Greinar / 2. mars 2020

Loftgæði innandyra

INNILOFT OFT MENGAÐRA EN ÚTILOFT

Í fyrstu hljómar það ef til vill undarlega en ef við hugsum okkur betur um, segir það sig sjálft: inniloft getur verið margfalt mengaðra en útiloft. Við opnum gluggann til að hleypa inn fersku útilofti, ekki öfugt. Inniloft á ávallt uppruna sinn í útilofti og því eru loftgæðin inni alltaf að einhverju leyti háð ástandinu utandyra hverju sinni.

Húsin okkar mynda nærumhverfi okkar að mestu og því er afar mikilvægt að innivist sé góð og ekki heilsuspillandi. Góð innivist felst í mörgum þáttum eins og loftgæðum, lýsingu, hljóðvist, öryggi, rúm- og fagurfræði.

ÁHRIFAÞÆTTIR INNILOFTS, LOFTGÆÐA

Inni í byggingum geta loftgæðin verið eins mismunandi og byggingarnar eru margar. Loftgæði ráðast af þeim efnivið sem notaður er í byggingar og fólkinu sem þar dvelur. Einnig þeim ögnum, efnum, lofttegundum, örverum og lífverum sem fyrirfinnast hverju sinni innandyra. Hver manneskja á sitt eigið örverumengi og það sama má segja um hvert hús, en hægt er að auðkenna hús með loftgæðum þess og örverum. Örverur, bæði slæmar og góðar, fylgja okkur hvert sem við förum og í byggingum má rekja ,,slóð“ þeirra einstaklinga sem hafa þar viðveru hverju sinni. Uppruni flestra þeirra baktería sem finnast innandyra má rekja til fólks og gæludýra.

Sú tækni að geta DNA raðgreint ryk í húsum hefur gefið okkur margfalt meiri upplýsingar en áður var hægt að fá með eldri aðferðum. Með því að taka DNA sýni má sjá að ræktun á agarskálum gefur okkur í raun afar takmarkaðar upplýsingar um hvaða örverur raunverulega má finna. Þess vegna vitum við nú betur en áður að örverumengi bygginga er flókið vistkerfi sem verður til við samspil útilofts, staðsetningar, ástands, virkni byggingar og notenda (Adams R ofl, 2016).

Agnir og efni koma frá þeim húsbúnaði, byggingarefnum og efnasamböndum eins og meindýraeitri, eldtefjandi efnum og rokgjörnum lífrænum efnum sem notuð eru við heimilishald eða rekstur. Þessi efni gufa úr efnum eða húsbúnaði og safnast saman í innilofti. Ef við loftum ekki reglulega út getur styrkur þeirra valdið okkur óþægindum og jafnvel veikindum. Þessi mengun, agnir eða efni eru næstum aldrei sýnileg.

HELSTU HEILSUFARSEINKENNI ÞAR SEM LOFTGÆÐUM ER ÁBÓTAVANT

Einkennin sem koma hér fram eru almenn og algeng en þau tengjast viðveru í ákveðnu húsnæði, koma oftast fram mörg í einu og geta verið langvarandi. Einstaklingsbundið er hvaða einkenni koma fram hverju sinni:

  • Slímhúðareinkenni, þurrkur, eymsli, bólgur: augu, nef og háls
  • Astmi, mæði eða ofnæmiseinkenni
  • Tíðari og verri öndunarfærasýkingar eða einkenni frá loftvegum
  • Þreyta og flensulík einkenni
  • Minnistruflanir og erfiðleikar við einbeitingu
  • Meltingartruflanir eða ógleði
  • Höfuðverkir eða aðrir verkir
  • Húðvandamál
  • Truflun í ónæmiskerfi
  • Munur á óþægindum og veikindum

Það er aldrei hægt að gera öllum til geðs sem dvelja saman í híbýlum. Ávallt eru 5-10% einstaklinga sem finna fyrir einhverjum óþægindum, til dæmis vegna dragsúgs, kulda, hita eða vegna þess að loft er þurrt.

Mikilvægt er að rugla ekki saman þægindastigi fólks og veikindum. Þegar fólk veikist getur það misst úr vinnu, tapað vinnuþreki og misst þrótt. Hjá þessum hópi verða sýkingar tíðari, flensulík einkenni ríkjandi, verkir, þreyta og önnur einkenni eða kvillar sem skerða lífsgæði. Greinilegur munur er á milli óþæginda og veikinda.

