SÍBS hefur ásamt formönnum Hjartaheilla, Samtaka lungnasjúklinga, Félags nýrnasjúkra og Félags lifrarsjúkra sent Alþingi áskorun um að taka á dagskrá þingsályktunartillögu um ætlað samþykki við líffæragjafir og stefna að afgreiðslu tillögunnar á yfirstandandi þingi, en ár hvert deyr fólk á biðlistum eftir nýju líffæri.
- Meirihluti Evrópuríkja hefur lögleitt ætlað samþykki og tíðni líffæragjafa er almennt hærri í þeim ríkjum en hinum, sem líkt og Ísland búa við upplýst samþykki / ætlaða neitun.
- Tíðni líffæragjafa á Íslandi er aðeins tæpur helmingur af tíðni líffæragjafa í Noregi, þar sem ríkir ætlað samþykki.
- Á Íslandi neita aðstandendur líffæragjöf í 40% tilfella, þótt bæði íslenskar og erlendar kannanir leiði í ljós að 80 – 90% fólks vilji gefa líffæri eftir sinn dag.
- Líffæraígræðsla er ódýrasta meðferðarúrræðið við mörgum sjúkdómum og jafnframt það sem gefur sjúklingum bestu lífsgæðin.