Fræðslumyndbönd

Í þessari fræðslumynd útskýra læknar og hjúkrunarfræðingar hvað kæfisvefn er og hvernig hægt er að meðhöndla ástandið. Nokkrir íslenskir einstaklingar segja frá reynslu sinni af því að vera með kæfisvefn og hvernig þeir hafa tekist á við hann. Þá er greint frá viðamikilli langtímarannsókn á kæfisvefni sem nýlega hófst undir stjórn prófessor Þórarins Gíslasonar á lungnadeild LHS í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu og sérfræðinga á þessu sviði í Bandaríkjunum.

Umsjón: Páll Kristinn Pálsson, framleiðandi er Ax ehf. fyrir Vífil, félag einstaklinga með svefnháðar öndunartruflanir/kæfisvefn.

Líffæragjafir hafa verið allnokkuð í umræðunni undanfarin misseri. Í þessari fræðslumynd er fjallað um fyrirkomulag líffæragjafa hér á landi. Læknar og aðrir fagaðilar útskýra hvernig þær ganga fyrir sig og aðstandendur líffæragjafa og líffæraþega greina frá reynslu sinni.

Þrátt fyrir góðan árangur í forvörnum og meðferð eru hjarta- og æðasjúkdómar enn helsta dánarorsök Íslendinga. Þessir sjúkdómar geta verið af ýmsum toga en algengastur er kransæðasjúkdómur. Í nýrri íslenskri fræðslumynd útskýra læknar orsakir og einkenni sjúkdómsins, helstu meðferðarúrræði og sjúklingar segja frá reynslu sinni af því að fá kransæðastíflu.

Dagskrárgerð: Páll Kristinn Pálsson og Aðalgeir Vignir Gestsson. Framleiðandi: Epos kvikmyndagerð fyrir Hjartaheill.


Þessi fræðslumynd er gefin út af Hjartaheill, í samvinnu við AstraZeneca. Myndinni er ætlað að auka skilning fólks á eðli hjarta- og æðasjúkdóma. Hér er fjallað um nauðsyn þess að takast á við aðstæður á raunsæjan og hvetjandi hátt og ávinninginn sem fylgir því að taka upp hollari lífshætti.

Þótt góður árangur hafi náðst í baráttunni gegn reykingum búa þúsundir Íslendinga og fjölskyldur þeirra við skaðlegar afleiðingar þeirra. Í þessari nýju heimildarmynd kynnumst við tveimur karlmönnum og tveimur konum á besta aldri, sem öll ánetjuðust reykingum á unglingsárunum og glímt hafa við alvarlega sjúkdóma sem þær ollu og breyttu lífi þeirra á varanlegan hátt.

Dagskrárgerð: Páll Kristinn Pálsson og Aðalgeir Gestur Vignisson. Framleiðandi: Epos kvikmyndagerð fyrir Astma- og ofnæmisfélag Íslands, Hjartaheill, Hjartavernd, Krabbameinsfélag Reykjavíkur og Samtök lungnasjúklinga.

Á hverju ári fæðast um 70 börn með hjartagalla á Íslandi. Gallarnir uppgötvast ýmist fyrir eða eftir fæðingu, þeir eru afar mismunandi og misalvarlegir, tæplega helmingur barnanna þarf að gangast undir aðgerð af einhverju tagi sem flestar eru framkvæmdar erlendis.

Í myndinni segja barnahjartalæknar frá þeim miklu framförum sem orðið hafa í greiningu og meðferð hjartagalla og foreldrar segja frá reynslu sinni. Sögð er saga Hildar Pálsdóttur sem talið var að yrði aldrei eldri en tíu ára, en er nú á þrítugsaldri. Umsjón: Páll Kristinn Pálsson og Ólafur Sölvi Pálsson. Framleiðandi: Neistinn – styrktarfélag hjartveikra barna.

Í þessu fræðslumyndbandi er fjallað um orsakir gáttatifs, einkenni þess og meðferðarúrræði. Hér á landi hafa um 5000 manns greinst með gáttatif og læknar telja að tíðnin eigi eftir að margfaldast á næstu áratugum samfara hækkandi meðalaldri þjóðarinnar og betri meðferðarúrræðum gegn öðrum hjartasjúkdómum. Dagskrárgerð: Páll Kristinn Pálsson og Ólafur Sölvi Pálsson. 
Framleiðandi: Epos kvikmyndagerð fyrir Hjartaheill.

Í þessu myndbandi frá SÍBS og Astma- og ofnæmisfélaginu er fjallað um fæðuofnæmi barna. Talið er að um 70 þúsund Íslendingar séu með ofnæmissjúkdóma á borð við astma og fæðuofnæmi. Ofnæmissjúkdómar valda oft skertum lífsgæðum og geta jafnvel verið lífshættulegir. Fæðuofnæmi er sérstaklega algengt hjá börnum.

Algengustu fæðuofnæmishvatar hjá börnum eru mjólk, egg, soja, fiskur, jarðhnetur og hveiti. Einkenni fæðuofnæmis geta verið bjúgur, útbrot og öndunarerfiðleikar auk þess sem það getur aukið exemisútbrot hjá börnum með barnaexem.