Lög og stjórnskipulag

Lög SÍBS

Lög SÍBS samþykkt á 40. sambandsþingi SÍBS 5. nóvember 2016

1. gr. Nafn og heimili

1.1        Nafn sambandsins er: Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, skammstafað SÍBS. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

1.2       SÍBS er aðili að Öryrkjabandalagi Íslands.

1.3       SÍBS er aðili að Nordiska Hjärt- og Lungsjukas Förbund (NHL).

2. gr. Tilgangur

2.1        Að sameina innan vébanda SÍBS hagsmunafélög einstaklinga með berkla, hjarta- og lungnasjúkdóma, astma og ofnæmi og sjúklinga með svefnháðar öndunartruflanir.

2.2       Að vinna að því að heilbrigðisþjónusta og félagsleg aðstaða þessara sjúklingahópa verði jafnan sem fullkomnust.

2.3       Að stuðla að fræðslu um áðurnefnda sjúkdóma og rannsóknum á þeim, sem og að beita sér fyrir forvörnum.

2.4       Að hafa samstarf við hliðstæð félög, innlend og erlend, um markmið SÍBS.

2.5       Að reka endurhæfingarstöðvar og verndaða vinnustaði með þjónustusamningi við opinbera aðila eða aðra.

3. gr. Sambandsfélög 

3.1        SÍBS er skipað félögum einstaklinga sbr. gr. 2.1. Í lögum þessum eru orðin aðildarfélag og félag notuð bæði um félagsdeildir SÍBS og einstök aðildarfélög.

3.2       Umsókn um aðild að SÍBS skal berast stjórn sambandsins eigi síðar en sex mánuðum fyrir reglulegt sambandsþing og skal stjórnin senda umsókn til umsagnar hjá aðildarfélögum SÍBS.

3.3       Sambandsþing fjallar um aðildarumsókn og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á þinginu til að aðild skoðist samþykkt.

3.4       Öll aðildarfélög eru sjálfstæðar einingar innan vébanda SÍBS og njóta réttinda og bera skyldur samkvæmt lögum þess. Hinar eldri berkladeildir koma þó fram sem ein heild (eitt aðildarfélag) við tilnefningu fulltrúa í sambandsstjórn samkvæmt 10. gr. og í félagsráð samkvæmt 13. gr., en halda að öðru leyti óbreyttum réttindum sínum.

4. gr. Félagar

4.1       Aðildarfélög sambandsins skulu halda félagatal þar sem fram komi allar upplýsingar sem kveðið er á um í lögum sambandsins.

4.2       Gagnvart SÍBS getur maður einungis verið fullgildur félagi í einu félagi. Sé sami einstaklingur félagi í tveimur eða fleiri félögum, ber að færa í félagatal SÍBS, sbr. gr. 4.4, hvar hann óski að vera fullgildur félagi.

4.3       Réttindaflutningur milli félaga tekur gildi um næstu áramót eftir að flutnings er óskað, enda hafi viðkomandi tilkynnt ákvörðun sína skriflega báðum félögum og sé skuldlaus við hið fyrra.

4.4      Aðalskrifstofa SÍBS heldur heildarskrá yfir félaga innan sambandsins. Aðildarfélög skulu senda skrifstofunni uppfært félagatal um hver áramót.

5. gr. Árgjöld 

5.1        Ákveða skal á hverju sambandsþingi hve hátt gjald aðildarfélög skuli greiða árlega af hverjum skuldlausum félaga næstu tvö ár. Einungis skal greiða gjald af fullgildum félögum, þar með töldum ævifélögum. Eindagi er 31. ágúst ár hvert.

5.2       Nýstofnuð aðildarfélög eru undanþegin gjaldi á stofnári.

5.3       Aðildarfélög ákveða árgjöld og ævifélagsgjöld félagsmanna sinna.

6. gr. Skýrslur aðildarfélaga

6.1       Aðildarfélög skulu, fyrir 15. september ár hvert, skila skýrslum til stjórnar SÍBS um starf og fjárhag síðastliðins árs og einnig félagaskrá, sem miðuð sé við áramót. Sambandið heldur heildarspjaldskrá fyrir félögin.

