SÍBS fyrir lífið sjálft

 

SÍBS á og rekur Reykjalund þar sem þúsundir Íslendinga njóta endurhæfingar ár hvert

Skoða nánar

Rekstrareiningar

SÍBS á og rekur endurhæfingarmiðstöðina Reykjalund og öryrkjavinnustaðinn Múlalund, SÍBS Verslun og Happdrætti SÍBS.  SÍBS tekur jafnframt þátt í Icelandic Health Symposium.   

 • Múlalundur

  Múlalundur er stærsta og elsta öryrkjavinnustofa landsins þar sem öryrkjar njóta endurhæfingar ásamt því að framleiða og selja mest allra af bréfabindum og lausblaðabókum. Starfsemin hófst árið 1959. Fyrirtækið er í eigu SÍBS og er rekið af því. 

  Í Múlalundi hefur fólk með skerta starfsorku átt þess kost að vinna létt störf við hagnýtan iðnað þar sem vinnutími getur verið sveigjanlegur. Nú vinna um 40 manns hjá fyrirtækinu en Múlalundur flutti upp að Reykjalundi árið 2010 og hófst vinna þar mánudaginn 3. maí. Múlalundur hefur sérhæft sig í framleiðslu á plast- og pappavörum fyrir skrifstofur ásamt fylgihlutum skrifstofunnar.

  Vefsíða: www.mulalundur.is

   

   

 • Reykjalundur

  Reykjalundur er stærsta endurhæfingarstofnun landsins. Árlega njóta þar á fjórða þúsund sjúklingar meðferðar, ýmist á sólarhringsdeild, dagdeild eða göngudeild. Þar fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að því að bæta lífsgæði, færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita. Meðferðin á Reykjalundi byggist á hugmyndafræði endurhæfingar þar sem teymisvinna sérhæfðs fagfólks er lögð til grundvallar. Markmiðið er að sjúklingar nái aftur eins góðri andlegri, félagslegri og líkamlegri færni og mögulegt er. Lögð er áhersla á að sníða meðferðina að þörfum sjúklinga og fer hún fram bæði í hópum og einstaklingsbundið.

  Vefsíða: www.reykjalundur.is

 • SÍBS Verslun

  SÍBS Verslun opnaði í desember 2015. Verslunin er rekin án hagnaðarsjónarmiða. Þar má finna fjölbreytt úrval af stoðvörum og heilsutengdum vörum.  Fyrir þá sem búa út á landi eða eiga erfitt með að koma til okkar þá má nýta sér vefverslunina okkar. 

  Heimilisfang Síðumúli 6 - SÍBS húsið 
  Veffang: www.verslun.sibs.is

 • Happdrætti SÍBS

   

  HAPPDRÆTTI SÍBS er hornsteinn framkvæmda á Reykjalundi og undirstaða þess að hægt er að sinna fölmörgum öryrkjum og veita þeim atvinnu við hæfi. Það var stofnað til að kosta uppbyggingu endurhæfingarmiðstöðvar á Reykjalundi og hefur alla tíð síðan staðið undir uppbyggingu að Reykjalundi, Múlalundi og víðar þar sem SÍBS hefur lagt hönd á plóg til að styðja sjúka til sjálfsbjargar. 

 • Önnur verkefni

  SÍBS kom að stofnun HL stöðvarinnar, sjálfseignastofnunar sem stofnuð var 1989. Markmið HL stöðvarinnar er að veita hjarta- og lungnasjúklingum endurhæfingu í beinu framhaldi af sjúkrahúsvist og/eða framhaldsendurhæfingu. 

  SÍBS er hluthafi í Icelandic Health Symposium sem stendur fyrir ráðstefnunni "Foodloose" um heilsu og næringu þann 25. maí 2016 í Hörpunni. Markmið IHS er að vinna að verkefnum tengdum bættri heilsu, forvörnum og lífsstílstengdum sjúkdómum.  

SÍBS er samband félaga

 

Hjartaheill er eitt af aðildarfélögum SÍBS en saman standa félögin fyrir árlegum heilsufarsmælingum fyrir almenning

Skoða nánar

Aðildarfélög

Aðildarfélög SÍBS er fimm talsins og hvert og eitt þeirra hefur ákveðið sérsvið.Tilgangur SÍBS er að sameina innan vébanda sinna fólk með berkla, hjartasjúkdóma, lungnasjúkdóma, astma- og ofnæmi og svefnháðar öndunartruflanir og vinna að bættri aðstöðu og þjónustu við þann hóp. 

 • Hjartaheill

   

  Hjartaheill eru landssamtök hjartasjúklinga og voru samtökin stofnuð 8.október árið 1983. Stofnfélagar voru 230, flestir hjartasjúklingar, vandamenn þeirra og velunnarar þeirra, en einnig voru þar læknar og hjúkrunarfólk. Árið 2004 var nafni samtakanna breytt í Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga. Starfsemi Hjartaheilla og markmið samtakanna snýst meðal annars um að sameina félagsmenn til baráttu fyrir hagsmunamálum hjartasjúklinga og gæta réttar þeirra á öllum sviðum, að vinna að úrbótum á sviði heilbrigðisþjónustu og bættri félagslegri aðstöðu hjartasjúklinga.

