdir

Árið 1940 var farið að ræða um stofnun vinnuhælis og það ár skrifaði Oddur Ólafsson, læknir grein um málið í blaðið Berklavörn. Þessi umræða leiddi til kaupa á landi af Reykjabændum í Mosfellssveit. Á því landi var jarðhiti og braggar eftir herinn, sem síðan voru notaðir fyrir eldhús, borðstofu og verkstæði. Bygging 10 smáhýsa hófst 1944 og voru 5 þeirra tilbúin 1. febrúar 1945 og þá tók vinnuheimilið til starfa undir nafninu Reykjalundur.

Fjársafnanir

Þessi ár og næstu var safnað fé með merkjasölu, bílahappdrætti og jafnvel sirkus frá Danmörku. Áfram var byggt og aðalbygging Reykjalundar tekin í notkun 1. febrúar 1950. Þá fjölgaði vistmönnum úr 40 í 90.

Fræðsla

Á þessum árum var einnig rætt um tómstundir og beina menntun sjúklinga. Út úr þessari umræðu komst á iðnskóli á Reykjalundi, sem starfaði frá 1949-1965.

Aðrir sjúklingahópar

Með tilkomu berklalyfjanna 1947-1952 fór berklasjúklingum fækkandi.
Þá var farið að taka við öðrum sjúklingum til endurhæfingar og 1963 var tekin í notkun sjúkraþjálfunardeild í kjallara aðalbyggingar Reykjalundar. Uppbyggingastarfið hélt svo stöðugt áfram með styrk happdrættisins og 1970 voru vistmenn orðnir 144.

Fjölgun aðildarfélaga

Með fækkun berklasjúklinga var talið rétt að fá til liðs við SÍBS aðra brjóstholssjúklinga. Astma- og ofnæmisfélagið kom til samstarfs árið 1974 og þá var jafnframt nafni félagsins breytt í Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga. Landssamtök hjartasjúklinga (nú Hjartaheill) komu í samtökin árið 1992, þá félag fólks með svefnháðar öndunartruflanir, Vífilsstaðadeild SÍBS sem nú heitir Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir árið 1994 og þar næst Samtök lungnasjúklinga árið 1998.

Hagsmunagæsla

Tilgangur SÍBS er sá m.a. að sameina innan vébanda sinna fólk með berkla, hjartasjúkdóma, lungnasjúkdóma, astma- og ofnæmi og svefnháðar öndunartruflanir og vinna að því að heilbrigðisþjónusta og félagsleg aðstaða þessa fólks sé sem fullkomnust.

Víðtæk starfsemi SÍBS

Auk Reykjalundar endurhæfingarmiðstöðvar starfrækir SÍBS Múlalund, vinnustofu fyrir öryrkja og Happdrætti SÍBS sem er kjölfesta alls starfs SÍBS.

Múlabær og Hlíðabær eru nú sjálfseignarstofnanir en voru stofnsett af SÍBS og fleiri aðilum. Múlabær er dagvistun fyrir aldraða og Hlíðabær dagvistun fyrir Alzheimersjúklinga.

HL-stöðvar eru einnig sjálfseignarstofnanir en voru stofnsettar af SÍBS, Landssamtökum hjartasjúklinga og Hjartavernd. Þar fer fram þróttmikið starf þar sem veitt er endurhæfing eftir bráð veikindi og aðgerðir og síðan viðhaldsþjálfun af ýmsum toga.

Hagur aðildarfélaga

Mikilvægt er að aðildarfélög SÍBS hafi hag af aðild sinni að samtökunum. SÍBS hefur því lagt áherslu á gott samstarf og stuðning við aðildarfélög sín í þeirri viðleitni að bæta hag hins almenna félagsmanns.

Stjórn SÍBS telur nauðsynlegt að halda uppi sem mestu og bestu sambandi og samstarfi við aðildarfélög sín og stefnir að því að auka það.

