Fréttir / 3. maí 2008

Samið við hjartalækna


Samninganefnd heibrigðisráðherra og hjartalæknar hafa gert samning um þjónustu þeirra síðarnefndu sem sögðu sig af samningi fyrir liðlega tveimur árum.  

Með því samkomulagi er ekki lengur gerð krafa um tilvísun frá heilsugæslu- eða heimilislækni. Sjúklingar þurfa heldur ekki lengur að leggja út fyrir öllum kostnaði vegna þjónustu hjartalækna og sækja síðan um endurgreiðslu á hluta hans til TR.

Með samkomulaginu þurfa sjúklingar einungis að greiða hjartalækni hlutdeild sína í  kostnaði við þjónustuna.

Samningurinn gildir um alla hjartalækna sem voru í starfi í apríl 2008 og tekur til þjónustu sem veitt er utan sjúkrahúsa. Hafa læknar frest til 1. júní til að staðfesta aðild sína að samningum en samningurinn gildir frá 5. maí 2008 til og með 31. mars 2010.

 

Samningurinn milli samninganefndar heilbrigðisráðherra og hjartalækna er á sömu nótum og samningur sem undirritaður var fyrir skömmu og tekur til þjónustu annarra sérfræðilækna. Meginmarkmið með samningum við hjartalæknana er að tryggja bætta þjónustu við hjartasjúklinga og gera leið sjúklinga að þjónustu þeirra greiðari og sambærilega við það sem gildir um aðra.

(Frétt af vef Hjartaheilla)

 

Nýtt á vefnum