|
Helga Þórunn hefur unnið að söfnun upplýsinga fyrir SÍBS |
Þriðjudaginn 31. mars n.k. verður efnt til kynningar í Rauðakrosshúsinu, Borgartúni 25 kl. 15:30.
Þar munu Rauði kross Íslands og SÍBS kynna sameiginlegt verkefni, söfnun upplýsinga um margvíslega þjónustu sem er í boði annaðhvort ókeypis eða mjög ódýrt.
Sjá nánar hér að neðan.
|
|
|
Hvað er í boði? |
Upplýsingar um þjónustu |
|
SÍBS Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga og Rauði kross Íslands í samstarfi Tómstunda- og félagsmálafræðideild, Háskóla Íslands hafa að undanförnu unnið að söfnun upplýsinga um möguleika m.a. fyrir þá fjölmörgu einstaklinga sem hafa farið eða eru að fara illa út úr afleiðingum þeirrar kreppu sem nú herjar á landsmenn. Helga Þórunn Sigurðardóttir, nemandi í HÍ, Erla Traustadóttir og Katrín Jónsdóttir ásamt starfsmönnum Rauða kross Íslands og SÍBS hafa unnið að þessu verkefni og safnað saman upplýsingum í gagnabanka. Þarna er m.a. um að ræða upplýsingar um það sem félög, félagasamtök, fyrirtæki, hið opinbera og fl. bjóða upp á fyrir almenning þeim að kostnaðarlausu eða mjög ódýrt, svo sem afþreyingu, námskeið, fræðslu og í raun allt sem gæti gagnast fólki í erfiðri aðstöðu og m.a. hamlað gegn einangrun þess. Bréf voru send út þar sem óskað var eftir liðsinni og að sendar yrðu upplýsingar um aðstoð/þjónustu sem í boði er og jafnframt upplýsingar um kostnað. Óskað var eftir upplýsingum um í hverju þjónustan/aðstoðin er fólgin. Lögð var áhersla á að verkefnið væri afar brýnt og mjög mikilvægt að þeir sem bjóða upp á eða hafa upplýsingar um aðstoð eða þjónustu sendi þær og að þær skili sér þannig að hægt yrði að kortleggja það sem í boði er og koma því á framfæri til sem flestra. Þessar upplýsingar hafa fram að þessu ekki legið fyrir á einum stað, en það stendur til bóta með þessari gagnasöfnun sem fjölmargir einstaklingar munu njóta góðs af nú og í framtíðinni. Afrakstur þessarar vinnu hefur nú verið tekin saman í einn upplýsingapakka og munu niðurstöðurnar m.a. verða birtar á heimasíðum SÍBS og RKÍ og dreift víða. |
Mjög mikilvægt er að þeir einstaklingar sem eru án atvinnu einangrist ekki og hafi möguleika á að byggja sér dagskrá til að fara eftir frá degi til dags, og verða sér úti um upplýsingar og/eða afþreyingu sem getur orðið þeim til góðs. Misjafnt er hversu upplýst fólk er um réttindi sín, víða er meira í boði en fólk veit af. Í ofangreindu verkefni leiða saman hesta sína samtök sem bæði vinna að heill og hagsmunum fólks og vonandi mun afrakstur þessa samstarfs nýtast sem flestum í framtíðinni.
Helga Þórunn, Erla og Katrín og aðrir sem að þessu hafa komið hafa sýnt mikinn áhuga og lagt metnað í að vinna vel að þessu verki. Það er von þeirra sem standa að þessu verkefni að það eigi eftir að skila sér í bættum hag sem flestra. Upplýsingar sem þessar eru í eðli sínu síbreytilegar og sífellt bætast við ný hagnýt tilboð. Því er hér með óskað eftir því að upplýsingar um slík tilboð verði sendar til Rauða kross Íslands, þannig að hægt sé að uppfæra þær og koma þeim á framfæri.
Verkefnið og helstu niðurstöður verða kynnta í Rauðakrosshúsinu, Borgartúni 25, kl. 15.30, n.k. þriðjudag 31. mars.
f.h. framkvæmdaaðila,
Helgi Hróðmarsson,
framkvæmdastjóri hjá SÍBS |
|
| | |