Greinar / 7. febrúar 2023

Umhverfi og endurheimt

Hvað gerir maður með umhverfissálfræði? Hlustar á grasið vaxa, horfir í augun á kanínum eða ertu kannski að rannsaka þunglyndi hringtorga? Nei, nei ... alls ekki ...alls ekki.

Hugmyndir fólks um viðfangsefni umhverfissálfræðinnar eru fjölbreyttar, skemmtilegar og á margan hátt umhugsunarverðar. Af hverju er umhverfissálfræði svona framandi fyrirbæri? Það kannast jú flestir við íþróttasálfræði og vinnusálfræði en það spyr enginn hvort þar sé horft á bolta rúlla eða rannsökuð sé sýniþörf skrifstofustóla.

En á móti kemur, að umhverfissálfræðin hefur ekki farið hátt í gegnum tíðina. Það var fyrst haustið 2004 að ég áttaði mig á tilvist hennar og það fyrir hreina tilviljun. Það gerðist þannig að ég og Lauga konan mín bjuggum í Þingholtunum í Reykjavík og fórum gjarnan í göngutúr á kvöldin. Þar ræddum við um heima og geima, gleymdum okkur iðulega og örkuðum hverja götuna af annarri. Eitt kvöldið staðnæmdist Lauga fyrirvaralaust á horni einu í miðbæ Reykjavíkur og sagði: „Hefurðu tekið eftir því að við endum alltaf hérna?“ „Er það?“ spurði ég á móti. „Já,“ svaraði hún viss í sinni sök. „Það er bara eitthvað við þetta götuhorn – það er aðlaðandi.“

Næstu kvöld á eftir gerðum við tilraunir með að ganga í þveröfuga átt frá heimili okkar miðað við þetta tiltekna götuhorn. En svo gleymdum við okkur í spjalli og við enduðum á sama staðnum. Það var eitthvað við þetta umhverfi – það hafði aðdráttarafl, það togaði í mann. Ég staldraði við.

Við þekkjum það auðvitað öll að sumt umhverfi höfðar meira til okkar en annað, er fallegra og meira aðlaðandi – en ég hafði aldrei tengt þessa upplifun með beinum hætti við sálfræði. Og ýmsar spurningar vöknuðu: Ætli áhrif umhverfis á fólk hafi verið rannsökuð út frá sjónarhóli sálfræðinnar? Hvað er það í þessu umhverfi sem gerir það aðlaðandi?

Sálfræði og skipulag, sálfræði og hönnun. Verandi sonur arkitekts, hafandi hlustað á umræðu um hönnun og skipulag alla mína ævi, hafandi próf í sálfræði og líffræði, þá var ég sannfærður um að umhverfissálfræði þyrfti að flétta inn í skipulags- og hönnunarferla. Því hvað erum við að gera? Jú, við erum að hanna umhverfi fyrir fólk og umhverfið hefur áhrif á fólk. Örlög mín voru ráðin.

Söguleg skilaboð

Við erum alltaf stödd í einhverju umhverfi. Umhverfið er órjúfanlegur hluti af tilveru okkar og stór áhrifavaldur. Umhverfið mótar okkur og við mótum umhverfið, sem þá aftur mótar okkur – og svo koll af kolli. Umhverfissálfræði fæst einmitt við þetta áhugaverða samspil okkar og umhverfisins.

Umhverfið hefur andleg, líkamleg og félagsleg áhrif á okkur. Það mótar hegðun okkar og reynslu, athafnir og skoðanir, það hefur áhrif á líðan okkar, heilsu og velferð. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, hvort sem við tökum eftir því eða ekki og ein mikilvægustu skilaboð umhverfissálfræðinnar eru þessi: Ólíkt umhverfi hefur ólík áhrif á okkur – gott umhverfi hefur góð áhrif, slæmt umhverfi hefur slæm áhrif.

Þetta eru einföld skilaboð og sterk.

