Fréttir / 21. október 2014

Umsögn um frumvarp til laga um vsk. og vörugjöld, 2. mál


SÍBS mótmælir eindregið fyrirhugaðri niðurfellingu á vörugjöldum á viðbættum sykri og sætuefnum (sykurskatti), sem felst í ofangreindu frumvarpi.

  • Út frá fyrirliggjandi tölum telur SÍBS að heildarkostnaður hins opinbera hér á landi vegna offitu nemi milli kr. 5 og 15 ma. á ári.
  • Tveir þriðju hlutar dauðsfalla og stór hluti örorku orsakast af sjúkdómum sem tengjast lífsstíl. Mataræði er stærsti einstaki áhættuþáttur heilsu Íslendinga að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).
  • Ákvæði um sykurskatt er nauðsynlegt til setja skýran mælikvarða á lýðheilsu- og heilsu­hagfræðilega þætti tengda neyslumynstri og forsenda þess að viðurkenna vandann.
  • SÍBS telur að kostnaður hins opinbera af völdum offitu geti numið kr 5–10 milljörðum á ári hér á landi út frá fyrirliggjandi rannsóknum og alþjóðlegum samanburði.
  • Sakir samfélagslegs kostnaðar og heilsufaráhrifa offitu, telur SÍBS ofneyslu sykurs ekki vera alfarið einkamál hvers og eins, frekar en neysla áfengis og tóbaks.
  • SÍBS tekur undir rökstutt viðhorf Landlæknis og erlendar rannsóknir sem sýna að neyslustýring með skatt­lagningu sé áhrifarík leið til að minnka neyslu óhollra vara.
  • Norðurlöndin skattleggja undantekingalaust sykur og sætindi. Fyrirhugaðri útvíkkun sykurskattsins var slegið á frest í Danmörku 2013 en er sífellt meira í umræðunni í þeim löndum sem við berum okkur saman við.
  • Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) mælir nú með að enn verði hert á takmörkunum á magni af sykri í matvælum úr 10% í 5% af orkuþörf. Einnig er stofnunin nú farin að telja með sykur í söfum, þykknum og sýrópum sem Íslendingar hafa hingað til ekki gert.
  • Rannsóknir sýna í auknum mæli fram á skaðlega virkni sætuefna engu síður en sykurs, og því er skattur sem beinist gegn sykri og sætuefnum enn nauðsynlegri en ella.
  • SÍBS telur að lengra þurfi að ganga í gjaldtöku af gosdrykkjum og sælgæti. Helmingur neyslu á viðbættum sykri stafar af neyslu gosdrykkja (30%) og sælgætis (20%).




    Heildarmyndin
    Lífsstílssjúkdómar standa í vegi hagvaxtar
    Langvinnir, lífsstílstengdir sjúkdómar valda 86% allra dauðsfalla í okkar heimshluta. Vandinn er af þeirri stærðargráðu að hann stendur í vegi fyrir hagvexti um allan heim og er að sliga heilbrigðiskerfi samtímans.
    http://www.laeknabladid.is/tolublod/2012/11/nr/4665
    Draga má úr samfélagslegum kostnaði með sykurskatti
    Með neyslustýringu má draga úr neyslu óhollra fæðutegunda en auka í staðinn neyslu ávaxta og grænmetis. Góð leið til þess er sykurskattur. Óhófleg neysla sykurs stuðlar að þeim offitufaraldri sem flest lönd búa við í dag. Offita og afleidd sykursýki er ein helsta undirrót margra langvinnra sjúkdóma. Það er því lýðheilsumarkmið að draga úr sykurneyslu þjóðarinnar.
    http://www.laeknabladid.is/tolublod/2013/03/nr/4790


Heilsuhagfræðileg afstaða
Sakir samfélagslegs kostnaðar og heilsufaráhrifa offitu og sjúkdóma tengdra mataræði er ofneysla sykurs ekki alfarið einkamál hvers og eins meðan samfélagið ber kostnaðinn. Líkt og vegna ofneyslu áfengis og tóbaksneyslu er gjaldtaka því réttlætanleg.
Beinn kostnaður hins opinbera vegna offitu var áætlaður kr 3 ma. árið 2007 hér á landi, eða sem samsvarar á fimmta milljarði á verðlagi dagsins í dag – og þó líklega meiru, því offituvandinn hefur aukist verulega frá 2007.
http://skemman.is/en/stream/get/1946/3254/10284/1/Kristin_Thorbjornsdottir_fixed.pdf
Í skýrslu Háskólans á Bifröst sem gerð var fyrir heilbrigðisráðuneytið í nóvember 2008 kemur m.a. fram að þjóðhagslegur sparnaður af því að lækka meðalþyngd landsmanna um 1 BMI-stig (léttast um ca. 3 kg) nemi um kr. 1 ma. á ári, eða 1,5 ma. á verðlagi dagsins í dag.
http://www.velferdarraduneyti.is/media/rit-og-skyrslur2012/Bifrost-Offita-171108.pdf
Gera má ráð fyrir að heildarkostnaður hins opinbera vegna offitu sé jafnvel hærri en að framan greinir, sé tekið mið af vandaðri sænskri rannsókn sem út kom 2011. Samkvæmt rannsókninni nam heildarkostnaður sænska ríkisins (tryggingakerfis og heilbrigðiskerfis) vegna offitu SEK 15 ma. árið 2003, sem þá svaraði til 0,6% af vergri þjóðaframleiðslu. Í skýrslunni er gert ráð fyrir 40–80% aukningu fram til ársins 2020, sem heimfært á Ísland væri ISK 15 ma á ári nú.
http://eso.expertgrupp.se/wp-content/uploads/2013/07/ESO-2011_3-till-webben.pdf
Þá vill SÍBS taka undir það rökstudda og skýra viðhorf Landlæknisembættisins, að neyslustýring með skattlagningu sé áhrifarík leið til að takmarka neyslu óhollra vara, bæta heilsu og draga úr útgjöldum. Landlæknir vísar m.a. í grein sem sannar að verðstýring með sköttum eða vörugjöldum á sykraða gosdrykki geti verið áhrifarík leið til að minnka neyslu á þeirri vöru. Slík verðhækkun getur haft áhrif þar sem þörfin er brýnust, þ.e. hjá börnum og ungmennum og öðrum þeim sem drekka mest af gosdrykkjum.
http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item23650/Laekkum-alogur-a-hollustu-og-takmorkum-adgengi-ad-ohollustu
http://www.nejm.org/doi/pdf/10.1056/NEJMp0902392
Einnig vísar Landlæknir til greinar í Lancet 2011 þar metið var hvaða aðgerðir stjórnavalda í Ástralíu skiluðu mestum árangri í því að sporna gegn offitu, og voru þar skattar á óholla mat- og drykkjarvöru efst á blaði, bæði til að bæta heilsu og til að draga úr útgjöldum.
http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item18902/Hvad-tharf-til-ad-alogur-a-matvaeli-virki-sem-forvarnaradgerd-
http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0140673611608155#
Út frá fyrirliggjandi tölum telur SÍBS að heildarkostnaður hins opinbera hér á landi vegna offitu nemi milli kr. 5 og 15 ma. á ári.

 

Nýtt á vefnum