Happdrætti SÍBS hefur samið við Eddu útgáfu um að tveir stórglæsilegir gripir,
Íslensk orðabók og ritsafn Snorra Sturlusonar verði á vinningaskrá Happdrættisins 2003 fyrir heppna miðaeigendur.
Happdrætti SÍBS og Edda útgáfa hafa gert með sér samkomulag um að íslensk bókmenntaverk verði hluti af vinningaskrá Happdrættisins árið 2003.
Um er að ræða tvö meistaraverk sem komu út í haust, bækurnar Íslensk orðabók
sem hefur hlotið fádæma góðar viðtökur og ritsafn Snorra Sturlusonar, glæsilegt og afar áhugavert safn sem einnig sætir tíðindum.
Happdrætti SÍBS hefur í meira en hálfa öld aflað fjár fyrir uppbyggingu endurhæfingar að Reykjalundi og víðar. Uppbyggingin og starfið að Reykjalundi hefur vakið eftirtekt langt út fyrir landsteinana og árlega njóta á annað þúsund Íslendingar endurhæfingar þar vegna sjúkdóma eða slysa. Að leggja rækt við andlega vellíðan er nauðsynlegt jafnhliða þeirri líkamlegu.
SÍBS hefur allt frá upphafi lagt rækt við íslenska menningu og með þessum samningi leggur Happdrættið sitt af mörkum til ræktar hennar á heimilum landsmanna.
Heildarverðmæti vinninga Happdrættis SÍBS árið 2003 verður yfir hálfur milljarður króna og að jafnaði verða dregnar út 40-50 milljónir króna á mánuði.
Pétur Bjarnason framkvæmdastjóri SÍBS segir þennan samning ánægjulegt framhald af starfi Happdrættis SÍBS í þágu menningar og velferðar landsmanna. Í mörg ár hefur happdrættið verið með vinninga tengda íslenskri list en árið 2002 er hins vegar helgað útvist og hreyfingu. Á komandi ári verður með þessum samningi lögð áhersla á gildi bókarinnar, íslenskrar tungu og menningararfs okkar sem þjóðar.