En hvað er gott umhverfi og slæmt umhverfi? Svarið hér getur bæði verið margþætt og flókið. Prófum að horfa á málin út frá þróun mannsins sem hófst, að því talið er, fyrir um 6-8 milljónum ára. Náttúran og hennar fjölþættu áskoranir mótuðu lífsbaráttuna – náttúran dreif þróunarferlið áfram jafnt líkamlega sem vitsmunalega. Náttúran mótaði manninn, skynjun hans, eðli og þarfir, og fyrir um 200 þúsund árum steig svo hinn vitiborni maður (homo sapiens) fram á sjónarsviðið, vopnaður 1.350 gr. heila – fyrirbæri sem á rætur í allt að 500 milljón ára þróun og talið er flóknasta fyrirbæri veraldar.

Uppréttur, um 170 cm hár, gat homo sapiens gengið á tveimur fótum á um 5 km hraða á klukkustund. Skynfæri hans voru nokkuð öflug; augu, eyru og nef vísuðu fram til að hámarka skynjun framávið. Líkamlegur styrkur og hraði fremur takmarkaður í samanburði við mörg önnur dýr, en eðli málsins samkvæmt bætti hinn viti borni maður sér það upp með gífurlegri hugrænni færni.

Þessi 200 þúsund ár hefur hinn viti borni maður lengst af háð sína lífsbaráttu í náttúrunni og lifað fremur fábrotnu lífi, sem snerist að mestu um að hafa þak yfir höfuðið, eitthvað að bíta og brenna, eignast afkomendur og koma þeim á legg. Og þótt 200 þúsund ár virðist okkur langur tími, þá er slíkt ekki raunin í þróunarfræðilegu samhengi og hefur samsetning hins vitiborna manns tekið ótrúlega litlum breytingum á þessum tíma. Við nútímafólk erum því ótrúlega lík forfeðrum okkar og -mæðrum. Og með hliðsjón af því má gera ráð fyrir að skynjun okkar, grunneðli og grunnþarfir taki mið af tilvist í náttúrulegu umhverfi.

Það má því skilgreina gott umhverfi sem umhverfi sem mætir okkur á þeim forsendum sem hér hafa verið raktar. Það mætir okkur á þeim stað að við erum manneskjur með sögu. Það er því nærtækt að segja gott umhverfi manneskjulegt eða mannvænt, en slæmt umhverfi hið gagnstæða.

Pall2.jpg

Pall3.jpg

Núllstilling náttúrunnar

Vegna sögu mannsins í náttúrunni er hún sjaldan langt undan þegar umhverfissálfræði ber á góma og hafa margar rannsóknir verið gerðar á samspili fólks og náttúru, ekki síst á áhrifum hennar á heilsu.

Við tengjum flest áhrif náttúrunnar við jákvæða líðan. Að fara út, viðra sig og koma frísk(ur) til baka. Við þeysumst um landið og njótum fjalla, sanda, móa og mela. Það er gras og það eru tré, fossar og ár. Við borðum ber og tyggjum strá, hlustum á lækjarnið, fuglasöng og öldur brotna í flæðarmáli. Við drögum að okkur ferskt loft og finnum lykt. Náttúran veitir ótal tækifæri til hreyfingar, hún getur verið stórbrotin og boðið upp á ægifegurð, verið fíngerð, ljúf og mild. En einnig miskunnarlaus, vægðarlaus, gróf, öfgakennd og öflug. Hún getur sýnt okkur vald sitt og kraft. Náttúran er heillandi fyrirbæri og heilandi, bæði fyrir sál og líkama – hún núllstillir okkur.

Hugmyndir okkar um jákvæð áhrif náttúrunnar á heilsu og líðan eru samtvinnaðar sögu mannkyns langt aftur í aldir. Einar elstu heimildir um slíkt er að finna á leirtöflum frá tímum Súmera frá því um 3000 – 3500 árum f. Kr. Þá lagði hinn gríski Hippókrates (460 – 370 f.Kr.), sem gjarnan er nefndur „faðir læknisfræðinnar“, áherslu á að fagurt landslag, hreint loft og gott vatn væri nýtt til heilsubótar. Einnig taldi „konan með lampann“, Florence Nightingale (1820-1910), móðir nútímahjúkrunar, heilsu fólk tengjast með beinum hætti umhverfisþáttum á borð við sólarljós, hreint loft og hreint vatn.