6.2       Aðildarfélag á því aðeins rétt til að hafa fulltrúa á sambandsþingi eða formannafundi sambandsstjórnar að það sé skuldlaust og fyrrgreindum skilyrðum sé fullnægt.

7. gr. Heildarskipulag SÍBS

7.1       Æðsta vald í málefnum SÍBS er í höndum sambandsþings, sbr. 8. gr.

7.2       Stjórn SÍBS, kosin á sambandsþingi sbr. 10.gr., fer með æðsta vald í málefnum sambandsins milli sambandsþinga. Stjórnin fylgir eftir stefnumótun sambandsþinga. Hún setur reglur um gerð þróunar- og rekstraráætlana, fjallar um þær og samþykkir og hefur síðan eftirlit með því að áætlunum sé framfylgt.

7.3       Tillögur um innra skipulag og skipurit rekstrareininga SÍBS skal leggja fyrir stjórn   sambandsins til staðfestingar áður en þær koma til framkvæmda.

7.4       Með sama hætti setur stjórnin sambandinu skipurit.

8. gr. Sambandsþing 

8.1       Sambandsþing fer með æðsta vald í málefnum SÍBS og skal það haldið í september eða október annað hvert ár. Heimilt er sambandsstjórn að kalla saman aukaþing. Til breytinga á lögum skv. 17. gr. og til félagsslita skv. 18. gr. þarf minnst helmingur leyfðra þingfulltrúa að vera viðstaddur atkvæðagreiðslu.

8.2       Sambandsstjórn skal tilkynna aðildarfélögum um reglulegt sambandsþing með tveggja mánaða fyrirvara og auglýsa það í fjölmiðlum með minnst mánaðar fyrirvara. Aukaþing skal boða með mánaðar fyrirvara.

8.3       Þingin eru skipuð fulltrúum aðildarfélaga, sem kosnir eru samkvæmt reglum hvers aðildarfélags. Umboð þeirra tekur til aukaþinga ef haldin eru.

8.4       Hvert aðildarfélag á rétt til að kjósa einn þingfulltrúa fyrir hverja 40 félaga upp að 400, einn þingfulltrúa fyrir hverja 100 umfram það upp að 800, en síðan einn fulltrúa fyrir hverja 150 félaga. Fyrir brot úr þrepi kemur einn fulltrúi. Aldrei skal þó eitt aðildarfélag hafa meira en þriðjung þingfulltrúa.

8.5       Löglegir eru þeir félagar einir, sem eru skuldlausir við félag sitt.

8.6       Skila skal kjörbréfum undirrituðum af formanni og ritara aðildarfélags eigi síðar en við upphaf þings.

8.7       Sambandið greiðir ferðakostnað þingfulltrúa samkvæmt nánari ákvörðun sambandsstjórnar.

8.8       Stjórnarmenn í sambandsstjórn, nefndarmenn í fastanefndum og fulltrúar í félagsráði, sem ekki eru kjörnir fulltrúar, hafa fullt málfrelsi og tillögurétt á sambandsþingi.

9. gr. Verkefni þinga 

9.1        Í upphafi skal þing kjósa þingforseta og þingritara

9.2       Lagðar skulu fram skýrslur sambandsstjórnar, einstakra rekstrareininga og fastanefnda um störf sambandsins milli þinga.

9.3       Lagðir skulu fram til staðfestingar reikningar sambandsins fyrir liðin starfsár á milli þinga. Reikningsárið er almanaksárið.

9.4       Lagabreytingar.

9.5       Kosning sambandsstjórnar.

9.6       Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara. Nær kosning þeirra til allra fyrirtækja og stofnana SÍBS.

9.7       Kosning fastanefnda.

9.8       Ákveða skal árgjald aðildarfélaga til sambandsins.

9.9       Afgreiðsla annarra mála sem fyrir þingið koma.

9.10     Fundargerð skal send aðildarfélögum eigi síðar en einum mánuði eftir þing. Athugasemdir skulu sendar stjórn innan mánaðar þar eftir.

