Greinar / 16. febrúar 2021

Vanlíðan eykst og biðlistar lengjast

Andleg vanlíðan hjá börnum hefur aukist á seinustu árum. Þetta staðfesta margvíslegar rannsóknir. Má þar nefna þýðisrannsóknina Ungt fólk sem hefur verið framkvæmd meðal allra grunnskólabarna á landinu af rannsóknamiðstöðinni Rannsóknum og greiningu frá árinu 1992. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar Ungt fólk sem lögð var fyrir 8., 9. og 10. bekk grunnskóla í febrúar 2020 hefur hlutfall þeirra nemenda sem telja andlega heilsu sína vera slæma aukist samanborið við niðurstöður fyrri ára. Ef farið er yfir niðurstöður rannsóknarinnar má sjá að geðheilbrigði barna hefur farið versnandi, á það sérstaklega við meðal stúlkna. Á árabilinu 2014 til 2020 hefur orðið töluverð aukning á hlutfalli stúlkna sem finna fyrir einkennum þunglyndis og kvíða. Jafnframt er nú hlutfall stúlkna í 9.og 10. bekk sem telja sig hamingjusamar með lægsta móti. Þá hefur einnig komið ítrekað fram hjá börnunum sjálfum áhyggjur vegna andlegra erfiðleika og þörf á auknu aðgengi að sálfræðiþjónustu.

Embætti umboðsmanns barna stóð fyrir þremur samráðsverkefnum með börnum haustið 2020. Alls tóku 1.020 börn þátt í samráðinu. Fyrsta samráðið snéri að þátttöku barna og áhrifum barna á ákvarðanatöku. Var þar sérstaklega horft til hinsegin barna og leitað var til Samtakana 78 til að fá sérstaklega fram raddir barna sem skilgreina sig hinsegin. Seinni tvö samráðin voru unnin fyrir félagsmálaráðuneytið og vörðuðu annars vegar stefnu ráðuneytisins um Barnvænt Ísland og hins vegar fyrirhugaðar breytingar á barnaverndarlögum. Geðheilbrigði barna var ofarlega í hugum barna sem tóku þátt í samráðinu. Þau höfðu áhyggjur af andlegri heilsu barna í samfélaginu þar sem mikið sé að gera og börn upplifi að miklar kröfur séu gerðar til þeirra. Þá var bæði rætt um mikilvægi þess að fræðsla um geðheilbrigði yrði aukin, og að fjárfest yrði í frekari úrræðum. Var þar m. a. tekið dæmi um langan biðlista á BUGL. Fram kom að börn þurfi greiðari aðgang að sálfræðiþjónustu og að þau geti sótt þá þjónustu án leyfis foreldra.

Frásagnir barna af Covid-19

SA1.JPG

Margt bendir til að Covid-19 faraldurinn hafi aukið enn frekar á andlega vanlíðan barna. Embætti umboðsmanns barna hefur í tvígang sent bréf til allra grunnskóla þar sem óskað var eftir frásögnum barna og ungmenna af því hvernig það væri að vera barn á tímum kórónuveirunnar og hvaða áhrif faraldurinn hefði haft á daglegt líf þeirra og líðan. Var það annars vegar gert vorið 2020 og hins vegar um veturinn það sama ár. Áberandi munur var á svörum barnanna frá þessum tveimur tímabilum hvað varðar andlega líðan. Í þeim svörum sem safnað var frá byrjun mars til loka skólaársins 2020 var algengt að börnin tækju fram að þeim hafi liðið vel. Það hafi verið minna stress á morgnana og þau hafi náð betri svefni. Umboðsmaður barna óskaði í annað sinn eftir frásögnum barna í nóvember 2020 og var tekið við frásögnum til 8. janúar 2021. Þá hafði þriðja bylgja faraldursins haft stórtæk áhrif á samfélagið með umfangsmiklum takmörkunum sem höfðu töluverð áhrif á daglegt líf barna m.a. á skólahald í grunn- og framhaldsskólum sem og allt tómstundastarf barna. Áberandi munur var á svörum barnanna frá þessum tíma en að þessu sinni greindu mörg börn frá því að hafa fundið fyrir vanlíðan, streitu, kvíða, þunglyndi og einmanaleika. Það var einnig algengt að börn tækju fram að andleg líðan þeirra hafi verið sveiflukennd og að þau hafi fundið fyrir auknum pirringi og leiða, þá hafi verið erfitt að hafa lítið að gera á daginn og að vera mikið heima. Þá voru einnig börn sem óttuðust að faraldurinn tæki aldrei enda og að heimurinn væri að farast. Þau börn sem höfðu átt í erfiðleikum með kvíða töluðu um að hann hefði aukist vegna faraldursins. Einnig var greint frá auknu álagi hjá fjölskyldum þar sem meðlimir teljast vera í áhættuhópi. Þetta er töluverður munur frá því sem fram kom í frásögnum barna sem safnað var vorið 2020. Jafnframt var áberandi að börn finndu fyrir þreytu gagnvart faraldrinum og sóttvarnaraðgerðum. Við sjáum að það hafði mikil áhrif á börn þegar íþróttaæfingar lágu niðri og líkamsræktarstöðvar voru lokaðar og margir tóku fram að þeim hafi liðið betur andlega og líkamlega þegar æfingar hófust á ný og líkamsræktarstöðvar opnuðu. Beiðni embættisins um frásagnir hefur líklega ekki náð til allra hópa barna í samfélaginu og eru svörin að einhverju leyti háð áhuga tiltekinna skóla eða kennara. Hér er því ekki um þversnið að ræða eða úrtaksrannsókn. Frásagnir barnanna bregða eftir sem áður upp mikilvægri mynd af hugarheimi og líðan barna á þessum tíma.

