Greinar / 26. febrúar 2019

Stafrænn borgari

Verzlunarskóli Íslands hefur um árabil tekið þátt í erlendu samstarfi með styrkjum frá Evrópusambandinu. Styrkjakerfið gengur nú undir nafninu Erasmus+. Í okkar tilviki er ferlið þannig að sótt er um styrk fyrir samvinnu framhaldsskóla í Evrópu. Hér er ætlunin að segja stuttlega frá einu slíku verkefni sem er tveggja ára samstarfsverkefni sex skóla frá jafnmörgum löndum; Íslandi, Frakklandi, Þýskalandi, Slóveníu, Portúgal og Tyrklandi.

TT2.JPG

Einn sameiginlegur fundur er haldinn í hverju landi. Hver fundur stendur yfir í eina viku og hann sækja ákveðinn fjöldi nemenda frá hverju landi ásamt tveimur kennurum. Á meðan á fundi stendur búa nemendur í heimahúsum hjá nemendum heimalandsins. Umrætt verkefni ber yfirskriftina Technology in Education and Every Day Life – the Path to Digital Citizenship eða Tækni í námi og daglegu lífi – leiðin að því að verða stafrænn borgari. Nokkur þátttökulandanna höfðu áður unnið saman að verkefni sem bar yfirskriftina Ungar raddir í lýðræðisríkjum Evrópu. Í því verkefni var fjallað um hvað í því felst að vera virkur og ábyrgur borgari í lýðræðissamfélagi ásamt tilheyrandi réttindum og skyldum. Okkur fannst að nú væri tími til kominn að ganga skrefinu lengra frá almennum borgara yfir í stafrænan borgara.


Verzlunarskóli Íslands tekur þátt í tveggja ára samstarfsverkefni sex skóla frá Íslandi, Frakklandi, Þýskalandi, Slóveníu, Portúgal og Tyrklandi.


Heimurinn verður sífellt stafrænni og því tímabært að skapa aukna vitund meðal nemenda og kennara um kennslu og námsaðferðir á 21. öld. Nemendur okkar nota tölvur og snjalltæki mikið í námi og leik og því mikilvægt að hjálpa þeim að verða gagnrýnir og hugsandi einstaklingar. Hluti af undirbúningi nemenda fyrir framtíðarnám og störf í heimi þar sem á sér stað byltingarkennd tækniþróun er að þeir geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem felst í að nota vefinn á ábyrgan hátt í leik og starfi. Að vera góður stafrænn borgari þýðir svo miklu meira en að geta notað vefinn. Það snýst um að tengjast og vinna saman að verkefnum á alveg nýjan hátt. Með því að auka tölvulæsi nemenda og kenna þeim að verða stafrænir borgarar leggjum við hönd á plóg til að skapa jákvæða skólamenningu sem styður örugga og ábyrga notkun á tækninni.

Þar sem það féll í hlut Verzló að stýra verkefninu var fyrsti fundurinn haldinn hér á landi dagana 10.-16. janúar síðastliðinn. Fundurinn hófst með því að farið var yfir skilgreiningar og nokkrum spurningum svarað: Hvað felst í tölvulæsi? Hver er munurinn á að vera stafrænn borgari og borgari? Hvernig vitum við að við erum stafrænir borgarar? Hvernig eru nemendur nettengdir?


Hverjar eru skyldur okkar og réttindi á netinu? Hvernig eigum við að hegða okkur á meðan við eigum í netsamskiptum? Hvar liggur ábyrgð okkar?


Í fundarvikunni voru haldnar þrjár vinnustofur. Þær byrjuðu á því að nemendur hlustuðu á fyrirlestur um ofangreindar spurningar. Því næst skiptu nemendur sér í hópa þvert á landamæri. Hóparnir fóru um skólann og tóku viðtöl og skráðu netnotkun skólafélaga sinna. Þau matreiddu niðurstöðurnar síðan með myndrænum hætti í formi línurita og súlurita, unnu með niðurstöðurnar og rýndu þær. Því næstu svöruðu nemendur spurningum á netinu sem skáru úr um það hvort þeir væru í rauninni eins stafrænir og þeir töldu sig vera. Í ljós kom að margir töldu tölvulæsi sitt vera á hærra stigi en raun bar vitni.

