Hjartaheill og SÍBS bjóða öllum sem vilja koma í ókeypis mælingu á blóðþrýstingi, blóðsykri, blóðfitu og súrefnismettun, helgina 16. og 17. apríl kl. 11-15, í SÍBS-húsinu, Síðumúla 6. Heilsufarsmælingar eru árlegur viðburður en síðast mættu ríflega 700 manns í mælingar og reyndust um 60% þeirra með of háan blóðþrýsting. Þar af mældust 43 einstaklingar á hættusvæði og var í kjölfarið bent á að snúa sér til læknis.
„Hjarta og æðasjúkdómar eru algengasta orsök dauðsfalla og ótímabærs heilsubrests á Vesturlöndum. Lífstílssjúkdómar eru að verða heilsufarsvandi númer eitt. Þeir eiga þó það sameiginlegt að þá má að hluta til fyrirbyggja með hollu mataræði. Ég hvet alla sem eru komnir yfir fertugt til þess að koma og fá að vita hver staðan er hjá þeim. Þetta er ekki eitthvað sem er gott að vita, það getur beinlínis verið lífsnauðsynlegt.“ Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS
Nemar í hjúkrunar-, matvæla- og næringarfræði við Háskóla Íslands og sjúkraliðanemar úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti munu framkvæma mælingarnar ásamt starfsfólki Hjartaheilla og SÍBS. Opið er frá kl. 11 til 15 bæði laugardag og sunnudag. Ekki verður hægt að panta tíma í mælingu fyrirfram. Heilsufarsmælingarnar eru liður í fjölþættu forvarna- og fræðslustarfi SÍBS og Hjartaheilla.