Greinar / 5. nóvember 2020

Svefn hefur víðtæk áhrif á heilsu

Meðalmaðurinn sefur í 25–30 ár af ævi sinni og það er svo sannarlega ekki að ástæðulausu að svo stór hluti ævi okkar fer í svefn. Góður nætursvefn er grunnforsenda góðrar heilsu og lífsgæða. Hlutverk svefns er margþætt en endurnýjun, endurnæring, úrvinnsla, viðgerð og uppbygging eru meðal þess sem á sér stað í svefni. Fullorðnir þurfa að sofa 7–9 klukkustundir á sólarhring (börn og unglingar lengur) og bæði of stuttur og of langur svefn hafa neikvæð áhrif á heilsu og lífsgæði. Samkvæmt heilbrigðiskönnun Gallup sem framkvæmd var árið 2019 kom fram að 34% fullorðinna Íslendinga segjast sofa sex klukkustundir eða minna á sólarhring að staðaldri sem er mikið áhyggjuefni. Á sama tíma sjáum við of stuttan svefn hjá íslenskum börnum og ungmennum.

Líkamleg og geðræn tengsl

Svefn er nátengdur bæði líkamlegri og geðrænni heilsu, en þessi tengsl geta þó verið flókin og oft er erfitt að átta sig á orsök og afleiðingu þar sem samband svefns og heilsu virkar í báðar áttir. Fólk sem er heilbrigt á líkama og sál sefur oftast vel og með því að bæta svefn hjá fólki sem glímir við líkamleg og geðræn vandamál má gjarnan auka lífsgæði og bæta heilsu. Ef líkamleg heilsa er slæm, til dæmis ef fólk þjáist af langvinnum verkjum eða er að glíma við sjúkdóma eða aðra heilsubresti, hefur slíkt gjarnan neikvæð áhrif á svefninn og getur valdið langvarandi svefnvandamálum. Að auki getur truflaður svefn haft bein áhrif á líkamlega heilsu.

Skertur nætursvefn eykur magn bólguefna í líkamanum sem getur valdið ýmsum sjúkdómum ef bólgur eru viðvarandi. Að sama skapi verður brenglun á framleiðslu ákveðinna hormóna ef nætursvefn er af skornum skammti. Má þar sem dæmi nefna hormón sem stýra matarlyst og seddu og kallast leptín og ghrelin. Leptín er hormón sem vinnur gegn matarlyst með því að senda heilanum þau skilaboð að hann sé orðinn saddur en skertur svefn dregur úr magni leptíns í blóðinu og eykur þannig matarlyst. Ghrelin er annað hormón sem hefur þau áhrif að matarlyst eykst og hjá vansvefta fólki má sjá aukið magn grehlins í blóðinu. Þannig sækir fólk frekar í óholla og orkuríka fæðu eftir skertan svefn og innbyrðir einnig fleiri hitaeiningar. Því kemur það ekki á óvart að rannsóknir sýna sterkt samband milli svefnskorts og ofþyngdar, bæði hjá fullorðnum og börnum. Að auki hafa rannsóknir sýnt að stuttur svefn hefur áhrif á sykurbúskap líkamans og getur valdið sykursýki og háþrýstingi, ásamt því að auka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.

Verkir og svefn

Svefnvandi er algengur hjá þeim sem þjást af langvarandi verkjum og samband svefns og verkja getur orðið að eins konar vítahring. Það gefur augaleið að erfitt er að sofa þegar fólk finnur til, en það að sofa illa og lítið getur líka haft bein áhrif á skynjun sársauka og aukið verki. Svefn hefur þannig áhrif á sársaukaþröskuld og sárskaukaþol. Því minna sem fólk sefur, þeim mun lægri verður þröskuldurinn og þolið minnkar einnig.

Þetta var uppgötvað í rannsóknum á 4. áratugnum, þar sem þátttakendum var haldið vakandi í 60 klukkustundir til að mæla breytingar á sársaukaþröskuldi. Niðurstöðurnar hafa síðar verið studdar með fjölmörgum rannsóknum. Léleg svefngæði geta þannig valdið því að fólk verður næmara fyrir sársauka og verkir geta því oft aukist þegar glímt er við svefnvandamál. Þannig getur orsakasambandið virkað í báðar áttir þegar kemur að sambandi svefns við líkamlega heilsu og erfitt getur verið að átta sig á hvort kemur á undan, eggið eða hænan.