  Vefsíða: www.hjartaheill.is
   

 • Berklavörn

  Allt frá stofnun SÍBS hafa SÍBS deildir verið virkar í starfi samtakanna. Fyrst inni á berklahælunum og síðan í sjálfstæðum félögum sem störfuðu um land allt. Þeim hefur síðan fækkað mjög og nú hafa Reykjavíkurdeild og deildir á Suður- og Vesturlandi, aðrar en Reykjalundardeildin, sameinast undir nafninu Berklavörn.

  Aðrar SÍBS deildir eru Reykjalundardeild, Akureyrardeild og Austurlands-deild. Samstarf er með þessum deildum, enda teljast þær sameiginlega vera ein af fimm meginstoðum SÍBS.

 • Samtök lungnasjúklinga

  Samtök lungnasjúklinga voru stofnuð þann 20.maí 1997 af lungnasjúklingum og öðrum áhugamönnum um velferð lungnasjúklinga og forvarnir. Markmið frá stofnun samtakanna hefur verið að vinna að velferðar og hagsmunamálum lungnasjúklinga. Lungnasjúklingar hittast reglulega á mánudögum kl 16-18 í Síðumúla 6 fá sér kaffi og spjalla saman. Fræðslufundir eru haldnir reglulega á vegum samtakana um lungnasjúkdóma og málefni tengdum þeim og hafa þeir verið vel sóttir af félögum. Samtökin gefa út tvö fréttabréf á ári tengd lungnasjúkdómum og lungnapésa sem er bæklingur um lungnasjúkdóma og hvernig hægt er að lifa með þeim.

  Vefsíða: www.lungu.is

 • Astma- og ofnæmisfélag Íslands

  Astma – og ofnæmisfélag Íslands var stofnað 1974 til að berjast fyrir hagsmunum þeirra sem eru með astma og ofnæmi. Félagið leggur áherslu á á fræðslu og þjónustu við félagsmenn sína. Félagið heldur fræðslufundi, gefur út fréttablöð og bæklinga. Félagið talar máli sjúklinga með astma og ofnæmi við yfirvöld heilbrigðismála, kennslumála og aðra áhrifahópa í þjóðfélaginu. Félagið er deild í Samtökum íslenskra berkla – og brjóstholsskjúklinga (SÍBS) og aðili að norrænum samtökum sjúklinga með astma og ofnæmi. 

  Vefsíða: www.ao.is

   

 • Vífill

  Vífill er félag einstaklinga sem eru með kæfisvefn eða aðrar svefnháðar öndunartruflanir. Talið er að ca. 20.000 manns séu með kæfisvefn á Íslandi. Í dag er búið að greina yfir 5000 einstaklinga og eru nú u.þ.b. 2000 einstaklingar sem sofa daglega með grímu og loftdælu til hjálpar á öndun í svefni. Vífill er að reyna að ná til þessa stóra sjúklingahóps sem er með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir. Það er félaginu kappsmál að skapa félagsmönnum sínum vettvang til að hittast, skiptast á skoðunum, fræðast og fjalla sameiginlega um þennan sjúkdóm og skyld efni. Auk þessa sinnir félagið fræðslu út fyrir félagið. Með þessu er félagið að reyna að bæta lífsgæði félagsmanna sinna og annarra landsmanna sem eins er ástatt um.

   

 • Sjálfsvörn

  Sjálfsvörn, Reykjalundardeild SÍBS, var stofnuð 13.febrúar 1945 af 19 af þáverandi vistmönnum á Reykjalundi.  Deildin hefur verið starfandi síðan en áherslur hafa eðlilega breyst í tímans rás. Nú er deildin opin öllum þeim sem vilja starfa að markmiðum hennar, þ.e. „ að vinna að stefnumálum í samræmi við lög SÍBS og stuðla að góðum aðbúnaði þeirra sem njóta endurhæfingarmeðferðar á Reykjalundi. Einnig að eiga samstarf við aðrar deildir og félög um markmið SÍBS“.

 

SÍBS stofnað 1938 

 

Tilg að hjálpa útskrifuðum berklasjúklingum að ná fótfestu í lífinu en nýtt hlutverk SÍBS snýr að bættri lýðheilsu

Skoða nánar

Saga SÍBS

Haustið 1938, hinn 24. október, voru 26 berklasjúklingar samankomnir á Vífilsstaðahæli til að stofna Samband íslenskra berklasjúklinga. Tilgangurinn var að reyna að hjálpa útskrifuðum berklasjúklingum að ná fótfestu í lífinu, eftir ára eða áratuga dvöl á heilsuhælum.

