Greinar / 11. október 2021

Nýjar áskoranir á tímum COVID-19

Frá því að COVID-19 faraldurinn hófst í Kína í desember 2019 hefur hann breiðst hratt út um heimsbyggðina og breytt lífsháttum okkar undanfarið eitt og hálft ár. Fljótlega varð ljóst að þessi gerð coronaveiru væri skæð, enda náskyld SARS (HABL) veirunni sem einnig var skæð, en olli sem betur fer aðeins afmörkuðum faraldri árið 2003. COVID-19 hefur nú valdið dauða 4,7 milljóna manna skv. opinberum skráningum, en raunveruleg dauðsföll eru talin mun fleiri þar sem skráningu dánarorsaka er víða verulega ábótavant.

Fjölbreytileg og langvarandi einkenni

Við upphaf nýrra veirufaraldra ríkir ávallt óvissa um hversu smitandi veiran er og hve miklum veikindum hún getur valdið, en með tímanum og hverri nýrri smitbylgju koma afleiðingar smita betur fram. Bráð einkenni COVID-19 eru vel þekkt og líkjast í flestu öðrum veirusýkingum í öndunarvegi s.s. með kvefeinkennum, hita, vöðva- og beinverkjum og stundum skerðingu á bragð- og lyktarskyni. Það sem hefur hins vegar komið á óvart, er hversu lengi einkenni geta varað og hve fjölbreytileg þau eru. Veiran herjar aðallega á lungnavef en er einnig þekkt fyrir að geta skaðað hjartavöðvann og heilavef. Af þeim sem veikjast alvarlega í lungum eru á bilinu 12-17% sem fá verulegar lungnaskemmdir með útbreiddum örvef sem gerir lungnavefinn stífan og hefur þannig mikil áhrif á þenslugetu lungnanna og súrefnismettun líkamans. Í slíkum tilvikum getur verið þörf fyrir langvarandi súrefnismeðferð.

Helstu langvinnu einkennin eru veruleg þreyta, einskonar örmögnun, sem oftast versnar við líkamlega áreynslu, mæði og hósti, verkir í vöðvum og liðum, höfuðverkur, minnistruflanir og léleg einbeiting, stundum kallað heilaþoka, svefntruflanir, meltingartruflanir, hraður og/eða þungur hjartsláttur, skert bragð- og lyktarskyn, minnkað húðskyn eða náladofi, eyrnasuð, þunglyndi, kvíði og svimatilfinning. Hjá eldra fólki getur sést ruglástand og lystarleysi með þyngdartapi. Önnur einkenni eru sjaldgæfari. Þekkt er að veiran getur stundum valdið truflun í ónæmiskerfi og blóðstorkukerfi líkamans sem getur orsakað bólguviðbrögð og röskun í mörgum líffærakerfum.

Flestir sem smitast og veikjast af COVID-19 ná bata á nokkrum vikum. Um fjórðungur upplifir einkenni í meira en fjórar vikur en tíundi hver hefur ekki náð sér eftir 12 vikur. Það ástand sem varir lengur en 12 vikur hefur fengið enska heitið Long COVID og fengið sérstakt númer í hinni alþjóðlegu sjúkdómaskrá WHO. Hér á landi hefur þetta ástand gengið undir heitinu Langvinn einkenni eftir COVID. Þetta ástand er algengara meðal þeirra sem hafa veikst alvarlega af COVID-19 en hins vegar eru fjölmörg dæmi um langvinn einkenni eftir tiltölulega væga sýkingu.

Mikil áhrif á starfsemina

Faraldurinn hefur haft mikil áhrif á starfsemi Reykjalundar. Í fyrsta lagi var nauðsynlegt að koma á fót umfangsmiklum sóttvörnum innanhúss til að hindra útbreiðslu smits meðal starfsfólks og sjúklinga. Húsnæði Reykjalundar og eðli endurhæfingarstarfsins eru með þeim hætti að erfitt er að skipta upp húsnæðinu og hólfa starfsemina. Þetta hefur verið útfært með ýmsum hætti og endurskoðað í byrjun hverrar nýrrar bylgju. Sóttvarnir Reykjalundar hafa almennt virkað mjög vel, með alvarlegri undantekningu þegar upp kom smit á legudeild Reykjalundar. Það reyndist hafa bein tengsl við smit sem nokkru áður hafði komið upp á annarri heilbrigðisstofnun. Hægt var að stöðva útbreiðslu smitsins með hefðbundnum aðgerðum.

Í sóttvarnarskyni hafa starfseiningar verið einangraðar hver frá annarri eins og unnt hefur verið. Samskipti starfsfólks hafa því breyst mjög mikið og hefur hinn félagslegi þáttur vinnustaðarins liðið fyrir þetta ástand. Sóttvarnirnar hafa að sjálfsögðu einnig haft mikil áhrif á endurhæfingarstarfið og hefur þurft að fækka í hópi sjúklinga til að tryggja betur sóttvarnir. Biðlistar hafa því óhjákvæmilega lengst.

