Fréttir / 25. maí 2020

Gönguáskorun SÍBS og Vesens og vergangs

SÍBS og Vesen og vergangur standa fyrir ókeypis gönguáskorun á höfuðborgarsvæðinu nú í byrjun sumars. Þátttakan hjálpar fólki að gera göngur að daglegri venju, efla líkamlegan og andlegan styrk og kynnast skemmtilegu fólki.

Boðið verður upp á göngur fimm miðvikudaga í röð auk lengri lokagöngu. Gönguáskorunin hefst miðvikudaginn 27. maí. Göngurnar leiðir Einar Skúlason forsprakki gönguhópsins Vesens og vergangs.

Mikilvægt er að skrá sig í göngurnar á sérstöku skráningarformi. vegna fjöldatakmarkanna. Nánari upplýsingar um göngurnar og hvaðan verður lagt af stað verða sendar í tölvupósti á skráða þátttakendur. Stofnaðir verða viðburðir á facebook fyrir allar göngurnar.

Áhersla er lögð á að koma til móts við þarfir þeirra sem hafa lítið gengið eða hafa af einhverjum ástæðu ekki náð að hreyfa sig reglulega. Annars vegar er í boði mjög létt ganga kl: 17:00 með áherslu á að njóta náttúrunnar og hins vegar létt ganga kl: 19:00 með áherslu á að byggja upp meira gönguþol. Þátttakendur eru hvattir til að fara sjálfir reglulega út að ganga á meðan áskorunin stendur yfir.

DAGSKRÁ:

27. maí

  • Umhverfis Rauðavatn um 3 km - 17:00: Gengið verður á stígum og malarvegi umhverfis Rauðavatn og staldrað við í skógræktinni og á nokkrum stöðum umhverfis vatnið. Fuglalífið er fjölbreytt og grænkar hratt við vatnið og margt að sjá. Gangan tekur líklega rúman klukkutíma eða einn og hálfan.
  • Hólmsheiði og Reynisvatnsheiði um 5 km og 50 m hækkun - 19:00: Gengið verður á stígum um Hólmsheiði og Reynisvatnsheiði meðal annars um Paradísardal og fleiri fallega staði. Við sjáum yfir Sundin og hluta höfuðborgarsvæðisins á leiðinni og Esjan sést vel. Gróskan í gróðrinum og hljóðin í fuglunum gera gönguna ævintýralega. Gangan tekur 1,5-2 tíma.

3. júní

  • Vífilsstaðavatn um 2,7 km - Kl: 17:00: Gengið verður á stígum umhverfis Vífilsstaðavatn og reynt að koma auga á flórgoðaparið og fleiri fuglategundir. Staldrað verður við á nokkrum stöðum og notið þess að vera í umhverfinu. Gangan tekur líklega rúman klukkutíma eða einn og hálfan.
  • Búrfellsgjá um 5 km og 70 m hækkun - Kl: 19:00: Gangan um Búrfellsgjá er á stígum í gjánni og á leiðinni má sjá ýmis mögnuð jarðfræðileg ummerki um eldgos og misgengi vegna landreks. Gengið er fram og til baka um gjána.. Gangan tekur líklega 1,5 – 2 tíma.

10. júní

  • Umhverfis Grafarvog um 3,5 km - Kl: 17:00: Í göngunni umhverfis Grafarvog er gengið á sléttum stígum, ýmist malbiki eða malarstígum. Allan tímann sjáum við sjóinn en erum jafnframt í skóglendi og einnig neðan við byggðina í Grafarvogi. Stoppað verður nokkrum sinnum á leiðinni.. Gangan tekur líklega rúman klukkutíma eða einn og hálfan.
  • Geldinganes um 5 km og 50 m hækkun - Kl: 19:00: Í göngunni á Geldinganesi er gengið á stígum, óljósum slóðum og að hluta til í þýfðu undirlendi. Við göngum með sjávarsíðunni og heyrum því ölduhljóð og finnum seltukeim í loftinu. Ekki er mikil hækkun en á móti koma þúfurnar sem forfeður okkar þekktu svo vel. Gangan tekur líklega 1,5 – 2 tíma.

17. júní

  • Umhverfis Hvaleyrarvatn og nágrenni um 3 km - Kl: 17:00: Gangan umhverfis Hvaleyrarvatn er í fallegu umhverfi þar sem birkikjarrið og annar trjágróður þekur hlíðarnar að mestu og í miðju þess er vatnið. Við göngum hringinn og fylgjumst með fuglalífi og öndum að okkur gróðurilmi í nokkrum stoppum. Gangan tekur líklega rúman klukkutíma eða einn og hálfan.
  • Valahnúkar með Valabóli um 5 km og 100 m hækkun - Kl: 19:00: Gangan á Valahnúka er í raun heimsókn til tröllafjölskyldunnar sem varð þar að steini í fyrndinni. Gengið er á hraunhellum og móbergi og slóðum og gott er að vera með göngustafi á ósléttum köflum. Á leiðinni stoppum við í Valabóli, hellinum sem var eitt sinn nýttur sem farfuglaheimili og enn fyrr sem íverustaður smala og fjárleitarmanna. Gangan tekur 1,5-2 tíma.

24. júní

  • Varmá og nágrenni í Mosfellsbæ um 4 km - Kl: 17:00: Í göngunni um við Varmá og nágrenni verður gengið á stígum um fallegar slóðir í Mosfellsbæ. Þar skoðum við sérstaklega hina fjölbreyttu staði við ána og Álafoss og í nágrenni. Gangan tekur líklega 1,5 tíma.
  • Umhverfis Helgafell Mosfellsbæ um 6 km og 130 m hækkun - Kl: 19:00: Gangan umhverfis Helgafell í Mosfellsbæ verður á stígum, malarvegi og slóðum hringinn í kringum fellið. Ekki er verra að taka með göngustaf eða stafi. Gangan tekur líklega 1,5 – 2 tíma.

27. júní tvær lokagöngur á Reykjanesi

  • Eldvörp og Árnastígur - Kl:10:00
  • Garðskagaganga - Kl. 14:00
Nýtt á vefnum