Fréttir / 15. mars 2002

Heimsókn LHS og SÍBS norður


Félag hjartasjúklinga á Norðurlandi vestra bauð, í tilefni af aðalfundi félagsins, gestum og gangandi upp á mælingu á blóðþrýstingi og blóðfitu í samvinnu við Landssamtök hjartasjúklinga og SÍBS frá kl. 10.00 til 14.00, laugardaginn 9. mars 2002 í Sjálfstæðishúsinu Húnabraut 13, Blönduósi. Þorkell Guðbrandsson, yfirlæknir á Sjúkrahúsi Akraness og HL stöðvarinnar í Reykjavík og Ómar Ragnarsson, læknir á Blönduósi voru  til viðtals fyrir þá einstaklinga sem mældust með of háan blóðþrýsting eða blóðfitu en alls mættu 82 einstaklingar í mælingar.

Í framhaldi af mælingunum kl. 14.00 hófst aðalfundur Félags hjartasjúklinga á Norðurlandi vestra. Fundurinn var öllum opinn, m.a. fengu félagar aðildarfélaga SÍBS á Norðurlandi vestra sent bréf með upplýsingum um fundinn. Eftir að venjulegum aðalfundarstörfum lauk, kynnti Helgi Hróðmarsson, félagsmálafulltrúi SÍBS uppbyggingu og starfsemi SÍBS.  Í framhaldi af því flutti Þorkell Guðbrandsson, yfirlæknir fróðlegt og áhugavert erindi um lífshætti og hjartasjúkdóma.

 

Mikilvægt er að aðildarfélög SÍBS hafi hag af aðild sinni að samtökunum. SÍBS hefur því lagt áherslu á gott samstarf og stuðning við aðildarfélög sín í þeirri viðleitni að bæta hag hins almenna félagsmanns. SÍBS er þannig opið fyrir enn frekara samstarfi. Það hefur verið ánægjulegt fyrir starfsmenn SÍBS að fá að starfa með Ásgeiri Þór Árnasyni og Rúrik Kristjánssyni, starfsmönnum Landssamtaka hjartasjúklinga, en þeir hafa lagt mikla vinnu og alúð í störf sín, m.a. með skipulagningu mælinga og kynningarfunda, fjölmörgum til hagsbóta.

 

15/3 2002, H.H.

Nýtt á vefnum