10. gr. Sambandsstjórn 

10.1     Stjórn SÍBS fer með æðsta vald í málefnum sambandsins milli sambandsþinga.

10.2     Stjórn SÍBS skal kosin á sambandsþingi til tveggja ára í senn og skal hún skipuð 7 aðalmönnum og 3 til vara.

10.3     Formaður og varaformaður SÍBS skulu kosnir sérstaklega á sambandsþingi.

10.4     Hvert aðildarfélag, sbr. gr. 3.4, tilnefnir einn fulltrúa í sambandsstjórn. Við upphaf stjórnarkjörs á sambandsþingi skal liggja fyrir skrifleg tilnefning frá hverju aðildarfélagi um aðalfulltrúa í stjórn. Sambandsþing staðfestir umboð þessara fulltrúa.

10.5     Sambandsþing kýs 3 varamenn í stjórn.

10.6     Að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum á fyrsta fundi sínum eftir sambandsþing. Á þeim fundi skal einnig ákveðið með hlutkesti í hvaða röð varamenn verði til kallaðir, ef þörf krefur.

10.7    Kjörgengir til setu í stjórn skv. 10.3, 10.4 og 10.5 eru allir félagsmenn í aðildarfélögum, sem ekki eru fastir starfsmenn þeirra, SÍBS eða fyrirtækja í eigu þess. 

10.8    Ekki má kjósa eða tilnefna sama einstakling í stjórn oftar en 4 sinnum samfellt, hvort heldur sem aðalmann eða varamann.

11. gr. Fundir sambandsstjórnar 

11.1      Formaður SÍBS kallar saman stjórn að jafnaði einu sinni í mánuði eða oftar eftir því sem efni standa til. Formanni er skylt að boða stjórnarfund ef þrír stjórnarmanna eða fleiri óska þess.

11.2     Fundur er lögmætur ef meirihluti sambandsstjórnar er mættur, enda hafi öllum stjórnarmönnum verið boðaður fundurinn með hæfilegum fyrirvara. Varamönnum skal heimil fundarseta þótt sambandsstjórn sé fullskipuð. Ætíð skal kynna varamönnum fundarefni stjórnarfunda með sama hætti og aðalmönnum.

11.3     Gerðabók skal halda yfir fundi sambandsstjórnar. Formaður stjórnar SÍBS staðfestir fundargerðina eftir að hún er samþykkt.

11.4     Formaður félagsráðs á rétt til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétti.

12. gr. Félagsráð 

12.1     Félagsráð, er samvinnuvettvangur aðildarfélaga SÍBS og vinnur að hagsmunagæslu þeirra. Ráðið sér um afgreiðslu mála er varða aðildarfélögin og félagsmenn þeirra, en getur skotið málum til stjórnar SÍBS til úrlausnar og kallað eftir upplýsingum um rekstrartengd málefni beint frá stjórn.

12.2     Ályktanir félagsráðs um stefnumarkandi mál skulu lagðar fyrir stjórn SÍBS til afgreiðslu. Starfsáætlun félagsmála- og fjáröflunarsviðs skal lögð fyrir félagsráð til umsagnar áður en hún er lögð fyrir stjórn SÍBS. Félagsráð skal halda samráðsfund a.m.k. einu sinni á ári með formönnum og framkvæmdastjórum aðildarfélaganna.

13. gr. Skipun félagsráðs 

13.1     Sambandsstjórn skipar til tveggja ára í senn 5 aðalmenn í félagsráð samkvæmt tilnefningu aðildarfélaga, sbr. gr. 3.4, og að auki 3 til vara. Stjórnin setur félagsráði erindisbréf.

13.2     Félagsráð kýs sér formann og skiptir að öðru leyti með sér verkum á fyrsta fundi sínum eftir sambandsþing. Á þeim fundi skal einnig ákveðið með hlutkesti í hvaða röð varamenn verði til kallaðir, ef þörf krefur.

13.3     Félagsráð skal að jafnaði halda fundi mánaðarlega og skulu fundargerðir sendar stjórn SÍBS eftir hvern fund.

14. gr. Fastanefndir 

14.1      Milli sambandsþinga starfa tvær fastanefndir: laganefnd og uppstillinganefnd.

14.2     Sambandsþing kýs fimm menn í hvora fastanefnd. Nefndirnar skipta sjálfar með sér verkum.

14.3     Stjórn sambandsins setur fastanefndum starfsreglur.

14.4     Hætti nefndarmaður í fastanefnd eða verði ófær um að gegna störfum sínum skipar sambandsstjórn mann í hans stað.