RAKASKEMMDIR OG MYGLA

Í vestrænum löndum þegar loftgæði eru verulega slæm og veikindi til staðar sem tengja má við ákveðið húsnæði, má í flestum tilfellum rekja það til rakaskemmda. Þess má geta hér að samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni er aukin áhætta fyrir heilsu að dvelja í rakaskemmdu húsnæði (WHO, 2009). Engu að síður eru aðrir þættir mikilvægir eins og áður er getið og verður betur farið yfir.

Þar sem byggingar verða fyrir vatns- eða rakaálagi sem leiðir til rakaskemmda má reikna með vexti rakasækinna örvera (myglu, baktería og geislabaktería), aukinni útgufun frá byggingarefnum, ögnum og afleiðuefnum eins og eiturefnum (t.d. mycotoxin, endotoxin). Einnig má búast við að öragnir (nanoparticles) losni frá byggingarefnum og örverum.

Grein 2.1.JPG

Að halda húsum þurrum er einn veigamesti þátturinn í því að halda loftgæðum ásættanlegum, ásamt því að hafa þau hrein og tryggja regluleg loftskipti.

Byggingar skemmast í flestum tilfellum eða í 80% tilfella vegna veðrunar, raka, grotnunar og niðurbrots. Orsakir rakaskemmda og myglu í byggingum má rekja til hönnunar, verklags við framkvæmdir, efnisvals, tjóna, notkunar og skorti á eðlilegu viðhaldi. Uppruni vatns getur verið frá úrkomu, regni eða snjókomu, jarðvatni, byggingarraka, frá lögnum eða vegna notkunar.

Húsnæði er oft stærsta fjárfesting einstaklinga og því mikilvægt að huga vel að þeim og viðhalda verðmæti þeirra. Með því að viðhalda fasteign, fyrirbyggja leka, bregðast strax við rakavanda og endurnýja skemmd byggingarefni má reikna með að fasteign haldi verðgildi sínu og gæðum.

Myglusveppir

Myglusveppir eru nauðsynlegir fyrir hringrás og niðurbrot í náttúrunni. Þeir vaxa utandyra og gró þeirra berast með vindum, lofti og lífverum inn í húsin okkar. Gróin geta legið í dvala og endað undir parketi eða innan í vegg við framkvæmdir á húsnæði, eða verið til staðar á yfirborði í gluggum, við rúður sem dæmi. Gró þurfa eingöngu raka til þess að spíra, vaxa upp og verða að myglu. Það er alls staðar nóg af lífrænum efnum eða ryki í húsum okkar sem myglan nærist á, og hitastig í híbýlum er henni afar hagstætt. Gró myglu má því finna alls staðar en myglusveppi eingöngu þar sem raki er, eða þar sem raki hefur verið til staðar. Þegar um myglu er að ræða, tölum við um rakaskemmdir, örveruvöxt og þá efnasúpu sem fylgir raka. Vegna mikilvægis þessara efna í lífríkinu þurfum við því að læra að lifa með myglu á jörðinni en að sama skapi gæta þess að búa þeim ekki hagstætt umhverfi í híbýlum okkar.

Hvað segja nýjustu rannsóknir

Þegar gluggað er í gagnabanka með ritrýndum vísindagreinum þar sem fjallað er um rakaskemmdir og heilsufarsáhrif, kennir margra grasa. Það sem sérstaklega vekur eftirtekt er að flestar rannsóknir eru faraldsfræðilegar en ekki beinar tilraunir, íhlutandi rannsóknir né tvíblindar rannsóknir (RCT = randomized control trial). Sú gerð rannsókna (RCT) er talin einna marktækust, auk kerfisbundinna yfirlitsrannsókna, en fast á eftir koma faraldsfræðilegar ferilrannsóknir (cohort studies) og síðan samanburðarrannsóknir (case control studies).

