SÍBS hefur sent viðskipta- og efnahagsnefnd umsögn vegna fyrirhugaðra lagabreytinga á vsk. og vörugjöldum og afnám þess sem kallað hefur verið sykurskattur. SÍBS mótmælir eindregið fyrirhugaðri niðurfellingu á vörugjöldum á viðbættum sykri og sætuefnum (sykurskatti), sem felst í ofangreindu frumvarpi. SÍBS hefur ítrekað bent á að ákvæði um sykurskatt er nauðsynlegt til setja skýran mælikvarða á lýðheilsu- og heilsuhagfræðilega þætti tengda neyslumynstri og forsenda þess að viðurkenna vandann. Sakir samfélagslegs kostnaðar og heilsufaráhrifa offitu, telur SÍBS ofneyslu sykurs ekki vera alfarið einkamál hvers og eins, frekar en neysla áfengis og tóbaks. Umsögnina má lesa hér í heild sinni.
Umsögn um frumvarp til laga um vsk. og vörugjöld, 2. mál
SÍBS mótmælir eindregið fyrirhugaðri niðurfellingu á vörugjöldum á viðbættum sykri og sætuefnum (sykurskatti), sem felst í ofangreindu frumvarpi.
Út frá fyrirliggjandi tölum telur SÍBS að heildarkostnaður hins opinbera hér á landi vegna offitu nemi milli kr. 5 og 15 ma. á ári.
Tveir þriðju hlutar dauðsfalla og stór hluti örorku orsakast af sjúkdómum sem tengjast lífsstíl. Mataræði er stærsti einstaki áhættuþáttur heilsu Íslendinga að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).
Ákvæði um sykurskatt er nauðsynlegt til setja skýran mælikvarða á lýðheilsu- og heilsuhagfræðilega þætti tengda neyslumynstri og forsenda þess að viðurkenna vandann.
SÍBS telur að kostnaður hins opinbera af völdum offitu geti numið kr 5–10 milljörðum á ári hér á landi út frá fyrirliggjandi rannsóknum og alþjóðlegum samanburði.
Sakir samfélagslegs kostnaðar og heilsufaráhrifa offitu, telur SÍBS ofneyslu sykurs ekki vera alfarið einkamál hvers og eins, frekar en neysla áfengis og tóbaks.
SÍBS tekur undir rökstutt viðhorf Landlæknis og erlendar rannsóknir sem sýna að neyslustýring með skattlagningu sé áhrifarík leið til að minnka neyslu óhollra vara.
Norðurlöndin skattleggja undantekingalaust sykur og sætindi. Fyrirhugaðri útvíkkun sykurskattsins var slegið á frest í Danmörku 2013 en er sífellt meira í umræðunni í þeim löndum sem við berum okkur saman við.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) mælir nú með að enn verði hert á takmörkunum á magni af sykri í matvælum úr 10% í 5% af orkuþörf. Einnig er stofnunin nú farin að telja með sykur í söfum, þykknum og sýrópum sem Íslendingar hafa hingað til ekki gert.
Rannsóknir sýna í auknum mæli fram á skaðlega virkni sætuefna engu síður en sykurs, og því er skattur sem beinist gegn sykri og sætuefnum enn nauðsynlegri en ella.
SÍBS telur að lengra þurfi að ganga í gjaldtöku af gosdrykkjum og sælgæti. Helmingur neyslu á viðbættum sykri stafar af neyslu gosdrykkja (30%) og sælgætis (20%).
Heildarmyndin
Lífsstílssjúkdómar standa í vegi hagvaxtar
Langvinnir, lífsstílstengdir sjúkdómar valda 86% allra dauðsfalla í okkar heimshluta. Vandinn er af þeirri stærðargráðu að hann stendur í vegi fyrir hagvexti um allan heim og er að sliga heilbrigðiskerfi samtímans.
http://www.laeknabladid.is/tolublod/2012/11/nr/4665
Draga má úr samfélagslegum kostnaði með sykurskatti
Með neyslustýringu má draga úr neyslu óhollra fæðutegunda en auka í staðinn neyslu ávaxta og grænmetis. Góð leið til þess er sykurskattur. Óhófleg neysla sykurs stuðlar að þeim offitufaraldri sem flest lönd búa við í dag. Offita og afleidd sykursýki er ein helsta undirrót margra langvinnra sjúkdóma. Það er því lýðheilsumarkmið að draga úr sykurneyslu þjóðarinnar.
http://www.laeknabladid.is/tolublod/2013/03/nr/4790
Heilsuhagfræðileg afstaða
Sakir samfélagslegs kostnaðar og heilsufaráhrifa offitu og sjúkdóma tengdra mataræði er ofneysla sykurs ekki alfarið einkamál hvers og eins meðan samfélagið ber kostnaðinn. Líkt og vegna ofneyslu áfengis og tóbaksneyslu er gjaldtaka því réttlætanleg.
