SÍBS og aðildarfélög hafa í vetur boðið íbúum Vesturlands ókeypis heilsufarsmælingar og ráðgjöf tengda lífsstíl. Alls þáðu 734 einstaklingar á Vesturlandi ókeypis mælingu á blóðþrýstingi, blóðfitu, blóðsykri og súrefnismettun. Mælt var á Akranesi, Borgarnesi, Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi í verkefni sem lauk um helgina í ferð um Snæfellsnes.
Bæjarstjórar sveitarfélaganna á Snæfellsnesi opnuðu mælingarnar og voru afar ánægðir með framtakið, Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar (sjá mynd) var sáttur við útkomuna úr sinni mælingu og þakkaði hana daglegum gönguferðum sem væru góðar bæði fyrir líkama og sál. Hjúkrunarfræðingar á heilsugæsluna veittu ráðgjöf og eftirfylgd og bókuðu tíma í læknisskoðun á staðnum þegar ástæða þótti til.
Snemmgreining skilar sér hundraðþúsundfalt
Með mælingunum á Snæfellsnesi lauk ferð SÍBS og Hjartaheilla um Vesturland, og segir Guðmundur Löve framkvæmdastjóri SÍBS verkefnið hafa tekist vel: „Ef hægt er að varna því að einstaklingur látist 20 árum fyrir aldur fram eða verji jafn löngum tíma við örorku af völdum lífsstílstengdra sjúkdóma, þá sparar það samfélaginu 150 milljónir króna mælt í landsframleiðslu á mann. Þar sem grunnkostnaður við hverja mælingu er um 1500 krónur skilar ein slík snemmgreining sér hundraðþúsundfalt,“ segir Guðmundur. Guðmundur segir að í hvert skipti sem mælt er finnist einstaklingar sem í kjölfarið leiti á heilsugæsluna til að fá staðfest hvort þeir þurfi á meðferð að halda við m.a. háþrýstingi, of háu kólesteróli eða skertu sykurþoli. Ódýr lyfjagjöf ásamt ráðgjöf um bættan lífsstíl geti þar gert gæfumuninn.
Opinber stuðningur lykilatriði
„Stuðningur hins opinbera við heilsufarsmælingar SÍBS Líf og heilsa hlýtur að vera ein besta fjárfesting í annars stigs forvörnum sem miða að því að stöðva framgang sjúkdóms,“ segir Guðmundur. „Öll önnur inngrip sem koma þar á eftir ef einstaklingurinn þróar með sér sjúkdóm eru í senn dýrari fyrir samfélagið og afdrifaríkari fyrir einstaklinginn.“
Sögu SÍBS Líf og heilsa má rekja aftur um hálfan annan áratug þegar Hjartaheill hóf að bjóða ókeypis mælingar á blóðgildum víða um land. Fljótlega tókst samstarf við SÍBS um mælingarnar og nýlega ákváðu Samtök lungnasjúklinga að taka þátt. Útkoman er heildstætt verkefni sem byggir á mælingum og spurningakönnun sem gefa góða mynd af heilsufari á hverjum stað og nýtist einstaklingum í heilsueflingu, að sögn Guðmundar.
Máttarstólpar SÍBS styrkja verkefnið
Að sögn Guðmundar hefur það skipt sköpum að SÍBS Líf og heilsa hefur notið stuðnings Máttarstólpa SÍBS, sem séu einstaklingar og fyrirtæki sem styrkja fræðslu- og forvarnastarf samtakanna. Hægt er að gerast Máttarstólpi með því að hringja í síma 560 4800 á skrifstofutíma eða senda tölvupóst á [email protected].