Vandamálið við rannsóknir sem fást við umhverfisþætti eins og rakaskemmdir í húsnæði er að siðferðislega er ekki hægt að velja hópa eða einstaklinga til þess að dvelja í rakaskemmdu húsnæði og athuga hvernig þeim reiðir af. Við vitum nógu mikið til þess að framkvæma ekki slíkar rannsóknir þar sem áhættan er þekkt. Það sem er þó óljóst er hvaða þáttur eða samspil það er í rakskemmdu húsnæði sem veldur heilsuskaða. Hingað til hafa mælingar gefið takmarkaðar upplýsingar eins og áður hefur komið fram. Það má því eiga von á frekari upplýsingum á næstu árum með tilkomu DNA raðgreininga og nýrra rannsóknaraðferða. Mögulega spila einnig inn í heilsufarsáhrif, viðnám einstaklings, fyrri saga og lifnaðarhættir.

Okkur skortir tvíblindar rannsóknir en byggjum þess í stað frekar á niðurstöðum faraldsfræðirannsókna, feril- og samanburðarrannsóknum. Rannsóknir þar sem hópar eru bornir saman til að prófa tilgátu um samband á milli áreitis og sjúkdóms eða einkenna, gefa skýrt til kynna, að viðvera í rakaskemmdu húsnæði er heilsuspillandi. Einkennin sem helst eru nefnd eru astmi, öndunarfæraeinkenni, tíðari sýkingar, húðvandamál og truflun í ónæmiskerfi (WHO, 2009). Önnur einkenni sem hafa fengið meiri athygli síðustu ár og er verið að skoða betur eru einkenni frá taugakerfi, meltingu, hormónakerfi og breytt geðslag, svo sem kvíði og þunglyndi.

Það er mikilvægt að hafa í huga að þessi einkenni tengjast flest ekki beinum ífarandi sýkingum myglu, heldur viðbrögðum ónæmiskerfisins við áreiti af þeirri efnasúpu og örögnum sem eru til staðar í rakaskemmdu húsnæði, við innöndun eða inntöku í gegnum húð og meltingarveg.

Rakaöryggi í byggingum

Grein 2.2.JPG

Grein 2.6.JPG

Það er vandasamt verk að halda húsnæði þurru, en samt vel gerlegt. Strax á hönnunarstigi þarf að huga að rakaöryggi og takmarka áhættu vegna rakaþéttingar og leka. Koma má í veg fyrir ýmsa áhættuþætti strax á hönnunarstigi, með því að rýna verklýsingar og frágang með þessu tilliti, horfa til byggingareðlisfræði og reikna út áhættu vegna rakaþéttingar. Þá er einnig mikilvægt að velja rétt efni sem henta aðstæðum og því álagi sem líklegt er að verði á þeim. Við framkvæmd þarf einnig að huga að rakaöryggi og verklagi, auk þess að geyma byggingarefni þannig að þau haldist þurr og halda byggingum þurrum á byggingartíma. Síðast en ekki síst er það ábyrgð eiganda eða umsjónaraðila að viðhalda húsum, bregðast við lekum og tjónum. Einnig að fylgjast með og læra að hegða sér þannig innandyra, að aukinn rakabúskapur og vandamál honum tengd verði fyrirbyggð.

Íslenski útveggurinn

Íslendingar hafa einangrað steypt hús á sérstakan máta, eða innanfrá en ekki að utan, eins og aðrar þjóðir gera. Við erum með sér íslenskan útvegg þar sem aukin hætta er á rakaþéttingu inni í veggnum og kuldabrúm.

Ysta veðurkápan er steypan sjálf og er því næm fyrir lekum. Steypa er ekki góð til einangrunar og þarf 4-5 metra þykkan steyptan vegg til að ná sama einangrunargildi og 100 mm steinull sem dæmi. Þetta þýðir án þess að farið sé út í tæknileg atriði að kaldir fletir á yfirborði veggja eru frekar í húsum sem einangruð eru að innan. Þessir fletir eru þá sérstaklega þar sem gólf- eða loftplata mætir útvegg í húsum einangruðum að innan (sjá mynd 3).

Grein 2.3.JPG

Það er mikilvægt að við áttum okkur á því að þessi veikleiki er til staðar í slíkum húsum og þess vegna þurfum við sérstaklega að gæta að því hver loftrakinn er inni hjá okkur. Að sama skapi getur heitt rakt loft í einhverjum tilfellum, og við ákveðnar aðstæður, þést og grátið innan í veggjum, á milli einangrunar og steypu.

Annar valkostur er að einangra að utanverðu. Þá er einangrun sett utan á steypuna og klæðning sem ysta veðurkápa þar utan á. Steypan er þá ekki köld, heldur hlý og kuldabrýr því ansi fátíðar.

