Greinar / 4. nóvember 2020

Tökum ábyrgð á eigin heilsu

Íslenskar konur geta vænst þess að lifa í um 64 ár við fulla heilsu og íslenskir karlar í 70 ár samkvæmt tölum frá Hagstofu Evrópusambandsins [1]. Meðalævin er hins vegar um 84 ár hjá konumog 81 ár hjá körlum [2].

Ef við ímyndum okkur eitt augnablik að heilsuskerðingin ætti sér öll stað síðustu æviárin myndu íslenskar konur verja síðustu 20 æviárunum við skerta heilsu en karlar síðustu 11 árunum. Vitanlega er þetta ekki svona einfalt heldur dreifist heilsubrestur yfirleitt yfir ævina þótt hjá flestum versni heilsan með aldrinum.

Í þessu sambandi vekur það samt nokkurn ugg að þrátt fyrir stöðugar framfarir í heilbrigðisvísindum er meðalævin farin að styttast bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum [3]. Það má alls ekki líta á það sem sjálfsagt mál að við á Íslandi séum undanþegin þeirri hættu. Það er nefnilega svo að vanheilsan hefur þann eiginleika að safnast upp, og eftir því sem við lifum lengur fjölgar áhættuþáttunum og ævin styttist og leitar nýs jafnvægis.

Tæplega níu af hverjum tíu æviárum sem Íslendingar lifa við sjúkdóm eða skerðingu og svipað hlutfall ótímabærra dauðsfalla skrifast á reikning langvinnra, ósmitbærra sjúkdóma [4]. Bjarta hliðin á málinu er hins vegar sú að flestir áhættuþættir vanheilsu eru á okkar eigin valdi. Bættur lífsstíll er ekkert annað en samsafn af litlum ákvörðunum ævina út í gegn. Með því að gefa gaum líkamlegum, andlegum og félagslegum þáttum og heilsutengdu atferli getum við bætt árum við lífið og lífi við árin.

Heimildir

  1. ‘Healthy life years statistics - Statistics Explained’, Eurostat. https://ec.europa.eu/eurostat/statisticsexplained/index.php/Healthy_life_years_statistics (accessed Oct. 23, 2020).
  2. ‘Hagstofan: Lífslíkur á Íslandi með þeim mestu í Evrópu’, Hagstofa Íslands. https://hagstofa.is/utgafur/ frettasafn/faeddir-og-danir/danir-2019/ (accessed Oct. 23, 2020).
  3. J. Y. Ho and A. S. Hendi, ‘Recent trends in life expectancy across high income countries: retrospective observational study’, BMJ, vol. 362, Aug. 2018, doi: 10.1136/bmj.k2562.
  4. ‘GBD Compare | IHME Viz Hub’, Institute for Health Metrics and Evaluation. http://vizhub.healthdata.org/gbd-compare (accessed Oct. 23, 2020).

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum