SÍBS Líf og heilsa

Líf og heilsa

SÍBS og Hjartaheill hafa um margra ára skeið gengist fyrir reglulegum mælingum á blóðþrýstingi og blóðgildum víða um land sem lið í vitundarvakningu um hjarta- og æðasjúkdóma. Samtök sykursjúkra og Samtök lungnasjúklinga tóku þátt í verkefninu frá og með haustinu 2017 sem lið í sínu forvarnarstarfi og þjónustu við landsbyggðina.

Framkvæmdin er á þann hátt að auglýst er að ókeypis heilsufarsmælingar verði á tilteknum stað og stund, svo mæta þeir sem vilja.

Haustið 2016 hófst tilraunaverkefni með framkvæmd mælinga og fyrirlagningu spurningalista í byggðarlögum á Vesturlandi. Heilsugátt SÍBS var tekin í notkun 2017 en þar er haldið utan um niðurstöður mælinga og spurningavagns um lífsstílsþætti sem líklegir eru til að hafa áhrif á heilbrigði. Er þá einkum horft til helstu áhættuþátta glataðra góðra æviára (DALY) skv. skilgreiningum WHO, en spurningarnar teknar að svo miklu leyti sem verða má úr rannsókninni Heilsa og líðan Íslendinga. Með tilurð Heilsugáttar geta þátttakendur nálgast samanburðarniðurstöður í gegnum mínar síður á island.is

Í ágúst 2019 var búið að skrá um 8500 mælingar í Heilsugátt SÍBS og svarhlutfall við spurningavagninum hefur verði mjög gott. Tilraunaverkefnið hefur hlotið styrk frá Lýðheilsusjóði.

Linkur á Heilsugátt SÍBS

SÍBS Líf og heilsa, lífsstílsþjálfun

SÍBS Líf og heilsa lífsstílsþjálfun byggir á hinu bandaríska National Diabetes Prevention Program (NDPP) sem stýrt er af Smitsjúkdóma- og forvarnarstofnun Bandaríkjanna (CDC). Námsefni og kennsluleiðbeiningar hafa verið þýddar og aðlagaðar að ráðleggingum Embættis landlæknis um mataræði og hreyfingu. Við aðlögun var einnig horft til annarra langvinnra sjúkdóma svo sem hjarta- og æðasjúkdóma auk þess sem þjálfunin getur dregið úr einkennum kvíða- og þunglyndis.

Námskráin "Líf og heilsa lífsstílsþjálfun" var vottuð sem námskrá í framhaldsfræðslu af Menntamálastofnun í maí 2018. Námsskráin var unnin í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Austurbrú.

Lífsstílsþjálfun fyrir einstaklinga

Aðilar sem bjóða lífsstílsþjálfun byggða á námskrá geta lagað hana að sínum áherslusviðum en mikilvægt er að fara í gegnum alla þá þætti og markmið sem koma fram í námskránni. Einstaklingar geta einnig nýtt sér námsefni upp á eigin spýtur og geta óskað eftir aðgengi að námsefni. Mælt er með því að taka þátt í hópþjálfun undir stjórn þjálfaðs leiðbeinanda til að ná sem bestum árangri.

Þjálfun fyrir leiðbeinendur

Æskilegt er að aðilar sem vilja bjóða hópþjálfun byggða á "Líf og heilsa, lífsstílsþjálfun" námskránni hafi lokið leiðbeinendaþjálfun frá SÍBS og Austurbrú. Í kjölfar leiðbeinendaþjálfunar fá þátttakendur aðgang að námsefni og kennsluleiðbeiningum á Google Classroom.

Kennsluefni

Lífsstílsþjálfunin er hópþjálfun sem byggir á vikri þátttöku samhliða fræðslu. Lífsstílsþjálfun nær yfir 12 mánuði, grunnþjálfunin er 16 skipti í hópþjálfun og erftirfylgni er 10 skipti, einnig má skipuleggja fjarþjálfun og eftirfylgniviðtöl. Gert er ráð fyrir vikulegri þjálfun til að byrja með og á 2ja-4ja vikna fresti í kjölfarið.

Gert er ráð fyrir að hver tími í hópþjálfun sé 1 klukkustund. Mælt er með að þátttakendur fylgist með og skrái framfarir sínar og að boðið sé upp á almenna heilsufarsmælingu í upphafi, um miðbik og í lok námskeiðs þar sem blóðþrýstingur er mældur sem og blóðfita, blóðsykur og súrefnismettun. Hægt er að óska eftir mælitækjum/mælendum frá SÍBS.

Um verkefnið

SÍBS Líf og heilsa lífsstílsþjálfun er styrkt af Lýðheilsusjóði Embættis landlæknis og Erasmus+ Menntaáætlun Evrópusambandsins. Samstarfsaðilar eru: SidekickHealth, Heilsuborg, Ferðafélag Íslands, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Austurbrú. SidekickHealth hefur þróað leikjavæddan hugbúnað fyrir snjallsíma sem styður og heldur utan um þjálfunina.

Í maí 2017 lauk fyrsti hópur leiðbeinenda þjálfun frá Skinny Gene Project í Bandaríkjunum, sem er vottaður þjálfunaraðili frá CDC. Í þeim hópi voru þjálfarar frá Heilsuborg, SidekickHealth, SÍBS, Ferðafélagi Íslands, Virk og gönguhópnum Vesen og vergangi. Haldin hafa verið tvö námskeið fyrir leiðbeinendur, á Austurlandi og í Reykjavík. Austurbrú og SÍBS vinna að gerð rafræns námskeiðs fyrir leiðbeinendur sem verður gert aðgengilegt í ársbyrjun 2020.

Fyrstu námskeiðin sem byggðu á SÍBS Líf og heilsa lífsstílsþjálfun voru á vegum Ferðarfélagsins, sem nýtti drög að námsefninu í verkefninu „Aftur af stað“ vorið 2017, og haustið 2017 fór Heilsuborg af stað í með námskeiðið "Heilsulausnir", Hringsjá, Austurbrú og Þekkingarnet Þingeyinga bjóða nú upp á lífsstílsþjálfun byggða á námskránni auk Hjarta- og lungnasamtakanna í Noregi (LHL).

Um SÍBS