Beinn kostnaður hins opinbera vegna offitu var áætlaður kr 3 ma. árið 2007 hér á landi, eða sem samsvarar á fimmta milljarði á verðlagi dagsins í dag – og þó líklega meiru, því offituvandinn hefur aukist verulega frá 2007.
Í skýrslu Háskólans á Bifröst sem gerð var fyrir heilbrigðisráðuneytið í nóvember 2008 kemur m.a. fram að þjóðhagslegur sparnaður af því að lækka meðalþyngd landsmanna um 1 BMI-stig (léttast um ca. 3 kg) nemi um kr. 1 ma. á ári, eða 1,5 ma. á verðlagi dagsins í dag.
Gera má ráð fyrir að heildarkostnaður hins opinbera vegna offitu sé jafnvel hærri en að framan greinir, sé tekið mið af vandaðri sænskri rannsókn sem út kom 2011. Samkvæmt rannsókninni nam heildarkostnaður sænska ríkisins (tryggingakerfis og heilbrigðiskerfis) vegna offitu SEK 15 ma. árið 2003, sem þá svaraði til 0,6% af vergri þjóðaframleiðslu. Í skýrslunni er gert ráð fyrir 40–80% aukningu fram til ársins 2020, sem heimfært á Ísland væri ISK 15 ma á ári nú.
Þá vill SÍBS taka undir það rökstudda og skýra viðhorf Landlæknisembættisins, að neyslustýring með skattlagningu sé áhrifarík leið til að takmarka neyslu óhollra vara, bæta heilsu og draga úr útgjöldum. Landlæknir vísar m.a. í grein sem sannar að verðstýring með sköttum eða vörugjöldum á sykraða gosdrykki geti verið áhrifarík leið til að minnka neyslu á þeirri vöru. Slík verðhækkun getur haft áhrif þar sem þörfin er brýnust, þ.e. hjá börnum og ungmennum og öðrum þeim sem drekka mest af gosdrykkjum.
http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item23650/Laekkum-alogur-a-hollustu-og-takmorkum-adgengi-ad-ohollustu
http://www.nejm.org/doi/pdf/10.1056/NEJMp0902392
Einnig vísar Landlæknir til greinar í Lancet 2011 þar metið var hvaða aðgerðir stjórnavalda í Ástralíu skiluðu mestum árangri í því að sporna gegn offitu, og voru þar skattar á óholla mat- og drykkjarvöru efst á blaði, bæði til að bæta heilsu og til að draga úr útgjöldum.
http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0140673611608155#
Út frá fyrirliggjandi tölum telur SÍBS að heildarkostnaður hins opinbera hér á landi vegna offitu nemi milli kr. 5 og 15 ma. á ári.
Íslendingar borða of mikinn sykur
Sykurneysla Íslendinga er nú 47 g á dag af viðbættum sykri, en dreifingin er stór: alls eru um 13% þjóðarinnar (>1 SD) að neyta yfir 90 g á dag og neyslan er tvöföld í yngstu aldurshópunum miðað við þá elstu, skv. skýrslunni Hvað borða Íslendingar? – könnun á mataræði 2010-2011
Embætti landlæknis, Matvælastofnun og Rannsóknastofa í næringarfræði (2011)
http://bit.ly/1vRGXIP (bls. 37)
Ofan á bætist að WHO telur ekki aðeins viðbættan sykur í sínum viðmiðum eins og við gerum, heldur einnig náttúrulegan sykur í hunangi, sýrópum, ávaxtasöfum og ávaxtaþykknum (e. free sugars) líkt og nefnt var hér að framan.
Borið hefur á þeim falsrökum að þyngdaraukning þjóðarinnar geti ekki verið sykurneyslu að kenna, þar sem sykurneysla hafi staðið í stað eða jafnvel dregist saman á stundum. Þetta er rökvilla vegna þess að ofneysla sykurs getur haldið áfram að valda þyngdaraukningu jafnvel þótt ofneyslan minnki – hún er enn ofneysla, og margföld hjá Íslendingum á við það sem WHO telur æskilegt.
