Fréttir / 31. janúar 2002

Lyfja hf. og SLS undirrita samning


Hinn 30. janúar s.l. var undirritaður samningur milli Samtaka lungnasjúklinga og Lyfju hf. sem felur í sér samstarf milli þessara aðila á ýmsum sviðum. Meðal þess má nefna að Lyfja hf. býður upp á lungnamælingar í apótekum sínum og hluti af gjaldi fyrir þær mun renna til SLS, en þeir munu á móti láta liggja frammi kynningu á samtökum sínum í apótekum Lyfju hf..

Lyfja hf. býður viðskiptavinum sínum upp á lyfjafræðilega umsjá og munu félagar SLS fá þessa þjónustu svo og ofangreindar mælingar sér að kostnaðarlausu  í 18 mánuði frá undirritun samningsins. Undirritun  fór fram í \"Rauða húsinu\", Suðurgötu 8, og færði Lyfja samtökunum fjölbreyttan eldhúsbúnað og höfðinglega úttekt í IKEA til húsbúnaðarkaupa.

Við athöfnina fluttu stutt ávörp Ingi Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lyfju hf., Ingi Dóri Einarsson, formaður Samtaka lungnasjúiklinga og Pétur Bjarnason, framkvæmdastjóri SÍBS.

Ingi Dóri Einarsson lýsti yfir ánægju sinni og þakklæti fyrir góðar undirtektir við erindi samtakanna um leið og hann þakkaði höfðinglegar gjafir.

\"Rauða húsið\", sem svo hefur verið nefnt er hugsað sem félagsmiðstöð, auk þess sem þar er starfrækt ráðgjöf og eftirmeðferð fyrir lungnasjúklinga sem verið hafa á Reykjalundi og þurfa að aðlaga lífshætti sína að breyttum viðhorfum.

Samtök lungnasjúklinga er yngsta aðildarfélag SÍBS og ennþá hið fámennasta. Samtökin gengu til liðs við SÍBS árið 1998 og félagsmenn eru nú rétt um 300. Mikil þörf er talin á eflingu þessara samtaka þar sem lungnasjúkdómar færast í vöxt og því stöðugt meiri þörf á forvarnarstarfi.

Þeir sem vilja gerast félagar er bent á netfang Samtaka lungnasjúklinga: [email protected] eða að hringja í síma 552 2150 á aðalskrifstofu SÍBS þar sem tekið er við inntökubeiðnum.

Nýtt á vefnum