SÍBS hefur skorað á stjórnvöld að endurskoða þær hugmyndir sem birtast í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 um hækkun virðisaukaskatts á holla fæðu úr 7% í 12% og lækkun vsk. á óhollri fæðu úr 25,5% í 24% ásamt niðurfellingu á sykurskatti. Þessar hugmyndir ganga eins langt frá lýðheilsumarkmiðum og hugsast getur. Íslendingar eru nú orðnir feitasta Norðurlandaþjóðin og álíka feitir og Bandaríkjamenn. Á sama tíma má rekja allt að þrjá fjórðuhluta kostnaðar í helbrigðiskerfinu til afleiðinga langvinnra sjúkdóma sem tengjast lífsstíl, eða sem nemur yfir 40 milljörðum króna á ári.
SÍBS talaði ásamt Landlæknisembættinu og öðrum fagaðilum fyrir innleiðingu sykurskatts, en innheimta hóflegs skatts á viðbættan sykur hófst 1. mars 2013 og hefur hann skilað um 3 milljörðum króna í ríkissjóð á ári. Nú stendur til að fella þennan skatt niður skv. frumvarpi til fjárlaga ársins 2015. Hvergi í nágrannalöndum okkar er í dag talað um að fella niður sykurskatt, heldur er þvert á móti verið að ræða hvernig beita megi honum á markvissari hátt. Ofneysla óhollustu er ekki einkamál hvers og eins á meðan samfélagið þarf að taka afleiðingunum. Því er réttmætt að tengja saman orsök og afleiðingu og skattleggja sannanlega óhollan mat sem bakar samfélaginu gríðarlegan kostnað, fyrir utan þá mannlegu þjáningu sem hlýst af langvinnum lífsstílstengdum sjúkdómum.
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) er mataræði stærsti einstaki áhættuþáttur sjúkdómsbyrði Íslendinga. Ofneysla sykurs er þar stærsti orsakaþátturinn. Þá benda rannsóknir til þess að það þurfi hvort tveggja fræðslu og neyslustýringu til að ná árangri, og þá er sama hvort litið er til áfengis og tóbaks eða óhollra matvara. Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) hefur fyrr á þessu ári markað sér nýja stefnu gagnvart sykurneyslu og hvetur nú til þess að hún verði ekki meiri en sex teskeiðar á dag, eða 5% af heildarorkuþörfinni. Til samanburðar má benda á það að lítil dós af gosi inniheldur að meðaltali 9 teskeiðar af sykri.
Skorað er á alþingi og ríkisstjórn að halda sykurskattinum sem lykiltæki í að ná utan um sívaxandi kostnað vegna lífsstílstengdra sjúkdóma, sem að óbreyttu munu verða til þess að næsta kynslóð lifi skemur en sú sem á undan gekk, og um leið setja heilbrigðiskerfið lá hliðina vegna sívaxandi kostnaðar.