Greinar / 5. febrúar 2018

Múlalundur - Fjölbreyttari vinnumarkaður

Á lóð Reykjalundar í Mosfellsbæ rekur SÍBS Múlalund vinnustofu SÍBS. Múlalundur er öflugt framleiðslu- og þjónustufyrirtæki sem þjónustar þúsundir viðskiptavina um allt land á sama tíma og það skapar störf fyrir fólk með skerta starfsorku.

GG.JPG

„Samfélagið þarf fjölbreyttan vinnumarkað, alls konar störf fyrir alls konar fólk, því enginn getur allt en allir geta eitthvað“, segir Sigurður Viktor Úlfarsson framkvæmdastjóri. „Múlalundur stendur og fellur með öflugum stuðningi SÍBS sem hefur stutt dyggilega við bakið á fyrirtækinu í meira en hálfa öld, en Múlalundur verður 60 ára á næsta ári.

Við segjum að kaup á vörum og þjónustu frá Múlalundi sé einfaldasta samfélagsverkefnið. Viðskiptavinir panta af vefnum, senda póst eða kíkja við, við sendum vöruna hvert á land sem er, jafnvel daginn eftir, og eftir situr fjárhagslegur og verklegur stuðningur.“

Á Múlalundi starfa tæplega 50 starfsmenn, þar af um 40 með skerta starfsorku, dugmiklir einstaklingar sem takast á við fötlun eða veikindi, andleg og líkamleg, í kjölfar slyss eða heilsubrests. Sigurður segir ánægjulegt að sjá fólk eflast af sjálfstrausti og þrótti með þátttöku á vinnumarkaði. „Það er okkur öllum mjög mikilvægt að fá að mæta til vinnu, eiga vinnufélaga og vera virk í samfélaginu“.

Fjölbreytt verkefni og vinsæl vefverslun

Múlalundur heldur úti bæði Facebooksíðu og glæsilegri heimasíðu mulalundur.is, þar sem nálgast má ýmsar upplýsingar um fyrirtækið auk þess sem þar er rekin stór vefverslun.

„Þar geta viðskiptavinir valið úr glæsilegu úrvali og bæði verð og úrval kemur flestum á óvart. Það er einfalt að versla á netinu og við sendum vörurnar oft strax daginn eftir, en fari pöntun yfir 16 þúsund krónur er frí heimsending um allt land. Fyrir lægri pantanir er sendingargjald 2.150 krónur. Á Múlalundi er sífellt leitað nýrra verkefna svo skjóta megi fleiri og styrkari stoðum undir reksturinn. Langtímaverkefni eru þýðingarmikil fyrir starfsemina og dæmi um slíkt er að setja saman fylgigögn með greiðslukortum fyrir bankana, að líma strikamerki og leiðbeiningar á innfluttar vörur viðskiptavina, ávaxtapökkun fyrir Ávaxtabílinn og fleiri verkefni sem starfsfólk Múlalundar hefur sinnt um lengri eða skemmri tíma.

Við erum opin fyrir því að taka að okkur hluta úr framleiðslu fyrirtækja, jafnt rótgróinna sem sprotafyrirtækja sem eru að stíga sín fyrstu skref, og allt sem kallar á mikla handavinnu. Með því tökum við að okkur fjölbreytt verkefni til lengri og skemmri tíma. Við framleiðum til dæmis fallegar kápur utan um prófskírteini útskriftarnema framhalds- og háskólanna, sem gera útskriftargögnin eigulegri og útskriftina að meiri viðburði. Þá hefur ferðaþjónustan komið sterk inn með framleiðslu á upplýsingamöppum fyrir hótelherbergi og flottum kápum utan um matseðla, þar sem merki veitingastaðarins er gjarnan letrað á eða þrykkt í kápuna. Við framleiðum einnig plastkápur utan um ferðabækur og landakort bókaforlaganna, plöstum bækur og tímarit og margt fleira. Öllum þessum verkefnum, pökkun, merkingum, gyllingum og meiru til, er sinnt af nákvæmni og natni af starfsfólki Múlalundar.“

Allir vinna

Frá árinu 1959 hefur Múlalundur verið rekinn af SÍBS, með stuðningi Happdrættis SÍBS. Þar hafa þúsundir einstaklinga með skerta starfsorku fengið annað tækifæri og blómstrað á ný.

„Árið 2017 greiddi Múlalundur yfir 100 milljónir í laun og skapaði varanleg störf fyrir meira en fjörutíu manns með skerta starfsorku. Að auki fengu aðrir fjörutíu tækifæri til að spreyta sig í fjögurra vikna vinnuprufum sem hjálpa fólki að komast af stað eftir langvarandi fjarveru frá vinnumarkaði.

Góð samvinna er á milli Múlalundar og Reykjalundar, sem er einnig rekinn af SÍBS. Þá er Múlalundur í góðu samstarfi við Vinnumálastofnun og ræður fólk til vinnu af biðlistum, en umsækjendur geta þurft að bíða lengi á biðlista áður en þeir komast að.“

60 ára unglamb með bjarta framtíð

Múlalundur - Fjölbreyttari vinnumarkaður

Sigurður kallar eftir aukinni meðvitund fyrirtækja um samfélagsmál fólks með skerta starfsorku. „Markmiðið er að sem flestir séu virkir á vinnumarkaði. Hjá Vinnumálastofnun eru til hvetjandi úrræði sem styðja fyrirtæki í að taka við fólki með fötlun eftir starfsendurhæfingu hjá Múlalundi og víðar. Störf á Múlalundi gefa þeim sem annars sætu heima aðgerðarlausir, tækifæri til að spreyta sig og taka þátt í verðmætasköpun samfélagsins.Múlalundur stendur sjálfur undir stærstum hluta tekna sinna, sem er allt að því einsdæmi á vinnustofum fólks með skerta starfsorku. Við erum stolt af því að við greiðum umtalsvert meira til samfélagsins í formi skatta og tolla en við fáum frá ríkinu.

Á Múlalundi er aðstaða til að taka á móti mun fleira starfsfólki en forsenda fjölgunar er aukin viðskipti og verkefni. Þetta er hörkuduglegt fólk og það þarf að hafa nóg að gera, þótt vinnudagurinn sé lagaður að getu hvers og eins.

Mikilvægt er að halda áfram að þróa starfsemi Múlalundar með það fyrir augum að geta boðið upp á fjölbreytt störf inn í framtíðina. Á næsta ári 2019 heldur Múlalundur upp á 60 ára starfsafmæli og það verður gaman að sjá hvað þessi síungi öldungur tekst á við í framtíðinni. Hér eftir sem hingað til stendur hann og fellur með öflugum bakhjarli í happdrætti SÍBS og góðum viðskiptavinum um allt land.“

Sigurður Viktor Úlfarsson

Framkvæmdastjóri Múlalundar

Nýtt á vefnum