 • Saga SÍBS

  Stofnendur SÍBS hófust strax handa um stofnun deilda um allt land, undir nafninu Berklavörn. Fjársöfnun var undirbúin og 6. október 1939 voru seld merki SÍBS og blaðið Berklavörn og dagurinn nefndur "Berklavarnardagur". Það var gengið í nánast hvert hús á landinu og viðtökur voru slíkar að unnt var að byggja Reykjalund og hefja starf sem löngu er landsþekkt. SÍBS hefur frá þeim tíma ,,átt" fyrsta sunnudag í október og sá dagur m.a. verið nýttur til fjáröflunar.

   

  Framkvæmdir

  Árið 1940 var farið að ræða um stofnun vinnuhælis og það ár skrifaði Oddur Ólafsson, læknir grein um málið í blaðið Berklavörn. Þessi umræða leiddi til kaupa á landi af Reykjabændum í Mosfellssveit. Á því landi var jarðhiti og braggar eftir herinn, sem síðan voru notaðir fyrir eldhús, borðstofu og verkstæði. Bygging 10 smáhýsa hófst 1944 og voru 5 þeirra tilbúin 1. febrúar 1945 og þá tók vinnuheimilið til starfa undir nafninu Reykjalundur.
   

  Fjársafnanir og fræðsla 

  Þessi ár og næstu var safnað fé með merkjasölu, bílahappdrætti og jafnvel sirkus frá Danmörku. Áfram var byggt og aðalbygging Reykjalundar tekin í notkun 1. febrúar 1950. Þá fjölgaði vistmönnum úr 40 í 90. Á þessum árum var einnig rætt um tómstundir og beina menntun sjúklinga. Út úr þessari umræðu komst á iðnskóli á Reykjalundi, sem starfaði frá 1949-1965.
   

  Aðrir sjúklingahópar og fjölgun aðildarfélaga 

  Með tilkomu berklalyfjanna 1947-1952 fór berklasjúklingum fækkandi. Þá var farið að taka við öðrum sjúklingum til endurhæfingar og 1963 var tekin í notkun sjúkraþjálfunardeild í kjallara aðalbyggingar Reykjalundar. Uppbyggingastarfið hélt svo stöðugt áfram með styrk happdrættisins og 1970 voru vistmenn orðnir 144.

  Með fækkun berklasjúklinga var talið rétt að fá til liðs við SÍBS aðra brjóstholssjúklinga. Astma- og ofnæmisfélagið kom til samstarfs árið 1974 og þá var jafnframt nafni félagsins breytt í Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga. Landssamtök hjartasjúklinga (nú Hjartaheill) komu í samtökin árið 1992, þá félag fólks með svefnháðar öndunartruflanir, Vífilsstaðadeild SÍBS sem nú heitir Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir árið 1994 og þar næst Samtök lungnasjúklinga árið 1998.
   

  Hagsmunagæsla 

  Tilgangur SÍBS er sá m.a. að sameina innan vébanda sinna fólk með berkla, hjartasjúkdóma, lungnasjúkdóma, astma- og ofnæmi og svefnháðar öndunartruflanir og vinna að því að heilbrigðisþjónusta og félagsleg aðstaða þessa fólks sé sem fullkomnust.

  Mikilvægt er að aðildarfélög SÍBS hafi hag af aðild sinni að samtökunum. SÍBS hefur því lagt áherslu á gott samstarf og stuðning við aðildarfélög sín í þeirri viðleitni að bæta hag hins almenna félagsmanns.
  Stjórn SÍBS telur nauðsynlegt að halda uppi sem mestu og bestu sambandi og samstarfi við aðildarfélög sín og stefnir að því að auka það.
   

  Sambandsþing og skipulag SÍBS 

  Sambandsþing eru haldin annaðhvert ár í september eða október. Á þingunum eru lagðir fram reikningar og skýrslur sambandsstjórnar um störf sambandsins og fyrirtækja þess á milli þinga. Þá fer fram kosning sambandsstjórnar og skoðunarmanna reikninga og kosning fastanefnda. Ákveðinn er skattur félagsdeilda til sambandsins fyrir næstu tvö starfsár og afgreiðsla annarra mála sem fyrir þingið koma.

  Æðsta vald í málefnum SÍBS er í höndum sambandsþings. Stjórn SÍBS er kosin á sambandsþingi og fer með æðsta vald í málefnum sambandsins milli sambandsþinga. 

  Starfsemi SÍBS skiptist í þrjú rekstrarsvið, en þau eru: Félagsmála- og fjáröflunarsvið, Endurhæfingarsvið og Eignaumsýslusvið. Framkvæmdastjórar rekstrarsviða mynda framkvæmdaráð sambandsins. Verkefnastjórnun er þverfagleg eining í skipulagi SÍBS og gengur þvert á rekstrareiningarnar þrjár. Verkefnastjórnun heyrir undir stjórn SÍBS, sem tekur ákvarðanir um einstök verkefni, ef þau krefjast sérstakra fjárútláta eða fjárhagsáhættu. Aðrar stjórnir, ráð og nefndir eru:
   

  Sambandsstjórn fer með æðsta vald í málefnum sambandsins milli sambandsþinga. Hana skipa 7 aðalmenn og 2 til vara. Stjórn SÍBS er kosin á sambandsþingi. Stjórnin fylgir eftir stefnumótun sambandsþinga. Hún setur reglur um gerð þróunar- og rekstraráætlana einstakra sviða, fjallar um þær og samþykkir, og hefur síðan eftirlit með því að áætlunum sé framfylgt.

