Hjartaheill og SÍBS buðu ókeypis mælingu á blóðþrýstingi, blóðsykri, blóðfitu og súrefnismettun um síðustu helgi. Metfjöldi mætti í mælingu, en af 866 manns sem mældir voru reyndust 532 eða 61% vera með háþrýsting (yfir 140 í efri mörk eða yfir 90 í neðri mörk), og þar af voru 48 manns eða% á hættusvæði (yfir 180 í efri mörk eða yfir 110 í neðri mörk).
Þess má geta að af rúmlega 700 manns sem mældir voru í sams konar átaki á síðasta ári reyndust um 60% vera með of háan blóðþrýsting. Þar af mældust 43 einstaklingar á hættusvæði. Líkt og í fyrra voru það hjúkrunarfræðinemar við Háskóla Íslands ásamt starfsfólki Hjartaheilla og SÍBS sem unnu að mælingunum í SÍBS-húsinu, Síðumúla 6. Hjúkrunarfræðingar voru á staðnum til að veita ráðgjöf og var fjölda fólks bent á að fara til læknis til frekari skoðunar í kjölfar mælinga.
Hjartaheill og SÍBS hafa á annan áratug staðið fyrir mælingum af þessu tagi um land allt, yfirleitt í samvinnu við heilsugæslustöðvar og starfsfólk þeirra. Farið verður í fleiri slíkar mælingaferðir í vetur. Hjartaheill og SÍBS eru þakklát öllum þeim er lögðu leið sína í Síðumúlann þessa helgi.