Næsta vinnustofa var tileinkuð öryggi /einelti á netinu (cyberbullying). Vinnustofan byrjaði á því að fulltrúi frá Barnaheillum talaði um einelti á netinu og hvernig mætti koma í veg fyrir það. Nemendur skiptu sér síðan í hópa og hver hópur vann verkefni um hinar dökku hliðar netsins sem lúta að neteinelti. Hóparnir kynntu niðurstöður sínar og svöruðu spurningum. Í lokin komu allir hóparnir saman og útbjuggu aðgerðaáætlun til að koma í veg fyrir neteinelti. Þar kemur eftirfarandi meðal annars fram:

Verzló mynd
  • Samfélagið aðstoði einstaklinga sem standa höllum fæti snemma í lífinu með því að hjálpa fjölskyldum sem eru fátækar, eiga við heilsuvandamál o.s.frv.
  • Samfélagið setji sér ákveðnar reglur sem gilda um netnotkun.
  • Börnum sé kennt að bera virðingu fyrir öðrum og skoðunum þeirra.
  • Börnum í grunnskólum sé kennt að umgangast netið á ábyrgan hátt strax í upphafi.
  • Neteinelti ætti að varða við lög.
  • Neyðarsímsvörun sé til staðar þar sem hægt er að tilkynna neteinelti.
  • Ást og virðingu sé dreift á netinu.

Síðasta vinnustofan var tileinkuð sjálfsmynd okkar á netinu og siðareglum. Hún byrjaði einnig með stuttum fyrirlestri sem svaraði spurningum eins og: Hverjar eru skyldur okkar og réttindi á netinu? Hvernig eigum við að hegða okkur á meðan við eigum í netsamskiptum? Hvar liggur ábyrgð okkar? Tilgangurinn var að vekja athygli á ábyrgð okkar og skyldum og hvernig bæri að hegða sér í netheimum. Að fyrirlestri loknum fóru nemendur í hópa. Hver hópur fékk það verkefni að búa til netprófíl af skáldaðri persónu sem átti að vera nokkuð þekkt. Þeir drógu upp mynd af persónunni, létu hana senda pósta, settu upp samfélagsmiðla fyrir hana og létu hana setja inn stöðupósta og myndir bæði á Facebók og Instagram. Aðrir hópar urðu síðan fylgjendur þessa fólks og fylgdist grannt með öllu því sem þau póstuðu á netinu. Þegar fylgjendurnir síðan hittu sína „persónu“ í raunheimum kom í sumum tilvikum í ljós að manneskjan var allt öðruvísi en sú ímynd sem hún hafði dregið upp af sér í netheimum. Alla vega öðruvísi en fylgjendurnir höfðu gert sér í hugarlund eftir að hafa fylgst með lífi hennar á netmiðlum. Það kom skýrt í ljós að margir ilja gefa okkur ákveðna ímynd af sér. Sú ímynd er oft á tíðum villandi og getur rýrt orðspor okkar.

Í kringum þetta spunnust fjörugar umræður. Allir voru sammála um mikilvægi þess að gæta að orðspori sínu og vera samkvæmur sjálfum sér bæði á samfélagsmiðlum sem og í hinu raunverulega lífi. Hegðun og sjálf okkar á netinu skiptir máli og getur haft afleiðingar t.d. á orðspor. Glansmyndir gagnast engum þegar til lengdar lætur og best er að vera bara maður sjálfur, svo vitnað sé í orð nokkurra nemenda.

Þessi fundur var einungis fyrsti fundurinn í röð sex funda á næstu tveimur árum. Á hverjum fundi verða tekin fyrir mál er varða netheima. Nemendur okkar eru rétt byrjaðir að kryfja netið. Þeir eru komnir á stíginn sem þeir ætla að feta næstu tvö árin í átt að netlæsi. Þetta er ekki lengur spurning um tækni heldur öllu fremur að kunna að nota tæknina á ábyrgan og framsækinn hátt svo hún efli þá sem einstaklinga. Okkur tekst vonandi að kenna þeim að faglegt og skemmtanalegt gildi netsins getur farið vel saman.

Bertha S. Sigurðardóttir

Verkefnastjóri alþjóðaverkefna

Nýtt á vefnum