14.5     Ályktanir fastanefnda skulu sendar til stjórnar sambandsins.

15. gr. Formannafundir

15.1      Formannafundur aðildarfélaga og sambandsstjórnar skal haldinn að hausti árið á milli reglulegra sambandsþinga.

15.2     Formannafundur er ráðgefandi fyrir sambandsstjórnina í mikilvægum málefnum.

15.3     Stjórn SÍBS og félagsráð eiga rétt til setu á formannafundi og hvert aðildarfélag skal senda formann sinn eða annan fulltrúa, ef hann er forfallaður. Það teljast forföll, ef formaður félags situr í stjórn SÍBS eða í félagsráði. Allir framangreindir skulu hafa fullkomin fundarréttindi á formannafundi. Fulltrúar sem koma í stað formanna skulu framvísa kjörbréfum eins og á sambandsþingum. Kalla skal til fundarins fulltrúa starfandi nefnda og stjórna á vegum sambandsins svo og aðra sem ástæða þykir til, og hafa þeir fullt málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt.

15.4     Formannafundur skal boðaður með minnst tveggja vikna fyrirvara og dagskrá send aðildarfélögum. Formaður SÍBS stjórnar formannafundi og skipar fundarritara.

16. gr. Útgáfumál 

16.1      Sambandsstjórn skal hlutast til um útgáfu kynningar- og fræðsluefnis.

17. gr. Lagabreytingar 

17.1      Lögum þessum má breyta á sambandsþingi með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða.

17.2     Tillögur til lagabreytinga skulu berast sambandsstjórn sex vikum fyrir sambandsþing. Hún sendir þær aðildarfélögunum til kynningar minnst fjórum vikum fyrir þingið. Hafi aðildarfélag sérstakar athugasemdir við tillögurnar, skal stjórn þess senda þær skriflega til skrifstofu SÍBS eigi síðar en einni viku fyrir sambandsþing.

18. gr. Félagsslit 

18.1     Komi fram vilji meirihluta aðildarfélaga eða sambandsstjórnar, að sambandið skuli lagt niður, skal málið tekið fyrir á næsta reglulega sambandsþingi. Hljóti tillaga um sambandsslit þá tilskilinn meirihluta atkvæða skal boðað til sérstaks aukaþings innan 3 mánaða, þar sem tillagan verið tekin til endanlegrar afgreiðslu.

18.2     Félagsslit skulu samþykkt með minnst 2/3 greiddra atkvæða á tveim sambandsþingum, sbr. gr. 18.1 í lögum þessum.

18.3     Komi til slita sambandsins skv. 18.1 og 18.2, skal eignum þess og fjármunum ráðstafað í samræmi við tilgang SÍBS eins og hann er fram settur í gr. 2.2 og 2.3 í lögum þessum.

Stjórnskipan SÍBS

Stjórn og embættismenn kjörnir á 40. sambandsþingi SÍBS 5. nóvember 2016

Stjórn 

 • Sveinn Guðmundsson, formaður
 • Sólveig Hildur Björnsdóttir, varaformaður
 • Selma Árnadóttir, meðstjórnandi
 • Tryggvi Jónsson, meðstjórnandi
 • Valur Stefánsson, meðstjórnandi
 • Sveinn Aðalsteinsson, meðstjórnandi
 • Fríða Rún Þórðardóttir, varamaður
 • Ólöf Sigurjónsdóttir, varamaður
 • Valgerður Hermannsdóttir, varamaður

Laganefnd 

 • Björn Ólafur Hallgrímsson 
 • Kirsten Eiríksdóttir
 • Marta Guðjónsdóttir
 • Pétur Bjarnason 
 • Sigurjón Einarsson

Uppstillingarnefnd 

 • Guðbjörg Pétursdóttir
 • Kirsten Eiríksdóttir
 • Kristján Smith
 • Sigurður R. Sigurjónsson 
 • Dagný Erna Lárusdóttir

Skoðunarmenn 

 • Páll Haraldsson 
 • Sigurður R. Sigurjónsson 
 • Dagný Erna Lárusdóttir, varamaður
 • Sólrún Óskarsdóttir, varamaður 

Framkvæmdastjóri er Guðmundur Löve 

Um SÍBS