Greinar / 5. nóvember 2020

Þol og styrkur – lykill að heilsu

Hreyfing hefur verið í aðalhlutverki frá örófi alda, allt frá því að menn lögðu langar vegalengdir að baki á degi hverjum við að draga björg í bú og unnu um leið ýmis dagleg verk sem kröfðust líkamlegs erfiðis. Í nútímasamfélagi hefur þróun tækninnar dregið úr mikilvægi hreyfingar í tengslum við lífsviðurværi fólks. Samgöngufarartæki eru orðin algengari, kyrrseta í vinnu, sjónvarpsáhorf og tölvu/skjánotkun.

Niðurstöður margra rannsókna benda til þess að kyrrseta dragi tvöfalt fleiri til dauða í Evrópu en offita. Grannir einstaklingar, sem stunda litla sem enga hreyfingu, eru í meiri áhættu fyrir heilsufarskvillum en þeir sem eru í ofþyngd en stunda reglubundna hreyfingu.

Hreyfing5.JPG

Regluleg hreyfing er mikilvæg þar sem rannsóknir hafa sýnt að tveggja vikna hvíld frá hreyfingu minnkar strax úthald og vöðvastyrk. Þessi aukna kyrrseta og hreyfingarleysi hefur því neikvæð áhrif á líkama okkar og heilsu.

Hreyfingarleysi veikir ónæmiskerfið, eykur líkur á bólgumyndun í líkamanum og getur orsakað ójafnvægi í hormónastarfsemi. Það eykur jafnframt líkurnar á offitu, hjartasjúkdómum, háum blóðþrýstingi, hækkuðu kólesteróli, heilablóðfalli, efnaskiptasjúkdómum, sykursýki tegund 2, beinþynningu og getur aukið þunglyndi og kvíða.

Hreyfing3.JPG

Vöðvarýrnun eykst með aldrinum. Þriðjungur einstaklinga fá aldurstengda vöðvarýrnun eftir fimmtugt. Eftir þrítugt minnkar vöðvamassinn um 3-5% á hverjum áratug.

Ráðlögð hreyfing

Embætti landlæknis gefur út ráðleggingar hvað varðar mikilvægi hreyfingar. Heilbrigðir fullorðnir einstaklingar ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu, í minnst 30 mínútur daglega. Dæmi: Rösk ganga, garðvinna, rólegt skokk, hjóla og synda. Æskilegt er að fullorðnir stundi erfiða hreyfingu að minnsta kosti tvisvar sinnum í viku, í 20 - 30 mín. í senn. Það viðheldur og bætir enn frekar þol, vöðvastyrk, liðleika, jafnvægi og beinheilsu. Dæmi um erfiða hreyfingu er fjallganga, hlaup, flestar íþróttir og snjómokstur.

Meira en helmingur Íslendinga hreyfir sig ekki í samræmi við hreyfiráðleggingar hér að ofan. Flestir telja tímaskort og þreytu vera aðalorsakaþáttinn fyrir takmarkaðri hreyfingu, en lítil hreyfing er betri en engin. Talið er að aðeins 20 mínútna hreyfing með meðalákefð hafi jákvæð áhrif á heilsuna.

Með daglegri hreyfingu er hægt að auka afköst lungna, hjarta- og æðakerfis, auka vöðvastyrk og viðhalda og bæta líkamshreysti. Einnig dregur hreyfing úr stoðkerfisvandamálum, líkamlegri spennu og liðkar liðamót.

bolur.JPG

Hreyfiúrræði

Hreyfing.JPG

Í samfélagi okkar nú til dags, með tilkomu Covid-19 og lokun líkamsræktarstöðva, skiptir hreyfing sköpum varðandi heilsu fólks. Hægt er að nýta sér tækniþróunina í dag á jákvæðan hátt í tengslum við val á hreyfingu. Það hefur færst í aukana að fólk hreyfi sig heimafyrir og fjölbreytni í æfingavali hefur aukist til muna. Fólk hefur meiri möguleika til að hreyfa sig á einfaldan og kostnaðarlítinn máta með því að gera heimaæfingar með æfingaöppum, þjálfun á netinu og með almennri útivist.

Einstaklingum með undirliggjandi heilsufarsvandamál, sem þurfa hvatningu til hreyfingar, stendur til boða að fá hreyfiseðil hjá sjúkraþjálfara með þar til gerðri einstaklingsmiðaðri æfingaáætlun þar sem einstaklingnum er fylgt eftir í ákveðinn tíma. Mikilvægt er að finna hreyfingu við hæfi þar sem hugað er bæði að þol- og styrktarþjálfun. Val á hreyfingu, sem hentar hverjum og einum, skiptir miklu máli, svo hægt sé að koma henni inn í daglega rútínu.

Ásta Kristín Gunnarsdóttir

Sjúkraþjálfari taugasviðs/ hreyfistjóri Reykjalundar

Hera Rut Hólmarsdóttir

Sjúkraþjálfari verkjasviðs Reykjalundar

Nýtt á vefnum