  Framkvæmdaráð skal yfirfara og samræma vinnubrögð rekstrarsviða varðandi gerð þróunar- og rekstraráætlana og undirbúa mál fyirr stjórn SÍBS

  Félagsráð er samvinnuvettvangur aðildarfélaga SÍBS og vinnur að hagsmunagæslu þeirra. Ráðið sér um afgreiðslu mála er varða aðildarfélögin og félagsmenn þeirra, en getur skotið málum til stjórnar SÍBS til úrlausnar.

  Formannafundur aðildarfélaga og sambandsstjórnar skal haldinn að hausti árið milli reglulegra sambandsþinga. Formannafundur er ráðgefandi fyrir sambandsstjórn í mikilvægum málefnum.

  Milli sambandsþinga starfa tvær fastanefndir: laganefnd og uppstillingarnefnd.
   

  SÍBS blaðið

  SÍBS blaðið er gefið út og er myndarlegt tímarit sem dreift er til allra félagsmanna SÍBS, á sjúkrahús, þjálfunarstaði og aðrar sjúkrastofnanir. Blaðið er bæði vandað og hagnýtt m.a. vegna þess að í hverju blaði eru oft tekin fyrir ákveðin þemu sem sérstaklega er fjallað um. Sem dæmi um málefni sem fjallað hefur verið um í blöðunum eru málefni hjartveikra barna, kæfisvefn, lungnasjúkdómar, lungnaendurhæfing, öldrunarsjúkdómar og þjónusta við aldraða. Þá er reglulega fjallað um starfsemina á Reykjalundi og einstökum þáttum gerð skil í blaðinu.
   

  Endurhæfingarsvið Reykjalundar

  Starfsemin á Reykjalundi hefur þróast í ýmis endurhæfingarsvið sem í dag eru: svið fyrir gigtsjúka, fyrir geðsjúka, fyrir þá sem hafa orðið fyrir áfalli í miðtaugakerfi, fyrir fólk sem á við langvinn verkjavandamál að stríða, fólk sem glímir við ofþyngd, börn og ungmenni sem ekki hafa náð eðlilegum þroska, auk sérstakra endurhæfingarsviða fyrir annars vegar hjartasjúklinga og hins vegar lungnasjúklinga. Þá er starfandi sérstakt svið atvinnuendurhæfingar sem stofnað var til nýlega. Á hverju sviði er starfsmannateymi og hafa þau í áranna rás náð að þróa með ágætum aðferðir og tækni í endurhæfingu innan hvers sviðs.
  Starfsfólk Reykjalundar hefur leitast við að fylgjast vel með breyttum lifnaðarháttum landsmanna og svara breyttum þörfum sem skapast hafa, m.a. með svokölluðum "lífsstílssjúkdómum". Þetta hlýtur að teljast afar mikilvægt á tímum örra breytinga sem m.a. koma til vegna hreyfingarleysis og breytts mataræðis.
   

  Fjársöfnun og ákvarðanir um nýbyggingar á Reykjalundi

  Félagar SÍBS eru nú um 6200. Þá hefur Reykjalundur þjónað öllum þeim sem leita eftir endurhæfingu þó að ekki sé um aðild þeirra að samtökunum að ræða. Þörfin fyrir endurhæfingu er því miður mikil og biðlistar langir. Upp úr 1990 fór að verða ljóst að húsnæðisleg aðstaða þjálfunardeilda hamlaði framgangi endurhæfingar á Reykjalundi og var reynt að mæta því með ýmiskonar hagræðingu húsnæðis. Ljóst var að slík bjargráð dyggðu skammt. Því var tekin sú sameiginlega ákvörðun stjórna SÍBS og Reykjalundar að koma upp rúmgóðu sérhæfðu þjálfunarhúsi.

  Það var 1. október 1999 sem forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tók fyrstu skóflustunguna að byggingunni. Húsið er 2700 fermetra þjálfunarhús með tveim laugum, sundlaug og þjálfunarlaug, stór þjálfunarsalur og margvísleg önnur aðstaða. SÍBS hóf söfnun fjár árið 1998 meðal landsmanna til byggingar þessa húss. Þjóðin brást vel við og miklir fjármunir söfnuðust, sem með vöxtum voru orðnir að kr. 56 milljónum þegar þeirra varð þörf við byggingu þessa glæsilega þjálfunarhúss sem var vígt í janúar 2002.

  Stöðugt á sér stað uppbygging m.a. á Reykjalundi, sem SÍBS er falið að fjármagna. Með kaupum á miða í Happdrætti SÍBS, er hægt að aðstoða SÍBS við að ná fram markmiðum sínum og renna þannig enn frekari stoðum undir þá mikilvægu starfsemi sem unnið er að á vegum SÍBS og Reykjalundar.
   