SA2.JPG

Frásagnir barna af COVID-19:

„Mér er búið að líða óþægilega og skringilega. Þetta er stressandi en samt líka spennandi. Þetta er sorglegt út af þeim sem eru að deyja. Pirrandi og leiðinlegt að geta ekki farið í skólann eða leikið við vini mína. Á sama tíma er þetta pínu skemmtilegt. Ef ég ætti að lýsa þessu í einu orði væri það SKRÍTIÐ! Mér líður alls konar.“

„Mér leið betur þegar allt var venjulegt maður vaknar bara á hverjum degi og það er alltaf allir dagar alveg eins og þú ert ekkert að bíða eftir neinu skemmtilegu eins og útlandaferð á næstunni og svoleiðis“

„Mér líður samt ekkert sérlega vel á þessum tíma, ég græt mikið stundum útaf ástæðu og stundum veit ég ekki afhverju. Mér finnst erfitt að hafa svona lítið að gera á daginn og verð frekar pirruð og tilfinningarnar er miklar“

„Mér líður bara mjög vel þetta hentar mér mjög vel því mér líður betur í kringum lítið af fólki“

Sjálfsvíg og slök félagsfærni

Aukinn fjöldi barna og ungmenna hafði samband við hjálparsíma Rauða krossins seinasta haust vegna kvíða og einmanaleika. Af þeim 20.120 símtölum sem bárust í hjálparsíma Rauða krossins 1717 á tímabilinu 1. janúar til 10. nóvember 2020 voru 972 frá börnum, 156 af þessum símtölum voru vegna sjálfsvígshugsana og 381 vegna kvíða. Er hér um töluverða aukningu að ræða en á sama tímabili árið 2019 bárust 774 símtöl frá börnum, þar af voru 103 vegna sjálfsvígshugsana og 270 vegna kvíða. Þessar tölur bregða upp alvarlegri mynd af stöðu barna.

Haustið 2020 kom út skýrslan Report Card 16 sem unnin er af rannsóknarstofnun UNICEF á Ítalíu. Í skýrslunni er lagt mat á velferð barna í efnameiri ríkjum heims með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun þar sem stuðst er við samanburð frá fjörtíu og einu ríki OECD og Evrópusambandsins. Staða íslenskra barna er mun lakari en vænta hefði mátt með tilliti til andlegrar líðan, líkamlegrar heilsu og náms- og félagsfærni. Erum við þar talsvert á eftir öðrum Norðurlandaþjóðum sem eru allar á meðal tíu efstu ríkja. Eins og við er að búast stendur Ísland vel í mælingum er lúta að líkamlegri heilsu, s.s. aðgengi að hreinu vatni og bólusetningum. Þá er fátækt hér minni en í mörgum samanburðarlöndum. Aftur á móti er staða barna varðandi færni mun lakari. Þetta er verulegt áhyggjuefni. Geðheilbrigðismálin eru sérstakt áhyggjuefni. Ítrekað hafa kannanir bent til þess að íslensk börn og ungmenni glími í miklum mæli við andlega erfiðleika eins og kvíða. Margoft hafa fulltrúar barna og ungmenna bent á mikilvægi aukins aðgengis að geðheilbrigðisþjónustu þar á meðal sálfræðiþjónustu. Hefur í því sambandi verið lögð áhersla á að boðið sé upp á slíka þjónustu innan skólans. Á barnaþingi sem haldið var 2019 kom fram ákall frá barnaþingmönnum um að gætt yrði að geðheilbrigði barna og börnum og unglingum sem eru með kvíða, þunglyndi eða aðra sjúkdóma yrði veitt aukin hjálp. Þá kom einnig fram að stytta þurfi biðlista hjá læknum og sálfræðingum.

