Haukur Halldórsson, formaður bankaráðs Landsbankans afhenti 28. janúar Reykjalundi, endurhæfingarmiðstöð SÍBS, styrk að upphæð 5 milljónir króna. Féð verður nýtt til framkvæmda við húsnæði á svæði Reykjalundar sem kallast Friðriksberg, sem kennt er við fyrrverandi yfirlækni á staðnum.
Í Friðriksbergi verður meðferð fyrir offitusjúklinga.
Landsbankinn hefur átt farsælt samstarf við SÍBS undanfarin ár og jafnan styrkt starf samtakanna með fjárgjöfum. Árið 2006 rann 1 milljón króna til gerðar á kynningarkvikmyndinni \"Sigrar lífsins\" sem fjallar um þá mikilvægu starfsemi sem fram fer á Reykjalundi og sýnd var m.a. í sjónvarpinu. Árið eftir var veittur annar styrkur sömu upphæðar til almennrar uppbyggingar starfseminnar. Árið 2008 var samtökunum afhentur styrkur að upphæð 2 milljónir króna í tilefni 40 ára afmælis Árbæjarútibús Landsbankans.
Landsbankinn fagnar því að geta með þessum hætti lagt Reykjalundi lið og stutt við það góða starf sem þar fer fram. Það er von bankans að styrkurinn nú muni nýtast vel við uppbyggingu nýrrar og aðkallandi þjónustu.
(Frétt af vef Landsbankans)