  Styðjum sjúka til sjálfsbjargar

  Ennþá eru í fullu gildi orð Sigurbjörns Einarssonar, síðar biskups, árið 1946. "Hlutverk Reykjalundar er eitt hið göfugasta, sem með höndum er haft í landi hér." Lauslega talið hafa 30 - 40 þúsund landsmanna notið endurhæfingar á Reykjalundi og áfram verður haldið við að vinna undir kjörorðum SÍBS: "styðjum sjúka til sjálfsbjargar" á Reykjalundi og í öðrum rekstrareiningum SÍBS.

SÍBS Verslun í þína þágu!

 

SÍBS Verslun er rekin án hagnaðarsjónarmiða og býður upp á stoðvörur og heilsutengdar vörur

Skoða nánar

Lög og stjórnskipulag 2014 - 2016

 • Lög SÍBS

  Lög SÍBS samþykkt á 40. sambandsþingi SÍBS 5. nóvember 2016

  1. gr. Nafn og heimili

  1.1        Nafn sambandsins er: Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, skammstafað SÍBS. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

  1.2       SÍBS er aðili að Öryrkjabandalagi Íslands.

  1.3       SÍBS er aðili að Nordiska Hjärt- og Lungsjukas Förbund (NHL).
   

  2. gr. Tilgangur

  2.1        Að sameina innan vébanda SÍBS hagsmunafélög einstaklinga með berkla, hjarta- og lungnasjúkdóma, astma og ofnæmi og sjúklinga með svefnháðar öndunartruflanir.

  2.2       Að vinna að því að heilbrigðisþjónusta og félagsleg aðstaða þessara sjúklingahópa verði jafnan sem fullkomnust.

  2.3       Að stuðla að fræðslu um áðurnefnda sjúkdóma og rannsóknum á þeim, sem og að beita sér fyrir forvörnum.

  2.4       Að hafa samstarf við hliðstæð félög, innlend og erlend, um markmið SÍBS.

  2.5       Að reka endurhæfingarstöðvar og verndaða vinnustaði með þjónustusamningi við opinbera aðila eða aðra.
   

  3. gr. Sambandsfélög 

  3.1        SÍBS er skipað félögum einstaklinga sbr. gr. 2.1. Í lögum þessum eru orðin aðildarfélag og félag notuð bæði um félagsdeildir SÍBS og einstök aðildarfélög.

  3.2       Umsókn um aðild að SÍBS skal berast stjórn sambandsins eigi síðar en sex mánuðum fyrir reglulegt sambandsþing og skal stjórnin senda umsókn til umsagnar hjá aðildarfélögum SÍBS.

  3.3       Sambandsþing fjallar um aðildarumsókn og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á þinginu til að aðild skoðist samþykkt.

  3.4       Öll aðildarfélög eru sjálfstæðar einingar innan vébanda SÍBS og njóta réttinda og bera skyldur samkvæmt lögum þess. Hinar eldri berkladeildir koma þó fram sem ein heild (eitt aðildarfélag) við tilnefningu fulltrúa í sambandsstjórn samkvæmt 10. gr. og í félagsráð samkvæmt 13. gr., en halda að öðru leyti óbreyttum réttindum sínum.
   

  4. gr. Félagar

  4.1       Aðildarfélög sambandsins skulu halda félagatal þar sem fram komi allar upplýsingar sem kveðið er á um í lögum sambandsins.

  4.2       Gagnvart SÍBS getur maður einungis verið fullgildur félagi í einu félagi. Sé sami einstaklingur félagi í tveimur eða fleiri félögum, ber að færa í félagatal SÍBS, sbr. gr. 4.4, hvar hann óski að vera fullgildur félagi.

  4.3       Réttindaflutningur milli félaga tekur gildi um næstu áramót eftir að flutnings er óskað, enda hafi viðkomandi tilkynnt ákvörðun sína skriflega báðum félögum og sé skuldlaus við hið fyrra.

  4.4      Aðalskrifstofa SÍBS heldur heildarskrá yfir félaga innan sambandsins. Aðildarfélög skulu senda skrifstofunni uppfært félagatal um hver áramót.
   

  5. gr. Árgjöld 

  5.1        Ákveða skal á hverju sambandsþingi hve hátt gjald aðildarfélög skuli greiða árlega af hverjum skuldlausum félaga næstu tvö ár. Einungis skal greiða gjald af fullgildum félögum, þar með töldum ævifélögum. Eindagi er 31. ágúst ár hvert.

  5.2       Nýstofnuð aðildarfélög eru undanþegin gjaldi á stofnári.

  5.3       Aðildarfélög ákveða árgjöld og ævifélagsgjöld félagsmanna sinna.
   

  6. gr. Skýrslur aðildarfélaga

  6.1       Aðildarfélög skulu, fyrir 15. september ár hvert, skila skýrslum til stjórnar SÍBS um starf og fjárhag síðastliðins árs og einnig félagaskrá, sem miðuð sé við áramót. Sambandið heldur heildarspjaldskrá fyrir félögin.