Neyslustýring með sköttum
Fjöldi vísindagreina hefur birst sem sanna áhrif verðs á eftirspurn. Ein sú stærsta sem birst hefur nýlega (janúar 2014) tók til næringarefna matvæla (ekki aðeins varanna sjálfra), með nákvæmri greiningu á innihaldsefnum einstakra matvara í 123 milljón innkaupum hjá bandarískum neytendum. Niðurstaða rannsakendanna er að skattur á innihaldsefni (þ.e. sykurskattur) sé mun áhrifameiri en skattur á vöruflokka (þ.e. vörugjöld eða virðisaukaskattur), án aukins heildarkostnaðar fyrir neytendur.
http://www.nber.org/papers/w19781
Óþarfi er að minna á að neyslustýring á skaðvænlegum neysluvörum hefur verið lengi við lýði hvað varðar áfengi og tóbak. Sjálfur frumkvöðull frjálshyggjunnar Adam Smith segir svo í Auðlegð þjóðanna: "Sugar, rum, and tobacco, are commodities which are nowhere necessaries of life, [but] which are ... objects of almost universal consumption, and which are therefore extremely proper subjects of taxation."
http://www.who.int/tobacco/research/economics/prices_taxes_revenues/en
Innlendir rannsakendur styðja neyslustýringu með sköttum á sykur:
http://www.ruv.is/heilbrigdismal/verdstyring-skilvirkasta-leidin
Staða mála á Norðurlöndum
Í Danmörku hefur skattur á gos, ís, sælgæti og ýmist sætabrauð verið við lýði síðan 1922, og í núverandi formi síðan 1998. Rangt er, sem haldið hefur verið fram af hagsmunaaðilum hér á landi, að fallið hafi verið frá sykurskatti í Danmörku. Hið rétta er, að við fjárlagagerð vegna 2013 var samið um að falla frá eða fresta fyrirhugaðri útvíkkun á sykurskattinum, og reglur sem taka áttu gildi 1. janúar 2013 um skatt á harða fitu voru felldar úr gildi.
Í Noregi hefur verið í gildi skattur á gos og sælgæti síðan 1981, og sérstakur skattur á súkkulaði og sykurvörur síðan 1922 líkt og í Danmörku. Með sameinaðri reglugerð árið 2001 var m.a. skattur á gosdrykki sem innihalda viðbættan sykur færður á einn stað, og nemur fjárhæð hans nú um ISK 70 pr lítra. Frá 1. janúar 2013 hækkar skattur á sykraða drykki, svo hálfs lítra flaska mun að meðaltali hækka um sem nemur ISK 20. Líkt og í Danmörku, hefur verið ákveðið að útvíkka ekki sem stendur gjaldtöku í átt til almenns skatts á sykur.
Í Finnlandi er þegar við lýði skattur á sykraða drykki, ís og sælgæti, en vinna hefur verið í gangið við að skoða hvers konar gjöld séu best til þess fallin að stýra neyslu á sykruðum vörum almennt.
Í Svíþjóð var síðast lögð fram þingsályktunartillaga í október 2012 um álagningu sykurskatts, en málið er ekki komið lengra á sænska þinginu.
Næringarfræðileg sjónarmið
Gegnum þróunarsögu mannsins hefur sykur alls ekkert komið við sögu fyrr en á síðasta árþúsundinu í Evrópu og litlu fyrr í Austurlöndum. Fyrst á 18. öld varð sykur algengur í Evrópu; fyrst sem lúxusvara en svo á 19. öld sem nauðsynjavara.
Líffræðilega erum við ekki hönnuð til að þola sykur vel: Frúktósinn í venjulegum sykri (súkrósa) meltist í lifrinni líkt og alkóhól, sem tekur tíma og heldur áfram að skila orku löngu eftir að við erum hætt að vera sólgin í sykur. Þessi umframorka breytast síðan í fitu – gjarnan kviðfitu eða fitusöfnun í lifur. Skiptir þá engu hvort um er að ræða hvítan sykur, hrásykur eða annan sykur.
Það er ekki náttúrulega fitan í matnum sem orsakar offituna. Hún þarf að vera til staðar til að veita nauðsynleg næringarefni og gefur hæga orku sem ekki örvar insúlínsveiflur eins og hröðu kolvetnin. Það er gegndarlaust sykur- og sterkjuát sem fyrst og fremst hefur komið okkur í koll.
http://www.sibs.is/allar-greinar/item/81-aftur-til-upprunans
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO)
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) notar í dag víðari skilgreiningu á viðbættum sykri en tíðkast hefur á Íslandi, og telur með allar ein- og tvísykrur sem bætt er við matinn eða eru til staðar frá náttúrunnar hendi í hunangi, sýrópum, ávaxtasöfum og ávaxtaþykknum.