Sambandsþing

Sambandsþing eru haldin annaðhvert ár í september eða október. Á þingunum eru lagðir fram reikningar og skýrslur sambandsstjórnar um störf sambandsins og fyrirtækja þess á milli þinga. Þá fer fram kosning sambandsstjórnar og skoðunarmanna reikninga og kosning fastanefnda. Ákveðinn er skattur félagsdeilda til sambandsins fyrir næstu tvö starfsár og afgreiðsla annarra mála sem fyrir þingið koma.

Heildarskipulag SÍBS

Æðsta vald í málefnum SÍBS er í höndum sambandsþings. Stjórn SÍBS er kosin á sambandsþingi og fer með æðsta vald í málefnum sambandsins milli sambandsþinga.

Starfsemi SÍBS skiptist í þrjú rekstrarsvið, en þau eru: Félagsmála- og fjáröflunarsvið, Endurhæfingarsvið og Eignaumsýslusvið. Framkvæmdastjórar rekstrarsviða mynda framkvæmdaráð sambandsins. Verkefnastjórnun er þverfagleg eining í skipulagi SÍBS og gengur þvert á rekstrareiningarnar þrjár. Verkefnastjórnun heyrir undir stjórn SÍBS, sem tekur ákvarðanir um einstök verkefni, ef þau krefjast sérstakra fjárútláta eða fjárhagsáhættu.

Sambandsstjórn

Sambandsstjórn fer með æðsta vald í málefnum sambandsins milli sambandsþinga. Hana skipa 7 aðalmenn og 2 til vara. Stjórn SÍBS er kosin á sambandsþingi. Stjórnin fylgir eftir stefnumótun sambandsþinga. Hún setur reglur um gerð þróunar- og rekstraráætlana einstakra sviða, fjallar um þær og samþykkir, og hefur síðan eftirlit með því að áætlunum sé framfylgt.

Framkvæmdaráð

Framkvæmdaráð skal yfirfara og samræma vinnubrögð rekstrarsviða varðandi gerð þróunar- og rekstraráætlana og undirbúa mál fyirr stjórn SÍBS

Félagsráð

Félagsráð er samvinnuvettvangur aðildarfélaga SÍBS og vinnur að hagsmunagæslu þeirra. Ráðið sér um afgreiðslu mála er varða aðildarfélögin og félagsmenn þeirra, en getur skotið málum til stjórnar SÍBS til úrlausnar.

Formannafundur

Formannafundur aðildarfélaga og sambandsstjórnar skal haldinn að hausti árið milli reglulegra sambandsþinga. Formannafundur er ráðgefandi fyrir sambandsstjórn í mikilvægum málefnum.

Nefndir

Milli sambandsþinga starfa tvær fastanefndir: laganefnd og uppstillingarnefnd.

SÍBS blaðið

SÍBS blaðið er gefið út og er myndarlegt tímarit sem dreift er til allra félagsmanna SÍBS, á sjúkrahús, þjálfunarstaði og aðrar sjúkrastofnanir. Blaðið er bæði vandað og hagnýtt m.a. vegna þess að í hverju blaði eru oft tekin fyrir ákveðin þemu sem sérstaklega er fjallað um. Sem dæmi um málefni sem fjallað hefur verið um í blöðunum eru málefni hjartveikra barna, kæfisvefn, lungnasjúkdómar, lungnaendurhæfing, öldrunarsjúkdómar og þjónusta við aldraða. Þá er reglulega fjallað um starfsemina á Reykjalundi og einstökum þáttum gerð skil í blaðinu.

Heimasíða

Heimasíða SÍBS er http://www.sibs.is. Þar er að finna upplýsingar um SÍBS, Happdrætti SÍBS og aðildarfélög samtakanna.

Höfuðstöðvar SÍBS, Borgartúni 28a

Skrifstofur SÍBS eru í Borgartúni 28a, 105 Reykjavík. Þar er aðalumboð og höfuðstöðvar Happdrættis SÍBS. Starfsmenn SÍBS og happdrættis SÍBS starfa þar ásamt starfsmönnum Hjartaheilla. Astma- og ofnæmisfélagið og Samtök lungnasjúklinga hafa skrifstofur í SÍBS húsinu.

