Fréttir / 25. febrúar 2004

Félagsráðgjafi til starfa hjá SÍBS


María Jónsdóttir félagsráðgjafi hefur verið ráðin til starfa hjá SÍBS. Hún hefur aðsetur í húsnæði SÍBS við Síðumúla 6 og mun í byrjun starfa í fimm klukkustundir í viku. Bæði verður lögð áhersla á persónulegan stuðning og uppfræðslu um réttindamál.

María mun frá byrjun aprílmánaðar hafa viðveru á mánudögum frá kl. 12.00 til 17.00. Fram að þeim tíma mun hún vera á skrifstofunni eftir nánara samkomulagi. Frekari upplýsingar gefur Helgi Hróðmarsson í síma: 552-2150 og María Jónsdóttir, félagsráðgjafi í síma: 699-4462. Tölvupóstfang Maríu verður: [email protected]

 

Starfsmenn SÍBS hafa í gegnum tíðina orðið varir við þörf fyrir faglega aðstoð í þágu félagsmanna sinna, í mörgum tilfellum aðstoð sem félagsráðgjafi hefur sérþekkingu á. Þetta hefur m.a. verið til umfjöllunar í félagsmálanefnd SÍBS. Því var tekin ákvörðun um ráðningu félagsráðgjafa til reynslu á skrifstofu SÍBS til þjónustu við félagsmenn aðildarfélaga SÍBS og gert ráð fyrir að hann starfi í samstarfi við félagsmálanefnd SÍBS. Samtökin hafa nú ráðið til starfsins Maríu Jónsdóttur, félagsráðgjafa. Öryrkjabandalag Íslands hefur veitt styrk til þessa verkefnis. María hefur víðtæka reynslu sem félagsráðgjafi og hefur m.a. sinnt með miklum sóma fólki með fötlun, sjúklingum og fjölskyldum þeirra. Auk þess hefur hún reynslu af námskeiðahaldi og erlendum samstarfsverkefnum.  Látið verður reyna á hversu mikil þörfin fyrir þjónustu þessa verður og á grundvelli hennar tekin afstaða um framhaldið.

Það er von SÍBS að ráðning félagsráðgjafa verði mikilvægur liður í að auka þjónustu SÍBS við aðildarfélög sín til hagsbóta fyrir fjölmarga félagsmenn aðildarfélaganna.

 

Nýtt á vefnum