WHO sendi þann 5. mars 2014 frá sér tillögur að nýjum manneldismarkmiðum, þar sem áfram er litið til þess að í mesta lagi 10% af heildarorkuþörf verði mætt með sykurneyslu en stefna beri að 5%. Þetta magn samsvarar 25 g af sykri á dag, eða 6 teskeiðum. Í lítilli gosdós eru 9 teskeiðar.
http://www.who.int/mediacentre/news/notes/2014/consultation-sugar-guideline/en/
Samkvæmt WHO er mataræði nú stærsti einstaki áhættuþáttur lýðheilsu Íslendinga.
Til að bæta gráu ofan á svart eru Íslendingar heldur ekki að mæla sykur á sama hátt og WHO, sem telur með safa, þykkni og sýróp sem við undanskiljum og fáum því lægri neyslutölur.
Brottfall sykurskatts væri meiri háttar áfall fyrir viðleitni okkar til að ná markmiðum WHO.
Evrópumeistarar í ofþyngd
Ársneysla Íslendinga á sykri hefur verið nálægt 50 kílóum á mann á ári í langan tíma. Viðvarandi ofneysla sykurs veldur sívaxandi þyngd þjóðarinnar. Það er því fullkomin rökvilla sem haldið hefur verið fram að þyngdaraukning geti ekki verið sykurneyslu að kenna þegar sykurneyslan vex ekki. Íslendingar eru nú feitasta þjóð Evrópu með 74% karla og 61% kvenna í ofþyngd skv. greiningu á skýrslu WHO Global Burden of Disease 2013.
http://www.ruv.is/frett/feitust-og-naest-feitust-i-vestur-evropu
http://www.thelancet.com/journals/lancet/article/PIIS0140-6736(14)60460-8/fulltext?_eventId=login
Eftirfarandi grein í The Lancet tekur saman 900.000 manns í Norður-Ameríku og Evrópu og fylgir þeim eftir í að meðaltali 8 ár. Kyrfilega er sýnt fram á að líkamsþyngdarstuðull yfir 25 (ofþyndarmörk) tengist verulega auknum líkum á sjúkdómum og dauða:
http://www.thelancet.com/pdfs/journals/lancet/PIIS0140673609603184.pdf
Böndin berast að sykurneyslu og gervisykri
Anna Sigríður Ólafsdóttir um sykur, sætt bragð og seddustjórnun
http://www.ruv.is/mannlif/feitasta-thjod-evropu (útvarp)
http://www.sibs.is/allar-greinar/item/76-sykur-og-s%C3%A6ta-brag%C3%B0i%C3%B0 (grein)
Ýmsir erlendir vísindamenn sem nefndir eru til sögunnar í þessari fréttaskýringu frá kanadíska ríkissjónvarpinu CBC: “The Secrets of Sugar” - the fifth estate - CBC News
https://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&;v=xDaYa0AB8TQ
Ný rannsókn úr Nature um skaðsemi sætuefna (17. september 2014). Gervisykur (sakkarín, súkralósi og aspartam) hefur áhrif á brenglað sykurþol, þ.e. forstig sykursýki. Niðurstöðurnar eru sláandi og byggðar sterkum tilraunum, bæði í músum og mönnum og styðja mjög álagningu sykurskatts á gervisætu til jafns við sykur.
http://www.nature.com/nature/journal/vaop/ncurrent/full/nature13793.html
http://ruv.is/frett/saetuefni-kunna-ad-vera-varhugaverd
Fyrirlestur Dr. Robert H. Lustig “Sugar: The Bitter Truth” frá University of California San Fransisco Mini Medical School for the Public um það hvernig frúktósinn í sykri er aðalskaðvaldurinn.
http://www.youtube.com/watch?v=dBnniua6-oM
Um SÍBS
SÍBS á og rekur endurhæfingarmiðstöðina Reykjalund og öryrkjavinnustaðinn Múlalund, og innan sambandsins starfa sjúklingafélög með um sex þúsund félagsmenn.
SÍBS beitir sér fyrir heilsueflingu og forvörnum á sviði lífsstíls. Tveir þriðju hlutar dauðsfalla og verulegur hluti örorku orsakast af sjúkdómum sem tengjast lífsstíl, þar meðtalið tóbaksreykingum, óheilsusamlegu mataræði, hreyfingarleysi og misnotkun áfengis.
Reykjavík, 24. september 2014
Virðingarfyllst,
Guðmundur Löve
framkvæmdastjóri SÍBS