SÍBS hefur stofnað samstarfshópinn "Annað líf" ásamt sjúklingasamtökunum Hjartaheillum, Félagi nýrnasjúkra og Samtökum lungnasjúklinga. Hópurinn hefur það að markmiði að efla umræðu um líffæragjafir og fá samþykkt á Alþingi lög um „ætlað samþykki“ fyrir líffæragjöfum, en ætlað samþykki felur í sér að einstaklingar eru sjálfkrafa líffæragjafar nema þeir óski annars.
Fjöldi Íslendinga hefur öðlast annað líf eftir að hafa þegið líffæri. Íslendingar hafa þó ekki enn fetað í fótspor þeirra Norðurlandaþjóða og Evrópuríkja, sem lögleitt hafa ætlað samþykki fyrir líffæragjöfum.
Ætlað samþykki léttir aðstandendum ákvarðanatökuna þegar þeir standa frammi fyrir því hvort gefa eigi líffæri úr látnum einstaklingi, án þess að taka ákvörðunarvaldið úr þeirra höndum fyrir hönd hins látna. Ætlað samþykki eykur einnig á skilning og stuðlar að jákvæðri umræðu um líffæragjöf. Loks telur samstarfshópurinn að löggjöf um ætlað samþykki stuðli að aukinni skilvirkni og einfaldara regluverki.
Annað líf mun gangast fyrir fjölmiðla- og fræðsluátaki um líffæragjafir, sem nær hápunkti í málþingi um líffæragjafir í febrúar næstkomandi, þar sem fagfólk, líffæraþegar, -gjafar og aðstandendur munu taka þátt.
Opið hús er á þriðjudögum kl 9:30 í SÍBS-húsinu að Síðumúla 6 í Reykjavík fyrir þá sem hafa þegið eða eru að bíða eftir nýju líffæri.