Edda Sif Pálsdóttir dagskrárgerðarkona í Landanum fjallaði um og tók þátt í ókeypis heilsufarsmælingu í Hveragerði fimmtudaginn 23. nóvember síðastliðinn. Umfjöllun um verkefnið var síðan í Landanum á sunnudagskvöldið.
SÍBS og Hjartaheill hafa um margra ára skeið gengist fyrir reglulegum mælingum á blóðþrýstingi og blóðgildum víða um land sem lið í vitundarvakningu um hjarta- og æðasjúkdóma. Samtök sykursjúkra bætust í hópinn haustið 2017 sem lið í sínu forvarnarstarfi og þjónustu við landsbyggðina.
Mældur er blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur, súrefnismettun og gripstyrkur auk þess fólki býðst að taka þátt í spurningavagni um lífsstílsþætti sem líklegir eru til að hafa áhrif á heilbrigði. Er þá einkum horft til helstu áhættuþátta glataðra góðra æviára (DALY) skv. skilgreiningum WHO, en spurningarnar teknar að svo miklu leyti sem verða má úr rannsókninni Heilsa og líðan Íslendinga til að hægt sé að bera svarendur saman við þýðið úr Heilsu og líðan. Niðurstöður mælinga og könnunar verða í kjölfarið sendar á þátttakendur þar sem þeir geta séð stöðu sína í samanburði við aðra á lokuðu svæði með skráningu í gegnum island.is.
Mynd: Edda talaði við tvíbura sem komu í mælingu og voru nokkuð sáttir við niðurstöðuna.