Grætur húsið þitt?

Það er ekki nóg að húsin okkar þurfi að standa af sér íslenskt veður heldur þurfa þau einnig að hýsa fólk, sem með athöfnum sínum og venjulegri öndun gefur frá sér raka í inniloft.

Við venjulegt heimilishald fjögurra manna fjölskyldu getur rakainnihald og vatnsmagn í lofti aukist um 40-50 lítra á viku. Heitt og hlýtt inniloft getur haldið þessum raka í meira magni en kalt útiloft. Þessi raki í loftinu getur síðan orðið að vatni við það að komast í snertingu við kaldan flöt. Hver þekkir ekki að glerflaska sem er tekin út úr ísskáp ,,grætur“ á yfirborði, og þá sérstaklega ef heitt og rakt er í kringum okkur.

Þegar frost er úti og hlýtt innandyra er hætta á rakaþéttingu og að mörg hús gráti. Húsin gráta vegna rakaþéttingar innandyra á rúðum og köldum flötum, líkt og á glerflöskunni. Helstu ummerki um þetta finnast í formi vatns eða móðu við glugga. Í hornum við útveggi liggja taumar eða málning byrjar að bólgna. Í verstu tilfellum er komin svört, græn, grá eða bleik slikja á útvegg, við rúður eða glugga. Þarna leynist stundum mygla eða aðrar örverur, sem eingöngu ná að vaxa upp vegna raka og nýta sér gjarnan rykagnir sem æti.

Í einhverjum tilfellum má hreinlega sjá vatn við rúður í gluggum og oft telur húseigandi að gluggarnir hljóti að leka. En þegar betur er að gáð þá má merkja muninn á því að þessi raki kemur ekki við slagveður eða í úrkomu, heldur einmitt á köldum vetrardögum. Þessi tegund ,,leka“ eða raka í gluggum er því vegna hás raka innandyra en ekki vegna leka utan frá.

Í okkar veðráttu er ansi freistandi að híma innandyra með lokaða glugga og njóta hlýjunnar. Húsin okkar eru ekki endilega á sama máli. Ef loftraki er of hár inni hjá okkur getur rakamettað loft líka ferðast inn í veggi og uppí þakrými ef rakavarnalag er ekki þétt og valdið skemmdum þar. Það er því mikilvægt að fylgjast með loftraka og loftræsa reglulega.

Hvað get ég gert heima hjá mér?

Þar sem notkun og umhirða húsnæðis getur orsakað raka í húsnæði er mikilvægt að notendur hafi þekkingu til þess að takmarka áhrif og skemmdir.

Eftirfarandi atriði ætti meðal annars að hafa í huga:

  • Loftraki inni hjá okkur hækkar við eftirfarandi:
    » Þvotta, þurrkun á þvotti, baðferðir, matargerð
    » Inniveru fólks
  • Loftrakamælir ætti að vera til á hverju heimili
    » Fást m.a. í byggingarvöruverslunum eða netverslunum
    » Til þess að læra hvaða hegðun eykur loftraka og hvenær er þörf á að bregðast við
  • Loftraki ætti að vera undir 40-55%
    » Jafnvel lægri þegar kalt er að vetri til/ hærri á sumrin
    » Háð húsagerð og aðstæðum
    » Móða á glugga eða spegli er þó viðvörun
  • Loftskipti þurfa að vera regluleg
    » Þumalputtaregla er að skipta um loft a.m.k tvisvar á dag, útiloft inn fyrir inniloft
    » Við það að opna glugga verða ekki endilega loftskipti, þarf að gusta í gegn
    » Rifa á glugga í svefnherbergi bætir svefn og loftgæði
    » Gardínur ættu ekki að vera þétt við rúður eða loka alveg loftflæði
  • Útsog í íbúðum þarf að hafa loftflæði inn á móti til að mynda ekki undirþrýsting
    » Undirþrýstingur getur aukið leka t.d. inn með gluggum
    » Undirþrýstingur getur togað loft frá þakrými eða innan úr veggjum og skert loftgæði
    » Þegar opnað er upp í vindinn er undirþrýstingur takmarkaður, öfugt ef opnað er hlémegin
  • Rykhreinsa húsnæði reglulega
    » Ryksöfnun við rúður eða í hornum getur aukið líkur á að örverur nái að vaxa upp við raka
    » Efni og agnir loða við ryk
  • Umfram raka ætti ávallt að þurrka upp
    » Við rúður á morgnanna eða annars staðar
    » Eftir baðferðir
    » Eftir alla vatnsnotkun
  • Viðhald og umgengni
    » Húsgögn, rúmgaflar og annað ættu ekki að liggja þétt að útvegg
    » Lagfæra og stöðva leka fljótt
    » Bregðast við vatnstjónum með því að þurrka og fjarlægja rakaskemmd efni.