  6.2       Aðildarfélag á því aðeins rétt til að hafa fulltrúa á sambandsþingi eða formannafundi sambandsstjórnar að það sé skuldlaust og fyrrgreindum skilyrðum sé fullnægt.
   

  7. gr. Heildarskipulag SÍBS

  7.1       Æðsta vald í málefnum SÍBS er í höndum sambandsþings, sbr. 8. gr.

  7.2       Stjórn SÍBS, kosin á sambandsþingi sbr. 10.gr., fer með æðsta vald í málefnum sambandsins milli sambandsþinga. Stjórnin fylgir eftir stefnumótun sambandsþinga. Hún setur reglur um gerð þróunar- og rekstraráætlana, fjallar um þær og samþykkir og hefur síðan eftirlit með því að áætlunum sé framfylgt.

  7.3       Tillögur um innra skipulag og skipurit rekstrareininga SÍBS skal leggja fyrir stjórn   sambandsins til staðfestingar áður en þær koma til framkvæmda.

  7.4       Með sama hætti setur stjórnin sambandinu skipurit.
   

  8. gr. Sambandsþing 

  8.1       Sambandsþing fer með æðsta vald í málefnum SÍBS og skal það haldið í september eða október annað hvert ár. Heimilt er sambandsstjórn að kalla saman aukaþing. Til breytinga á lögum skv. 17. gr. og til félagsslita skv. 18. gr. þarf minnst helmingur leyfðra þingfulltrúa að vera viðstaddur atkvæðagreiðslu.

  8.2       Sambandsstjórn skal tilkynna aðildarfélögum um reglulegt sambandsþing með tveggja mánaða fyrirvara og auglýsa það í fjölmiðlum með minnst mánaðar fyrirvara. Aukaþing skal boða með mánaðar fyrirvara.

  8.3       Þingin eru skipuð fulltrúum aðildarfélaga, sem kosnir eru samkvæmt reglum hvers aðildarfélags. Umboð þeirra tekur til aukaþinga ef haldin eru.

  8.4       Hvert aðildarfélag á rétt til að kjósa einn þingfulltrúa fyrir hverja 40 félaga upp að 400, einn þingfulltrúa fyrir hverja 100 umfram það upp að 800, en síðan einn fulltrúa fyrir hverja 150 félaga. Fyrir brot úr þrepi kemur einn fulltrúi. Aldrei skal þó eitt aðildarfélag hafa meira en þriðjung þingfulltrúa.

  8.5       Löglegir eru þeir félagar einir, sem eru skuldlausir við félag sitt.

  8.6       Skila skal kjörbréfum undirrituðum af formanni og ritara aðildarfélags eigi síðar en við upphaf þings.

  8.7       Sambandið greiðir ferðakostnað þingfulltrúa samkvæmt nánari ákvörðun sambandsstjórnar.

  8.8       Stjórnarmenn í sambandsstjórn, nefndarmenn í fastanefndum og fulltrúar í félagsráði, sem ekki eru kjörnir fulltrúar, hafa fullt málfrelsi og tillögurétt á sambandsþingi.
   

  9. gr. Verkefni þinga 

  9.1        Í upphafi skal þing kjósa þingforseta og þingritara

  9.2       Lagðar skulu fram skýrslur sambandsstjórnar, einstakra rekstrareininga og fastanefnda um störf sambandsins milli þinga.

  9.3       Lagðir skulu fram til staðfestingar reikningar sambandsins fyrir liðin starfsár á milli þinga. Reikningsárið er almanaksárið.

  9.4       Lagabreytingar.

  9.5       Kosning sambandsstjórnar.

  9.6       Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara. Nær kosning þeirra til allra fyrirtækja og stofnana SÍBS.

  9.7       Kosning fastanefnda.

  9.8       Ákveða skal árgjald aðildarfélaga til sambandsins.

  9.9       Afgreiðsla annarra mála sem fyrir þingið koma.

  9.10     Fundargerð skal send aðildarfélögum eigi síðar en einum mánuði eftir þing. Athugasemdir skulu sendar stjórn innan mánaðar þar eftir.
   

  10. gr. Sambandsstjórn 

  10.1     Stjórn SÍBS fer með æðsta vald í málefnum sambandsins milli sambandsþinga.

  10.2     Stjórn SÍBS skal kosin á sambandsþingi til tveggja ára í senn og skal hún skipuð 7 aðalmönnum og 3 til vara.

  10.3     Formaður og varaformaður SÍBS skulu kosnir sérstaklega á sambandsþingi.

  10.4     Hvert aðildarfélag, sbr. gr. 3.4, tilnefnir einn fulltrúa í sambandsstjórn. Við upphaf stjórnarkjörs á sambandsþingi skal liggja fyrir skrifleg tilnefning frá hverju aðildarfélagi um aðalfulltrúa í stjórn. Sambandsþing staðfestir umboð þessara fulltrúa.

