Fréttir / 2. júlí 2009

Berklarnir eru ekki úr sögunni


Þó sigur hafi unnist í baráttunni við berklaveikifaraldurinn um miðja síðustu öld er berklaveikin þó enn til staðar.

Neðanskráð frétt birtist á www.visir.is:

 Nemandi veiktist af berklum

Nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð veiktist nýverið af berklum. Hópur fólks, einkum nemendur í skólanum, hefur verið sendur í berklapróf í kjölfarið. Endanlegar niðurstöður liggja þó ekki fyrir fyrr en í haust.

„Ég get staðfest að fyrir um það bil þremur vikum greindist berklaveiki hjá erlendum nema í Menntaskólanum við Hamrahlíð,\" segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir. „Hann er nú búinn í meðferð, kominn heim og líður vel.\"

Haraldur segir að í slíkum tilvikum séu þeir sem verið hafa í nokkuð nánum samskiptum við viðkomandi prófaðir. „Prófin eru gerð hjá sóttvarnadeild heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins,\" bætir Haraldur við. „Nú hefur hópur nemenda verið prófaður. Ekkert óeðlilegt hefur komið út úr þessum prófum, enda skammt um liðið síðan þau voru gerð. Síðan verður sami hópur prófaður aftur í september.\"

Sóttvarnalæknir segir að hér greinist fimm til tíu berklatilfelli á ári. Þau séu bundin við aldrað fólk, sem smitast hafi fyrir löngu, þegar berklar voru útbreiddir, ekki orðið veikt, en bakterían síðan tekið sig upp. Hins vegar sé um að ræða yngra fólk sem sé að koma til landsins.

Nýtt á vefnum