Þegar í ljós kom að alvarleiki COVID veikinda var mun meiri en menn höfðu áður gert sér grein fyrir, fóru að koma fram greinar í alþjóðlegum læknatímaritum um umfang vandans og hvernig ætti að bregðast við honum. Úrræðin snerust í fyrstu um þá sem höfðu veikst alvarlega, þurft sjúkrahúsvist og/eða gjörgæslumeðferð. Bent var á að koma þyrfti upp endurhæfingarþjónustu á eða í tengslum við sjúkrahúsin vegna þessara einstaklinga og hvatt til þess að skipulagt yrði endurhæfingarstarf til að taka við þessum hópi.

Reykjalundur tók þátt í þessu með því að taka við sjúklingum frá Landspítala sem höfðu þurft dvöl á gjörgæsludeild í 1. bylgju faraldursins. Á seinni stigum varð mönnum ljóst að bati margra varð mun hægari en gengur og gerist eftir veirusmit. Einnig að einkennin gátu verið mjög breytileg milli fólks, ýmist væg eða mikil en líka að sumu leyti einstaklingsbundin og höfðu í mörgum tilvikum mikil áhrif á starfsgetu.

Svigrúm Reykjalundar

Þegar þetta lá fyrir fór starfsfólk Reykjalundar að velta fyrir sér hvernig Reykjalundur gæti stigið inn í þessar aðstæður. Af sóttvarnarástæðum voru mun færri einstaklingar í endurhæfingu en venjulega, en starfsfólkið var til staðar. Svigrúm til að gera eitthvað í málunum var þannig til staðar. Þar sem endurhæfingarstarf Reykjalundar fer að öllu leyti fram samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands hafa verið gerðir tímabundnir viðbótarsamningar milli Reykjalundar og Sjúkratrygginga um þessa endurhæfingu. Frá maí 2020 hafa um 100 manns lokið meðferð vegna langvinnra einkenna COVID-19.

Þegar horft var til þeirra langvinnu einkenna sem einstaklingar höfðu í kjölfar veikindanna, þá eru þau um margt keimlík þeim einkennum sem hrjá þá einstaklinga sem Reykjalundur er vanur að sinna, þó svo að orsökin sé önnur. Þannig eru verkjavandamál, stoðkerfiskvillar, kvíði, depurð, svefntruflanir, þrekleysi og kulnun allt einkenni sem starfsfólk Reykjalundar er vant að fást við með fjölbreyttum úrræðum þjálfunar, kennslu og fræðslu til sjálfshjálpar. Reynslan og verkfærin væru því til staðar og væri hægt að nýta í þessu skyni.

Þær spurningar sem upp komu voru í fyrsta lagi hvaða einkenni væru mest hamlandi og hver þeirra væru líklegust til að svara endurhæfingarmeðferð og þar með minnka afleiðingar sýkingarinnar sem eru allt í senn líkamlegar, sálrænar og félagslegar. Í öðru lagi hvaða þættir endurhæfingar skiptu mestu máli fyrir framfarir í heilsu og starfsgetu og í þriðja lagi hvernig árangri meðferðar yrði fylgt eftir. Svarið við þessum spurningum yrði einungis mögulegt að fá fram með staðlaðri rannsókn þar sem framangreindir þættir væru metnir með líkamlegum prófunum, s.s. áreynsluprófum, og svo spurningalistum um heilsu og líðan. Sömu prófum yrði beitt við útskrift og að lokum 6 mánuðum eftir útskrift. Gerð var rannsóknaráætlun og fengin tilskilin leyfi til að framkvæma hana. Rannsóknin stendur enn yfir og verður unnið úr gögnum að rannsókn lokinni. Við bíðum spennt eftir niðurstöðunum sem munu gefa okkur færi á að endurmeta meðferðina og þróa hana áfram.

Þegar þetta er ritað er 4. bylgja faraldursins í rénun og vonandi betri tíð í vændum. Með mjög góðri þátttöku starfsfólks Reykjalundar í bólusetningu og sömuleiðis almennri þátttöku landsmanna, horfum við bjartsýn fram á veginn og vonum að endurhæfingarstarfið geti fljótlega aftur náð fyrri styrk. Samstaða starfsfólks Reykjalundar og vilji þess til að taka virkan þátt í að vinna gegn heilsufarslegum afleiðingum COVID faraldursins er gott dæmi um sveigjanleika og seiglu íslenska heilbrigðikerfisins á erfiðum tímum.

Stefán Yngvason

Framkvæmdastjóri lækninga

Nýtt á vefnum