SA4.JPG

Skýrsla Report Card 16 sýnir einnig að sjálfsvíg í aldurshópnum 15-19 ára er með því hæsta hér á landi miðað við samanburðarlönd, eða 9,7%. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands féllu sextán einstaklingar á aldrinum 15-19 ára fyrir eigin hendi á árunum 2014 til 2019, þar af voru 13 börn á aldrinum 15-18 ára. Það veldur einnig áhyggjum hversu hátt hlutfall íslenskra barna á erfitt með að eignast vini samanborið við önnur ríki. Aðeins 70% íslenskra barna telja sig geta auðveldlega myndað vinatengsl en 83% rúmenskra barna sem eru í fyrsta sæti í þessum efnum. Það er alvarlegt að ekki hafi náðst betri árangur í því að tryggja félagslega færni barna á Íslandi. Í skýrslu Report Card 16 er ekki fjallað sérstaklega um stöðu viðkvæmra hópa eins og fatlaðra barna eða barna af erlendum uppruna, svo nefndir séu tveir hópar sem vitað er að standa oft höllum fæti. Rétt er að geta þess að samanburður milli landa er vandkvæðum bundinn og í mörgum löndum ekki til samanburðarhæf gögn.

Snemmtæk íhlutun og biðlistar

Félags- og barnamálaráðherra hefur kynnt frumvarp til laga um samþætta þjónustu í málefnum barna þar sem kveðið er á um aðgang barna og foreldra að samþættri þjónustu með áherslu á snemmtækan stuðning. Meðal markmiða þessa frumvarps er að skapa aðstæður til þess að hægt sé að bregðast fyrr við þörfum barna eftir stuðningi. Í texta frumvarpsins er notast við hugtakið snemmtækur stuðningur til að lýsa úrræðum sem hafa það að markmiði að veita börnum og fjölskyldum þeirra hjálp um leið og þörf fyrir hana vaknar. Í greinargerð er töluvert fjallað um mikilvægi snemmtæks stuðnings m.a. til þess að hægt sé að fyrirbyggja að vandi barna verði umfangsmeiri. Það er ljóst að ef frumvarp um samþætta þjónustu á að geta náð markmiðum er snúa að snemmtækum stuðningi þarf að koma í veg fyrir að langir biðlistar myndist eftir þjónustu, en það er nú þegar ein helsta fyrirstaða þess að börn fái þann stuðning sem þau þurfa á að halda þegar þörf eftir slíkum stuðningi skapast.

Langur biðtími eftir greiningu og þjónustu í heilbrigðiskerfinu hefur verið viðvarandi vandamál. Það er mikilvægt að börn fái greiningu og þjónustu þegar þörf fyrir hana vaknar. Öll markmið um snemmtæka íhlutun ná ekki tilgangi sínum ef bíða þarf eftir greiningu og þjónustu í lengri tíma. Samkvæmt þingsályktun um stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til fjögra ára sem samþykkt var á Alþingi í apríl 2016 kom fram að efla ætti þjónustu á göngudeild BUGL með það að markmiði að í lok árs 2019 yrðu ekki biðlistar eftir þjónustu göngudeildar BUGL. Því markmiði hefur ekki verið náð og hefur ástandið frekar versnað ef eitthvað er því samkvæmt svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn á Alþingi biðu í september 2020 um 1.193 börn um allt land eftir greiningu eða meðferð við geðrænum og sálrænum vanda og meðalbiðtími göngudeildarþjónustu BUGL var þá um sjö og hálfur mánuður.

Aðgerða er þörf

Þessi staða er með öllu óviðunandi og ljóst að bregðast verður við versnandi geðheilbrigði barna. Við þá vinnu er mikilvægt að haft verði samráð við börn og þeim veitt tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að á þau verði hlustað. Börn og ungmenni eiga rétt á því að fá að taka þátt í stefnumótun og ákvarðanatöku í öllum málum sem þau varða samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans. Með þátttöku barna er hægt að greina álitamál, hindranir og tækifæri í málefnum barna sem þau hafa mikilvæga innsýn í. Börn eru ekki einsleitur hópur og þess vegna er mikilvægt að haft sé samráð við ólíka hópa barna svo sem fötluð börn. Mikilvægur þáttur í að innleiða Barnasáttmálann er að tryggja að hann sé með markvissum og kerfisbundnum hætti hafður að leiðarljósi við alla stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku sem varðar börn.

SA1.JPG

Salvör Nordal

Umboðsmaður barna

Nýtt á vefnum