„Mataræði, hverju get ég trúað?“ er yfirskrift nýjasta SÍBS blaðsins.
Í leiðara Guðmundar Löve framkvæmdastjóra SÍBS kemur fram að slæmt mataræði er stærsti einstaki áhættuþáttur lífsstílstengdra sjúkdóma. Guðmundur setur fram tvíþætta hugmynd: Að afnema virðisaukaskatt alfarið af matvörum sem bera hið samnorræna hollustumerki Skráargatið, og færa á móti sykraðar vörur upp í efra virðisaukaskattsstigið í samræmi við ábendingar frá Embætti landlæknis. Skráargatið má finna á langflestum vöruflokkum, allt frá hreinum, óunnum matvælum á borð við kjöt og fisk, yfir í tilbúna rétti, morgunkorn, mjólkurvörur, brauð, viðbit og álegg. Vörur geta borið skráargatið ef þau uppfylla kröfur um minni og hollari fitu, minna salt, minni sykur, og meiri trefjar og heilkorn.
Í blaðinu má finna greinar um Skrárargatsmerkt matvæli eftir Elvu Gísladóttur og Hólmfríði Þorgeirsdóttur verkefnastjórar hjá Landlækni, Guðmundur F. Jóhannsson læknir fjallar um skaðsemi sykurs og Bryndís Eva Birgisdóttir ræðir mataræði og blóðsykursveiflur. Í viðtali Páls Kristins við Laufey Steingrímsdóttur, næringar- og matvælafræðing, er rættum um gæði í fersku íslensku hráefni. Anna Ragna Magnúsardóttir heilsuráðgjafi fjallar um tískustrauma í mataræði og Axel F. Sigurðsson ræðir um ólíkar tegundir fitu og mikilvægi hennar sem orkugjafa.