Heilsubætandi áhrif náttúrunnar hafa því lengi blasað við, jafnvel svo að óþarft hefur þótt að útskýra þau og/eða magnsetja með vísindalegum og/eða kerfisbundnum hætti. En með aukinni þéttbýlisþróun, hraða, aukinni streitu og kyrrsetu, aukinni tíðni hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki II, öndunarfærasjúkdóma svo eitthvað sé nefnt, hefur þrýstingur á vísindalega nálgun aukist. Þar hefur megin spurningin verið þessi: Eiga heilsubætandi áhrif náttúrunnar við rök að styðjast? Er þetta raunveruleiki eða bara rómantík?

Árið 1984 birti vísindamaðurinn Roger Ulrich grein í tímaritinu Science, þar sem kom fram að sjúklingar sem lágu á sjúkrahússtofu eftir skurðaðgerð upplifðu skjótari bata ef útsýni út um glugga bauð upp á trjágróður frekar en múrvegg. Rannsóknin olli straumhvörfum því með henni höfðu í fyrsta skiptið verið birtar áreiðanlegar, vísindalegar niðurstöður sem sýndu fram á heilsubætandi áhrif náttúrunnar og er grein Ulrich talin ein sú áhrifamesta innan þessa fræðasviðs.

Frá birtingu greinarinnar hafa fjölmargar rannsóknir verið gerðar sem sýna fram á margvísleg jákvæð áhrif náttúrunnar á fólk. Sem dæmi hafa niðurstöður sýnt jákvæð áhrif náttúru á líkama og lífeðlisfræðilega ferla, s.s. lækkandi blóðþrýsting og lækkandi hjartsláttartíðni, losun vöðvaspennu og eflingu ónæmiskerfis. Auk þess ýtir náttúran undir hreyfingu, hvort sem um ræðir göngur, hlaup, hjólreiðar, leik eða annars konar líkamlega virkni, sem þá aftur hefur jákvæð heilsufarsleg áhrif í för með sér.

Náttúran hefur einnig jákvæð áhrif á tilfinningar okkar. Hún eykur hamingju og jákvæðar tilfinningar á sama tíma og hún dregur úr neikvæðum. Hún ýtir undir jákvæð félagsleg samskipti og félagslega samheldni. Við tengjum fegurð, hreinleika og frelsi við náttúruna og fulltrúa hennar, og finnum fyrir aukinni jarðtengingu. Náttúran minnir okkur á smæð okkar og gerir okkur grein fyrir að við eru bara lítill hluti af stærri heild. Sú upplifun og/eða vitneskja getur svo aftur aukið tengsl okkar við djúpstæðari gildi sem búa innra með okkur, s.s. auðmýkt, heiðarleika, samkennd og göfuglyndi, á sama tíma og það dregur úr yfirborðskenndari þörfum á borð við frægð, aðdáun annarra og fjárhagslegan gróða.

Þá hafa rannsóknir sýnt fram á jákvæð áhrif á hugræna starfsemi. Náttúran virðist skerpa athygli fullorðinna og einbeitingu, auka hugræn afköst og vinnslu, hugrænan sveigjanleika og virkni. Samskipti við náttúruna og fulltrúa hennar draga því úr líkum á mistökum og bæta lausnamiðaða hugsun. Hjá börnum virðist náttúran ýta undir hugrænan þroska og efla sjálfstjórn.

Lykillinn felst í endurheimtinni

Til að skýra þessi áhrif náttúrunnar hefur vísindafólk horft til þróunar mannsins og þeirra löngu samskipta sem maðurinn hefur átt við náttúru, líkt og rakið er hér að ofan. Nokkrar kenningar hafa verið settar fram en ein sú fyrirferðarmesta er Kenningin um endurheimta athygli (e. Attention restoration theory), sem fyrst var sett fram af hjónunum Rachael og Stephen Kaplan árið 1989. Kenningin gerir ráð fyrir því að athygli fólks megi skipta í tvennt: beinda athygli sem krefst fyrirhafnar og sjálfsstjórnar, og ósjálfráða athygli, sem er fyrirhafnarlaus með öllu.