  10.5     Sambandsþing kýs 3 varamenn í stjórn.

  10.6     Að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum á fyrsta fundi sínum eftir sambandsþing. Á þeim fundi skal einnig ákveðið með hlutkesti í hvaða röð varamenn verði til kallaðir, ef þörf krefur.

  10.7    Kjörgengir til setu í stjórn skv. 10.3, 10.4 og 10.5 eru allir félagsmenn í aðildarfélögum, sem ekki eru fastir starfsmenn þeirra, SÍBS eða fyrirtækja í eigu þess. 

  10.8    Ekki má kjósa eða tilnefna sama einstakling í stjórn oftar en 4 sinnum samfellt, hvort heldur sem aðalmann eða varamann.
   

  11. gr. Fundir sambandsstjórnar 

  11.1      Formaður SÍBS kallar saman stjórn að jafnaði einu sinni í mánuði eða oftar eftir því sem efni standa til. Formanni er skylt að boða stjórnarfund ef þrír stjórnarmanna eða fleiri óska þess.

  11.2     Fundur er lögmætur ef meirihluti sambandsstjórnar er mættur, enda hafi öllum stjórnarmönnum verið boðaður fundurinn með hæfilegum fyrirvara. Varamönnum skal heimil fundarseta þótt sambandsstjórn sé fullskipuð. Ætíð skal kynna varamönnum fundarefni stjórnarfunda með sama hætti og aðalmönnum.

  11.3     Gerðabók skal halda yfir fundi sambandsstjórnar. Formaður stjórnar SÍBS staðfestir fundargerðina eftir að hún er samþykkt.

  11.4     Formaður félagsráðs á rétt til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétti.
   

  12. gr. Félagsráð 

  12.1     Félagsráð, er samvinnuvettvangur aðildarfélaga SÍBS og vinnur að hagsmunagæslu þeirra. Ráðið sér um afgreiðslu mála er varða aðildarfélögin og félagsmenn þeirra, en getur skotið málum til stjórnar SÍBS til úrlausnar og kallað eftir upplýsingum um rekstrartengd málefni beint frá stjórn.

  12.2     Ályktanir félagsráðs um stefnumarkandi mál skulu lagðar fyrir stjórn SÍBS til afgreiðslu. Starfsáætlun félagsmála- og fjáröflunarsviðs skal lögð fyrir félagsráð til umsagnar áður en hún er lögð fyrir stjórn SÍBS. Félagsráð skal halda samráðsfund a.m.k. einu sinni á ári með formönnum og framkvæmdastjórum aðildarfélaganna.
   

  13. gr. Skipun félagsráðs 

  13.1     Sambandsstjórn skipar til tveggja ára í senn 5 aðalmenn í félagsráð samkvæmt tilnefningu aðildarfélaga, sbr. gr. 3.4, og að auki 3 til vara. Stjórnin setur félagsráði erindisbréf.

  13.2     Félagsráð kýs sér formann og skiptir að öðru leyti með sér verkum á fyrsta fundi sínum eftir sambandsþing. Á þeim fundi skal einnig ákveðið með hlutkesti í hvaða röð varamenn verði til kallaðir, ef þörf krefur.

  13.3     Félagsráð skal að jafnaði halda fundi mánaðarlega og skulu fundargerðir sendar stjórn SÍBS eftir hvern fund.
   

  14. gr. Fastanefndir 

  14.1      Milli sambandsþinga starfa tvær fastanefndir: laganefnd og uppstillinganefnd.

  14.2     Sambandsþing kýs fimm menn í hvora fastanefnd. Nefndirnar skipta sjálfar með sér verkum.

  14.3     Stjórn sambandsins setur fastanefndum starfsreglur.

  14.4     Hætti nefndarmaður í fastanefnd eða verði ófær um að gegna störfum sínum skipar sambandsstjórn mann í hans stað.

  14.5     Ályktanir fastanefnda skulu sendar til stjórnar sambandsins.
   

  15. gr. Formannafundir

  15.1      Formannafundur aðildarfélaga og sambandsstjórnar skal haldinn að hausti árið á milli reglulegra sambandsþinga.

  15.2     Formannafundur er ráðgefandi fyrir sambandsstjórnina í mikilvægum málefnum.

  15.3     Stjórn SÍBS og félagsráð eiga rétt til setu á formannafundi og hvert aðildarfélag skal senda formann sinn eða annan fulltrúa, ef hann er forfallaður. Það teljast forföll, ef formaður félags situr í stjórn SÍBS eða í félagsráði. Allir framangreindir skulu hafa fullkomin fundarréttindi á formannafundi. Fulltrúar sem koma í stað formanna skulu framvísa kjörbréfum eins og á sambandsþingum. Kalla skal til fundarins fulltrúa starfandi nefnda og stjórna á vegum sambandsins svo og aðra sem ástæða þykir til, og hafa þeir fullt málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt.

