Alls þáðu 103 gestir Grímsævintýra heilsufarmælingu sem SÍBS Líf og heilsa verkefnið bauð upp á í samstarfi við Kvenfélag Grímsneshrepps laugardaginn 10. ágúst.
SÍBS Líf og heilsa er samstarfsverkefni SÍBS, Hjartaheilla, Samtaka sykursjúkra og Samtaka lungnasjúklinga. Líf og heilsa hefur síðustu ár boðið upp á heilsufarsmælingar um allt land í samstarfi við sveitarfélög, heilbrigðisstofnanir og fyrirtæki. Yfir 8000 manns þegið heilsufarsmælingu, mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, súrefnismettun og fleiri gildi auk þess sem fólki gefst kostur á að svara spurningum um ýmsa áhrifaþætti heilsu og nálgast samanburðarniðurstöður á Heilsugátt SÍBS.
Snemmgreining skilar sér hundraðþúsundfalt
„Ef hægt er að varna því að einstaklingur látist 20 árum fyrir aldur fram eða verji jafn löngum tíma við örorku af völdum lífsstílstengdra sjúkdóma, þá sparar það samfélaginu 150 milljónir króna mælt í landsframleiðslu á mann. Þar sem grunnkostnaður við hverja mælingu er um 1500 krónur skilar ein slík snemmgreining sér hundraðþúsundfalt,“ segir Guðmundur Löve framkvæmdastjóri SÍBS. Guðmundur segir að í hvert skipti sem mælt er finnist einstaklingar sem í kjölfarið leiti á heilsugæsluna til að fá staðfest hvort þeir þurfi á meðferð að halda við m.a. háþrýstingi, of háu kólesteróli eða skertu sykurþoli. Ódýr lyfjagjöf og bættur lífsstíl geti þar gert gæfumuninn.
Máttarstólpar SÍBS styrkja verkefnið
Að sögn Guðmundar hefur það skipt sköpum að SÍBS Líf og heilsa hefur notið stuðnings Máttarstólpa SÍBS, sem séu einstaklingar og fyrirtæki sem styrkja fræðslu- og forvarnastarf samtakanna. Hægt sé að gerast Máttarstólpi með því að hringja í síma 560 4800 á skrifstofutíma eða senda tölvupóst á [email protected].