Endurhæfingarsvið Reykjalundar

Starfsemin á Reykjalundi hefur þróast í ýmis endurhæfingarsvið sem í dag eru: svið fyrir gigtsjúka, fyrir geðsjúka, fyrir þá sem hafa orðið fyrir áfalli í miðtaugakerfi, fyrir fólk sem á við langvinn verkjavandamál að stríða, fólk sem glímir við ofþyngd, börn og ungmenni sem ekki hafa náð eðlilegum þroska, auk sérstakra endurhæfingarsviða fyrir annars vegar hjartasjúklinga og hins vegar lungnasjúklinga. Þá er starfandi sérstakt svið atvinnuendurhæfingar sem stofnað var til nýlega. Á hverju sviði er starfsmannateymi og hafa þau í áranna rás náð að þróa með ágætum aðferðir og tækni í endurhæfingu innan hvers sviðs.

Starfsfólk Reykjalundar hefur leitast við að fylgjast vel með breyttum lifnaðarháttum landsmanna og svara breyttum þörfum sem skapast hafa, m.a. með svokölluðum "lífsstílssjúkdómum". Þetta hlýtur að teljast afar mikilvægt á tímum örra breytinga sem m.a. koma til vegna hreyfingarleysis og breytts mataræðis.

Ákvörðun um nýbyggingu á Reykjalundi

Félagar SÍBS eru nú um 6200. Þá hefur Reykjalundur þjónað öllum þeim sem leita eftir endurhæfingu þó að ekki sé um aðild þeirra að samtökunum að ræða. Þörfin fyrir endurhæfingu er því miður mikil og biðlistar langir. Upp úr 1990 fór að verða ljóst að húsnæðisleg aðstaða þjálfunardeilda hamlaði framgangi endurhæfingar á Reykjalundi og var reynt að mæta því með ýmiskonar hagræðingu húsnæðis. Ljóst var að slík bjargráð dyggðu skammt. Því var tekin sú sameiginlega ákvörðun stjórna SÍBS og Reykjalundar að koma upp rúmgóðu sérhæfðu þjálfunarhúsi.

Fjársöfnun / bygging þjálfunarhúss

Það var 1. október 1999 sem forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tók fyrstu skóflustunguna að byggingunni. Húsið er 2700 fermetra þjálfunarhús með tveim laugum, sundlaug og þjálfunarlaug, stór þjálfunarsalur og margvísleg önnur aðstaða. SÍBS hóf söfnun fjár árið 1998 meðal landsmanna til byggingar þessa húss. Þjóðin brást vel við og miklir fjármunir söfnuðust, sem með vöxtum voru orðnir að kr. 56 milljónum þegar þeirra varð þörf við byggingu þessa glæsilega þjálfunarhúss sem var vígt í janúar 2002.

Fjármögnun framkvæmda

Stöðugt á sér stað uppbygging m.a. á Reykjalundi, sem SÍBS er falið að fjármagna. Með kaupum á miða í Happdrætti SÍBS, er hægt að aðstoða SÍBS við að ná fram markmiðum sínum og renna þannig enn frekari stoðum undir þá mikilvægu starfsemi sem unnið er að á vegum SÍBS og Reykjalundar.

Styðjum sjúka til sjálfsbjargar

Ennþá eru í fullu gildi orð Sigurbjörns Einarssonar, síðar biskups, árið 1946. "Hlutverk Reykjalundar er eitt hið göfugasta, sem með höndum er haft í landi hér." Lauslega talið hafa 30 - 40 þúsund landsmanna notið endurhæfingar á Reykjalundi og áfram verður haldið við að vinna undir kjörorðum SÍBS: "styðjum sjúka til sjálfsbjargar" á Reykjalundi og í öðrum rekstrareiningum SÍBS.

12/1 2011 HH og PB

Nýtt á vefnum