Svefn2.JPG

Andleg heilsa og svefn

Það sama má segja um samband svefns við andlega heilsu. Svefn er mikilvæg undirstaða geðrænnar heilsu og sterk tengsl eru milli geðraskana og svefnvandamála. Truflanir á svefni eru til dæmis meðal einkenna ýmissa geðraskana, meðal annars þunglyndis, kvíða, geðhvarfasýki og geðklofa.

Svefnvandamál samfara geðröskunum felast yfirleitt í svefnleysi (erfiðleikum við að sofna og halda sér sofandi), ásamt truflunum á draum- og djúpsvefni. Að sama skapi er langvarandi streita ein algengasta orsök svefnleysis en skertur svefn hefur einnig áhrif á tilfinningastjórnun og getur þannig aukið bæði kvíða og depurð.

Svefn3.JPG

Skertur svefn hefur einnig áhrif á einbeitingu og athygli. Áhrif svefnmissis á hugræna starfsemi koma fljótt í ljós. Nýleg bresk rannsókn sýndi að þeir sem hafa vakað í 17–19 klukkustundir eiga erfiðara með akstur en þeir sem eru með áfengismagn í blóði upp á 0,05 prómill, en það jafnast á við tvö vínglös og ekki er löglegt að keyra hérlendis með áfengismagn í blóði yfir 0.02 prómill. Vansvefta fólk á þannig erfitt með að bregðast hratt við aðstæðum og rökhugsun er skert og því aukast líkur á mistökum og slysum.

Of stuttur svefn eykur því líkur á ýmsum sjúkdómum, líkamlegum og geðrænum, dregur úr framleiðni og skerðir lífsgæði og lífslíkur.

Af ofangreindu er augljóst að svefn er lífsnauðsynlegur líkt og næring og súrefni. Með því að setja svefninn í forgang og tryggja það að fá 7-9 klukkustunda nætursvefn má draga úr líkum á ýmsum sjúkdómum, auka afköst og bæta lífsgæði og líðan.

Heimildir

  1. Meier-Ewert, Hans K., o.fl. „Effect of sleep loss on C-reactive protein, an inflammatory marker of cardiovascular risk“. Journal of the American College of Cardiology 43.4 (2004): 678–683.
  2. Sejnowski TJ, Destexhe A. Why do we sleep. Brain research 2000; 886: 208-23.
  3. Mullington, Janet M., o.fl. „Cardiovascular, inflammatory, and metabolic consequences of sleep deprivation“. Progress in cardiovascular diseases 51.4 (2009): 294–302.
  4. Ferrara, Michele og Luigi De Gennaro. „How much sleep do we need?“. Sleep medicine reviews 5.2 (2001): 155–179.
  5. Gallicchio, Lisa og Bindu Kalesan. „Sleep duration and mortality: a systematic review and meta-analysis“. Journal of sleep research 18.2 (2009): 148–158.
  6. Gangwisch, James E., o.fl. „Inadequate sleep as a risk factor for obesity: analyses of the NHANES I“. Sleep 28.10 (2005): 1289.
  7. Hasler, Gregor, o.fl. „The association between short sleep duration and obesity in young adults: a 13-year prospective study“. Sleep 27.4 (2004): 661–666.
  8. Williamson, Ann M. og Anne-Marie Feyer. „Moderate sleep deprivation produces impairments in cognitive and motor performance equivalent to legally prescribed levels of alcohol intoxication“. Occupational and environmental medicine 57.10 (2000): 649–655.
  9. Chaput, Jean-Philippe. „Sleep patterns, diet quality and energy balance“. Physiology & behavior 134 (2014): 86–91.
  10. Rögnvaldsdóttir V, Valdimarsdóttir BM, Brychta RJ, Hrafnkelsdóttir SM, Arngrímsson SÁ, Jóhannson E, et al. Hreyfing og svefn reykvískra ungmenna. Læknablaðið 2018; 104: 79-85.

Erla Björnsdóttir

Sálfræðingur og dr. í líf- og læknavísindum

Nýtt á vefnum