  15.4     Formannafundur skal boðaður með minnst tveggja vikna fyrirvara og dagskrá send aðildarfélögum. Formaður SÍBS stjórnar formannafundi og skipar fundarritara.
   

  16. gr. Útgáfumál 

  16.1      Sambandsstjórn skal hlutast til um útgáfu kynningar- og fræðsluefnis.
   

  17. gr. Lagabreytingar 

  17.1      Lögum þessum má breyta á sambandsþingi með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða.

  17.2     Tillögur til lagabreytinga skulu berast sambandsstjórn sex vikum fyrir sambandsþing. Hún sendir þær aðildarfélögunum til kynningar minnst fjórum vikum fyrir þingið. Hafi aðildarfélag sérstakar athugasemdir við tillögurnar, skal stjórn þess senda þær skriflega til skrifstofu SÍBS eigi síðar en einni viku fyrir sambandsþing.
   

  18. gr. Félagsslit 

  18.1     Komi fram vilji meirihluta aðildarfélaga eða sambandsstjórnar, að sambandið skuli lagt niður, skal málið tekið fyrir á næsta reglulega sambandsþingi. Hljóti tillaga um sambandsslit þá tilskilinn meirihluta atkvæða skal boðað til sérstaks aukaþings innan 3 mánaða, þar sem tillagan verið tekin til endanlegrar afgreiðslu.

  18.2     Félagsslit skulu samþykkt með minnst 2/3 greiddra atkvæða á tveim sambandsþingum, sbr. gr. 18.1 í lögum þessum.

  18.3     Komi til slita sambandsins skv. 18.1 og 18.2, skal eignum þess og fjármunum ráðstafað í samræmi við tilgang SÍBS eins og hann er fram settur í gr. 2.2 og 2.3 í lögum þessum.

   

 • Stjórnskipan SÍBS

  Stjórn og embættismenn kjörnir á 40. sambandsþingi SÍBS 5. nóvember 2016
   

  Stjórn 

  Sveinn Guðmundsson, formaður

  Sólveig Hildur Björnsdóttir, varaformaður

  Selma Árnadóttir, meðstjórnandi

  Tryggvi Jónsson, meðstjórnandi

  Valur Stefánsson, meðstjórnandi

  Guðný Linda Óladóttir, meðstjórnandi

  Sveinn Aðalsteinsson, meðstjórnandi

  Fríða Rún Þórðardóttir, varamaður

  Ólöf Sigurjónsdóttir, varamaður

  Valgerður Hermannsdóttir, varamaður
   

  Laganefnd 

  Björn Ólafur Hallgrímsson 

  Kirsten Eiríksdóttir

  Marta Guðjónsdóttir

  Pétur Bjarnason 

  Sigurjón Einarsson
   

  Uppstillingarnefnd 

  Guðbjörg Pétursdóttir

  Kirsten Eiríksdóttir

  Kristján Smith

  Sigurður R. Sigurjónsson 

  Dagný Erna Lárusdóttir

   

  Skoðunarmenn 

  Páll Haraldsson 

  Sigurður R. Sigurjónsson 

  Dagný Erna Lárusdóttir, varamaður

  Sólrún Óskarsdóttir, varamaður 

  Framkvæmdastjóri er Guðmundur Löve 

Fylgstu með á Facebook

 

Þarf birtast daglegar fréttir um námskeið, gönguferðir og áhugavert efni tengt lýðheilsu 

Skoða nánar

Starfsfólk

Guðmundur Löve framkvæmdastjóri This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. 560 4819
Kristín Þóra Sverrisdóttir skrifstofustjóri This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. 560 4808
Linda Björg Þorgilsdóttir fulltrúi  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. 560 4809
Jónína Jóhannsdóttir fulltrúi  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. 560 4801
Kristín Rut Jónsdóttir  fulltrúi  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. 560 4810
Úlfhildur E. Þ. Bjarnasen  verslunarstjóri  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. 560 4806
Stefanía G. Kristinsdóttir kynningar- og fræðslufulltrúi This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. 560 4805
Sigríður Hallgrímsdóttir verslunarkona This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. 560 4802

SÍBS Verslun - Shop

 

Visit SÍBS Verslun at Síðumúli 6 for support and health related products 

Skoða nánar

About SÍBS

SÍBS is a non-profit organisation with the aim of improving the health and well-being of Icelanders through rehabilitation, prevention, positive intervention, education and awareness about the importance of a healthy lifestyle.

SÍBS owns and operates several businesses across rehabilitation, health and lifestyle:

Reykjalundur, Iceland’s largest rehabilitation clinic.

Múlalundur, one of Iceland’s major supported employment workplaces.

Courses and seminars for employment NGOs as well as the public on health and lifestyle.

Flagship store in Reykjavik with high-quality health and lifestyle products.

Publication and awareness trough a widely distributed magazine and digital media.

Icelandic Health Symposium, an annual international event for health professionals. 

Continual awareness and national policy work on health and prevention.

Peer-support groups and field work around the country.

Fundraising through a national lottery, charity and other means.