Greinar / 3. mars 2020

Loftmengun og heilsa

Helsta verkfærið til að draga úr áhrifum loftmengunar á heilsu fólks er minnka mengunina sjálfa. Aðgerðir sem draga úr loftmengun geta hins vegar tekið langan tíma að virka. Hertar kröfur um útblástur nýrra bíla fara til dæmis ekki að hafa áhrif að ráði fyrr en einhverjum árum síðar þegar nokkur endurnýjun hefur orðið í bílaflotanum. Almennt séð eru loftgæði á Íslandi mikil og oftast er Ísland í fyrsta sæti meðal Evrópulanda þegar borin eru saman töpuð æviár vegna loftmengunar á hverja 100 þúsund íbúa. Hins vegar koma dagar, sérstaklega í hægviðri síðla vetrar, þegar loftmengun getur farið yfir heilusverndarmörk.

Útsetning

Daglegar venjur fólks geta hins vegar haft áhrif á útsetningu þess fyrir loftmengun. Það gildir jafnt um loftmengun utanhúss sem og gæði innilofts á heimilum. Þegar kemur að innöndun loftmengunar er hugtakið útsetning (e. „exposure“) mikið notað. Útsetning er mælikvarði á magn mengunarefna sem viðkomandi andar að sér. Þættir sem hafa áhrif á útsetningu eru styrkur loftmengunar hverju sinni og sá tími sem dvalið er í menguðu lofti. Einnig hefur öndunarhraði áhrif. Fólk sem er í mikill áreynslu andar að sér meira lofti. Hvað varðar aðgerðir við að draga úr útsetningu utandyra er ýmislegt sem hver og einn getur hugað að fyrir sjálfan sig.

Hér má nefna nokkur ráð. Misjafnt er hvað á við eftir því hver ferðamátinn er hverju sinni og hvort um er að ræða útivist í frístundum eða ferðir til og frá vinnu.

Þegar um er að ræða útivist í frístundum er málið nokkuð einfalt. Forðist útivist við miklar umferðargötur. Á höfuðborgarsvæðinu eru mörg skemmtileg svæði sem ekki eru nálægt miklum umferðargötum þar sem hægt er að stunda göngur, hlaup eða hjólreiðar. Þar má nefna til dæmis Elliðaárdalinn, Laugardalinn, Fossvogsdalinn og svo ýmsa strandstíga á svæðinu.

Þegar um er að ræða ferðir til og frá vinnu flækist málið aðeins því þá er verið að ferðast milli A og B og því oft óhjákvæmilegt að fara um eða vera í grennd við umferðarmiklar götur. Fyrir þá sem eru gangandi eða hjólandi getur mismunandi leiðaval haft mikil áhrif á útsetningu. Þá er rétt að hafa í huga að það munar um hverja 10 metra sem komist er fjær miklum umferðargötum. Þannig að ef það er í boði að fara stíga sem liggja fjær umferðargötum heldur en að fara gangstétt sem er þétt við umferðarmikla götu þá dregur það úr útsetningu.

Grein 6.1.JPG

Veðrið

Einnig getur verið rétt að huga að veðuraðstæðum hverju sinni, sérstaklega vindátt. Ef það er til dæmis norðanátt í Reykjavík og verið er að ganga meðfram Miklubrautinni er mun minni mengun norðan við götuna heldur en sunnan við hana. Ef verið er að ganga meðfram götu sem er í brekku þá er meiri mengun frá bílunum sem eru að aka upp brekkuna heldur en bílunum sem eru að fara niður brekkuna. Þannig að ef það er logn er betra að vera þeim megin við götuna þar sem bílarnir eru að fara niður brekkuna. Hér flækir reyndar málið að vindátt hverju sinni hefur oftast meiri áhrif heldur en þessi mismunur á bílum sem eru að fara upp eða niður. Þannig að einfalda ráðið er að halda sig vindmegin við götu, til dæmis norðanmegin ef það er norðanátt.

Loftsíur

Fyrir þá sem eru í bíl skiptir miklu máli hvaða gerðar loftsían á miðstöðinni í bílnum er. Flestir bílar koma með frjókornasíu á miðstöðinni og þegar skipt er um síu kaupir fólk oftast aftur frjókornasíu því þær eru ódýrari. Frjókornasía er eins og nafnið bendir til hönnuð til að sía frjókorn og einnig stoppar hún allra grófasta rykið. Fyrir margar tegundir bíla er hins vegar hægt að fá svokallaðar kolasíur (e. „charcoal filters“). Þær stoppa einnig frjókorn en að auki eru þær eru hannaðar til að sía umferðarmengun og virka á fínt svifryk en einnig gastegundir eins og nituroxíð sambönd sem eru í útblæstri bíla. Fæstir kaupa þessar síur því þær eru dýrari en þar er þó ekki um að ræða stórar upphæðir þó hlutfallslega muni miklu. Fyrir algengan smábíl kostar hefðbundin frjókornasía um 3000 krónur en kolasía um 4500 krónur. Algengt er skipt sé um þessar síur þegar bílar fara í smurningu og gera má ráð fyrir að endingartími kolasíu sé styttri en hefðbundnar frjókornasíu og því er mælt með því að skipta um kolasíu ekki sjaldnar en árlega. Misjafnt er hvort almennar varahlutabúðir bjóða upp á kolasíur en hjá mörgum bílaumboðum er hægt að velja milli hefðbundinnar frjókornasíu og kolasíu.

Óþarfur lausagangur

Að lokum má benda á að gott er að takmarka allan óþarfa lausagang bíla. Það dregur ekki aðeins úr heildarlosun loftmengunarefna, sem er gott fyrir alla, heldur getur það minnkað útsetningu ökumanns og farþega viðkomandi bíls. Þegar bíll er kyrrstæður í lausagangi er mengunarhjúpur í nágrenni bílsins. Þetta getur munað miklu, sérstaklega fyrir atvinnubílstjóra sem eru í og við bílinn allan sinn vinnudag. Það er til dæmis ekki óalgengt að sjá ökumenn sendibíla vinna aftan við bílinn við affermingu meðan hann er í lausagangi og þá eru þeir að anda að sér „ferskum“ útblæstri beint úr púströrinu.

Þorsteinn Jóhannsson

Sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun

Nýtt á vefnum