Enn eru að berast framlög inn á söfnunarreikning sem varð til með landssöfnuninni Sigur lífsins haustið 1998. Þá söfnuðust miklir fjármunir, sem með vöxtum voru orðnir að um 56 milljónum þegar þeirra var þörf við byggingu hins glæsilega þjálfunarhúss sem var vígt í janúar s.l.
Margir ákváðu í upphafi að leggja upphæð mánaðarlega um nokkurn tíma, en aðrir eru að leggja starfinu lið vegna þakkarskuldar sem þeir standa í við Reykjalund og starfsemina þar. Þannig kemur alltaf nokkuð inn á reikning sem enn er nýttur til söfnunarinnar. Sem dæmi má nefna að síðastliðið sumar bárust kr. 300.000 frá einstaklingi, sem í hógværð sinni vildi ekki láta nafs síns getið og þurfti nokkra eftirgrennslan til þess að ná að þakka honum stuðninginn! Mjög algengt er að framlög frá 2.000 - 20.000 berist og oft án skýringa.
Söfnun vegna framkvæmdanna hófst með landsátakinu Sigur lífsins í október 1998, en þá lögðu á annan tug félaga og samtaka lið og landsmenn tóku vel undir. Þó húsið sé risið vantar enn yfir 200 milljónir til verksins sem SÍBS hefur verið falið að að afla. Því eru landsmenn hvattir til að leggja inn á söfnunarreikning nr: 0301-26-2600 (kennitala SÍBS er 550269-7409) til að styðja við þetta mikilvæga verkefni. Greiða má í bönkum, sparisjóðum og í heimabankanum. Með því verður enn frekari stoðum rennt undir þá mikilvægu starfsemi sem unnið er að á vegum SÍBS og Reykjalundar.
Markmið SÍBS eru skýr: Að styðja sjúka til sjálfsbjargar með forvörnum endurhæfingu og félagslegri uppbyggingu. Með framlagi þínu á ofangreindan reikning og/eða með kaupum á miða í Happdrætti SÍBS, getur þú aðstoðað SÍBS við að ná fram mikilvægum markmiðum sínum.