Greinar / 11. október 2021

Tækifæri í endurhæfingu – Starfsendurhæfing og starfsfærnimat Reykjalundar

Í sögulegu samhengi má segja að Reykjalundur hafi byrjað sem starfsendurhæfingarstofnun fyrir 76 árum, og var staðurinn þá kallaður vinnuheimili fyrir berklasjúklinga. Hins vegar eru 21 ár síðan formlegt teymi um starfsendurhæfingu tók til starfa á Reykjalundi undir heitinu Atvinnuleg endurhæfing. En til samræmis við aðra svipaða starfsemi í landinu,var ákveðið að breyta nafninu í Starfsendurhæfingu Reykjalundar í upphafi árs 2011.

Út á vinnumarkaðinn

Eitt af markmiðum Starfsendurhæfingar Reykjalundar er að aðstoða fólk út á vinnumarkaðinn eða í nám sem leiðir til vinnu, eftir veikindi eða slys. Þeir einstaklingar sem sækja þjónustu Starfsendurhæfingar Reykjalundar hafa verið frá vinnu um lengri eða skemmri tíma en stefna aftur í vinnu eða nám. Oft er ekki raunhæft að fara í fyrra starf og þarf þá að finna nýjan starfsvettvang.

Við innskrift leggur þverfaglegt teymi Starfsendurhæfingar heildrænt mat á getu og færni hvers og eins. Í endurhæfingunni er unnið út frá niðurstöðum þess mats, það er hvað þarf að leggja áherslu á til að ná markmiðum.

Ferli.JPG

Fræðsla og þjálfun er af svipuðum toga og í öðrum teymum Reykjalundar, einstaklingar í starfsendurhæfingu hafa aðgang að flestum fræðslu og námskeiðum Reykjalundar svo sem Verkjaskóla, Jafnvægi í daglegu lífi, Sjálfstyrkingu, Hugrænni atferlismeðferð, Geðheilsuskóla, Núvitund.

Raunveruleg verkefni

Sérstaða Starfsendurhæfingarinnar er vinnuaðstaðan, þar er starfsfærni metin og þjálfuð við raunveruleg verkefni. Vinnuaðstaðan samanstendur af tveim stórum verkstæðum, öðru þar sem við höfum yfir að ráða vélakosti og aðstöðu til ýmiskonar smíðavinnu og til að gera upp hjól, grill og fleira. Á hinu verkstæðinu eru tölvur, saumavélar og fleiri tæki, þar er bæklingagerð, uppsetning, prentun, röðun, götun og gormun á flestum gögnum fyrir þau námskeið sem fram fara á Reykjalundi og ýmis sauma- og samsetningaverkefni sem seld eru úr húsi.

Verkstæði.JPG

Einstaklingar í starfsendurhæfingu hafa tækifæri til að prófa ýmis raunveruleg verkefni og þjálfa verkfærni sína, því öll þessi verkefni krefjast mismunandi færni og þjálfa einbeitingu og úthald. Reynslan hefur sýnt að oft treysta einstaklingar sér ekki í vinnu án þess að vera viss um að ráða við hana, en hér er tækifæri til að prófa sig í aðstæðum sem svipar mögulega til þess sem hugurinn stefnir að. Margir einstaklingar glíma einnig við félagsfælni og er markvisst unnið að því að þjálfa félagsfærni í vinnuumhverfinu og kaffitímum.

Hluti af starfsendurhæfingunni getur verið vinnuprófun. Ef einstaklingur er með vinnusamband er möguleiki á að gera mat á getu til að sinna fyrri störfum og/eða hafa milligöngu um hagræðingu vinnuumhverfis og verkefnum sé þess einhver kostur. Einnig er hægt að hafa milligöngu um vinnuprófun á öðrum stöðum, til dæmis innan Reykjalundar eða úti á almennum vinnumarkaði.

Að lokum er komið að tengingu við vinnumarkaðinn eða önnur úrræði úti í samfélaginu. Reynt er að undirbúa einstakling og aðstoða eins og hægt er á þeirri leið. Boðið er upp á eftirfylgd í formi viðtala og stuðnings í allt að sex mánuði eftir útskrift.

Heildrænt mat

Frá upphafi Starfsendurhæfingar Reykjalundar hefur átt sér stað þróun á því að meta starfsfærni, og á árunum 2011 til 2015 var slíkt heildrænt mat þróað með styrk frá VIRK. Sú þróunarvinna fólst meðal annars í að þróa starfsstöðvar í vinnuumhverfinu og skilgreina störf/verkefni sem falla að starfsfærnimatinu og þáttum sem skipta máli í vinnu. Unnið var út frá þeim verkefnum sem voru til staðar og höfðu verið notuð til mats og þjálfunar á vinnufærni. Þannig hafði reynsla í gegnum tíðina sýnt fram á hvaða verkefni væru ákjósanleg í hverju tilfelli fyrir sig. Það sem vantaði var að skilgreina nákvæmlega hvers konar færni verkefnin kröfðust og gera þannig skipulagt mat á þau sem myndi þá gera alla markmiðasetningu og þjálfun/endurhæfingu markvissari. Verkefnin eru mismunandi, eins og fram kemur hér fyrr í greininni. Þau krefjast mismunandi færni og endurspegla mismunandi styrkleika og hindranir. Þessi hluti starfsfærnimatsins er umfangsmikill og fer fram í vinnuumhverfinu eins og áður sagði.

Annar þáttur matsins gerist eins og annað á Reykjalundi, með þverfaglegri vinnu og heildrænu mati, til dæmis á líkamlegum styrk og þoli, andlegri líðan, heilsufari og svo framvegis. Hér erum við að nota matstæki, svo sem spurningalista, sem annars eru notaðir í starfsendurhæfingunni og nýtast sem innlegg í mati á starfsfærni. Tímalengd starfsfærnimatsins getur verið mismunandi en er að jafnaði 4 vikur sé það framkvæmt eingöngu. Það fer eftir úthaldi einstaklingsins og umfangi þeirra þátta sem þarf að skoða hversu langur tími fer í matið.

Niðurstöður áætla starfsgetu, verkfærni og tilgreina styrkleika og hindrandi þætti. Með þessum upplýsingum verður atvinnuleit og endurkoma til vinnu markvissari og raunsærri. Staðan í dag er sú að starfsfærnimatið er hluti af starfsendurhæfingunni en þó koma sumir einstaklingar aðeins í matið. Sérstaða matsins er ótvíræð þar sem um staðlað þverfaglegt mat er að ræða með heildrænni nálgun.

Heidi Andersen

Sjúkraþjálfari

Maren Ósk Sveinbjörnsdóttir

Iðjuþjálfi

Nýtt á vefnum