Í hinu hversdagslega lífi þurfum við öll að sinna verkefnum okkar og skyldum, axla ábyrgð og standa okkar plikt, og til að mæta þessum kröfum þurfum við aga okkur og beina athyglinni að viðfangsefnunum, m.ö.o. þurfum við að grípa til beindu athyglinnar. Og þar sem hún er ekki fyrirhafnarlaus mun athyglisþreyta gera vart við sig fyrr en síðar. Athyglisþreytan dregur úr sjálfstjórn okkar og erfiðara verður að halda óskiptri athygli – við missum dampinn og skilvirkni okkar minnkar. Í viðleitni okkar við að halda sjó, fer pirringur að gera vart við sig, blóðþrýstingur tekur að aukast sem og framleiðsla streituhormóna, sköpunargáfan minnkar og lausnamiðuðum hugsunum fækkar. Eftir því sem hæfni okkar minnkar, því meira þurfum við að leggja okkur fram – þörfin fyrir það sem Kaplan og Kaplan kalla sálfræðilega endurheimt, eykst.

Til að rjúfa þennan feril og upplifa sálfræðilega endurheimt þarf því að gefa hinni beindu athygli ráðrúm til að ná vopnum sínum á nýjan leik. Slíkt á sér stað þegar við stígum út úr hinum krefjandi aðstæðum inn í umhverfi, sem býður upp á fjölbreytta og aðlaðandi ferla, áhugaverða atburði og áreiti sem eiga það sameiginlegt að krefjast engrar einbeitingar og gera engar kröfur til okkar. Við þurfum að fá tækifæri til að gleyma stað og stund – og þá virkjast hin fyrirhafnarlausa ósjálfráða athygli og ferli endurheimtar fer af stað. Og það er þarna sem náttúran kemur sterk inn, því hún býður okkur nútímafólki upp á svo margt áhugavert og spennandi án þess að gera kröfur til okkar.

Við horfum á sólarlag á fallegum degi eftir annasaman dag á skrifstofunni. Sólarlagið fangar athygli okkar en krefst um leið einskis af okkur. Það bara er. Sólin sígur sína leið niður af himninum og niður fyrir sjóndeildarhringinn. Við þurfum ekki að hafa neinar skoðanir á þeirri framvindu. Hún bara er. Og með andrýminu sem við fáum, vinnum við á andlegu þreytunni, við endurheimtum beindu athyglina og sjálfsstjórn - við upplifum sálfræðilega endurheimt – sem samkvæmt skilgrein- ingu Terry Hartig frá árinu 2004 er endurnýjun líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar getu sem minnkað hefur vegna fyrirhafnar okkar við að mæta kröfum hversdagsins.

Sálfræðileg endurheimt er ofur venjulegt, hversdagslegt ferli, sem felur í sér mikinn ávinning fyrir fólk bæði í lífi og starfi. En þegar betur er að gáð ristir mikilvægi sálfræðilegrar endurheimtar mun dýpra og hafa rannsóknir sýnt að ef þörf fyrir sálfræðilega endurheimt er ekki sinnt til lengri tíma, getur það leitt til hrakandi lífsgæða og heilsubrests.

Heilsubætandi þéttbýli

Samkvæmt Kaplan og Kaplan er endurheimtandi umhverfi (e. restorative environments) umhverfi sem heimilar sálfræðilega endurheimt og ýtir undir að hún eigi sér stað. Þó náttúran sé fremst í flokki þegar endurheimtandi umhverfi ber á góma, þá er mikilvægt að ítreka að endurheimtandi umhverfi er víðfeðmur flokkur umhverfa; náttúra og þéttbýli, innandyra og utan, stórfenglegt og hversdagslegt. Og þetta er mikilvægt að hafa í huga nú þegar fjöldi okkar á jarðarkringlunni hefur náð 8 milljörðum. Já, mannkyninu fjölgar hratt og skv. spá Sameinuðuþjóðanna mun fjöldinn nái 9,7 milljörðum árið 2050 og 10,4 árið 2100. Samfara því mun hlutfall þéttbýlisíbúa í heiminum ná 68% árið 2050 og verður fjöldi þeirra þá um 6,6 milljarðar.

Það er því mikilvægt að huga að því hvernig skapa megi endurheimtandi umhverfi innan þéttbýlis. Í bókinni Restorative Cities10 sem kom út árið 2021, eru teknir saman áhersluþættir sem rannsóknir hafa sýnt að skipta máli í þessu samhengi. Einn þeirra er tilvist fulltrúa náttúrunnar, þ.e. gróðurs og vatns í þéttbýlislandslaginu og hefur það beina tilvísun í áhrif náttúrunnar. Sýnt hefur verið fram á afar jákvæð áhrif grænna og blárra svæða í þéttbýli, en hið síðarnefnda er skilgreint sem svæði utandyra – náttúruleg eða manngerð – sem aðgengileg eru fólki og vatn leikur aðalhlutverk. Þá er lögð áhersla á að upplifun og skynjun fólks á hönnun og skipulagi þéttbýlis hafi í för með sér jákvæð áhrif á heilsu og líðan. Er hér átt við fjölbreytileika og fagurfræði, hreinlæti og að dregið sé úr streituvöldum á borð við hávaða og mengun.

Félagsleg samskipti eru einnig meðal áhersluþátta, en félagsleg einangrun og einmanaleiki er vaxandi vandamál á heimsvísu og hafa niðurstöður í auknum mæli sýnt fram á neikvæð áhrif þessara þátta á heilsu og velferð. Mikilvægt er því að þéttbýlisumhverfi ýti undir félagsleg samskipti fólks á sama tíma og tryggt sé að fólk njóti friðhelgi og einveru, kjósi það svo. Þá þarf að tryggja að umhverfið sé aðgengilegt og hæfi ólíkum hópum, að það brúi bil milli ólíkra hópa, hvetji til samkenndar og samvinnu, og lágmarki einangrun og/eða útilokun tiltekinna hópa.

Í þéttbýlisumhverfi þarf að vera hvati til líkamlegrar virkni og hreyfingar, enda verður slíkt seint ofmetið í heilsufarslegu tilliti. Góðar göngu- og hjólatengingar, áhugavert umhverfi, öryggi, góð lýsing og bekkir sem gefa tækifæri til hvíldar eru allt dæmi um mikilvæga innviði sem hvetja til hreyfingar og aukinnar virkni.

Að lokum

Umhverfissálfræði er áhugavert viðfangsefni sem á sannarlega erindi nú á 21. öldinni. Þéttbýli þenst út, ágangur á náttúruna hefur sjaldan ef nokkru sinni verið meiri. Við erum að átta okkur á mikilvægi andlegrar heilsu til jafns við þá líkamlegu. Við erum lífverur sem erum mögulega að skapa okkur umhverfi og aðstæður sem eru okkur um megn. Þess vegna er brýnt að umhverfissálfræðin, fræðin sem einblína á samspil fólks og umhverfis, komi inn í umræðuna af fullum þunga. Það er í raun krafa 21. aldarinnar.

Já og götuhornið sem við Lauga enduðum „alltaf“ á – götuhornið sem gómaði mig – gatnamót Laugavegar og Skólavörðustígs!

Heimildir
  • Forrester, G. (4. júlí 2019). Your 500 million year old brain. Science Museum. https://bit.ly/3WUUdwi.
  • Ulrich, R. S. (1984) View through a window may influence recovery from surgery. Science, 224, 420–421.
  • Huisman, E.R.C.M., Morales, E., van Hoof, J. & Kort, H.S.M. (2012).Healing environment: A review of the impact of physical environmental factors. Building and Environment, 58, 70-80.
  • Weinstein, N., Przybylski, A.K. & Ryan, R.M. (2009). Can Nature Make Us More Caring? Effects of Immersion in Nature on Intrinsic Aspirations and Generosity. Personality and Social Psychology Bulletin, 35, 1315-1329.
  • Kaplan, R., & Kaplan, S. (1989). The experience of nature: A psychological perspective. New York: Cambridge University Press.
  • Kaplan, S. (1995). The restorative benefits of nature: Toward an integrative framework. Journal of Environmental Psychology, 15, 169-182.
  • Hartig, T. (2004). Restorative environments. Í C. Spielberger (Ritstj.), Encyclopedia of applied psychology (3. hefti, bls. 273-279). San Diego: Academic Press.
  • United Nations (2022). World Population Prospects 2022 – Summary of Results. Department of Economic and Social Affairs. https://bit.ly/3Yjlxp5.
  • Rithie, H. & Roser, M. (2019). Urbanization. Our World in Data - https://ourworldindata.org/urbanization.
  • Roe, J. & McCay, L. (2021). Restorative Cities – Urban Design for Mental Health and Wellbeing. London: Bloomsbury.

Páll Jakob Líndal

None

Nýtt á vefnum