Er hægt að útskrifa húsnæði myglufrítt?

Það er vissulega áskorun að skoða og meta húsnæði vegna rakaskemmda. Rakaskemmdir og mygla eru oftar en ekki falin inni í veggjum og undir gólfefnum eða í þakrými og því erfitt að finna. Í rakaskemmdu húsnæði má, eins og áður hefur komið fram, finna myglusveppi, bakteríur, geislabakteríur, afleiðuefni, útgufunarefni úr byggingarefnum, eiturefni, agnir og aðrar rakasæknar lífverur. Mygla eða gró hennar eru aðeins brot af þeirri efnasúpu sem má finna í rakaskemmdum. Einfaldar grómælingar á myglu, gefa því ekki endilega raunsanna mynd af ástandi eða loftgæðum byggingar vegna rakaskemmda. Undirrót alls þessa er raki sem er til staðar, eða hefur verið áður, vegna vatnstjóns, leka eða rakaþéttingar.

Þar sem loftborin gró finnast víða og mygla eða rakasæknar örverur vaxa gjarnan í híbýlum er ekki hægt að útskrifa húsnæði myglufrítt, frekar er hægt að segja að húsnæði sé án rakaskemmda eða rakavanda.

Skoðun og mat á húsnæði vegna rakaskemmda

Við úttekt á húsnæði vegna raka og myglu ætti ekki eingöngu að einblína á það hvort mygla sé til staðar í húsnæðinu heldur ástand þess og hvar viðvarandi raka eða leka er að finna. Greina þarf möguleg eldri vatnstjón og leka, og hvað má gera til að bæta úr. Einnig þarf að kynna sér sögu, uppbyggingu, efnisval og notkun.

Rakamælingar eru nauðsynlegar til þess að átta sig á rakaástandi, enda er oft raki í byggingarefnum þó hann sjáist ekki með sjónrænni skoðun. Þá er ekki síður mikilvægt, að skoðunaraðili sé reynslumikill, með tilbæra fagþekkingu og þjálfun sem þarf til þess að meta rakaástand, beita sjónrænu mati og nota rakamæla. Þar sem þurrar rakaskemmdir og mygla hafa sömu heilsufarsáhrif og þar sem raki er vandast málið þegar þarf að staðsetja þær. Þá er gott að þekkja sögu húsnæðis og áhættustaði í húsum vegna rakavanda og hafa góð tök á sjónrænu mati.

Tryggjum öryggi notenda

Í nágrannalöndum okkar hafa verið gefnir út leiðarvísar varðandi skoðun og mat á húsnæði til þess að takmarka þá áhættu sem skapast getur þegar aðilar beita mismunandi aðferðum við mat eða sýnatökur. Með því er notendum tryggt öryggi. Á Íslandi eru úttektir ekki samhæfðar og aðferðir í einhverjum tilfellum gefa takmarkaðar niðurstöður. Niðurstöður geta því verið misvísandi og endurspegla ekki ástand vegna loftgæða og tryggja því ekki öryggi notenda, sérstaklega ef rannsókn byggir eingöngu á ryksýnum eða loftsýnum.

Markmið með úttekt á rakaskemmdum er að bæta innivist og loftgæði og þar með lágmarka áhrif á heilsu þeirra sem þar dvelja auk þess að viðhalda gæðum og verðmæti eignar. Mikilvægasta skrefið í úttektum er að rakaskima húsnæði og skoða ástand vegna mögulegs rakaflæðis og lekaleiða. Síðan er hægt að ákveða sýnatökur og aðrar frekari rannsóknir.

Rannsókn sem byggir eingöngu á einfaldri sýnatöku, gefur ekki raunsanna mynd af ástandi húsnæðis með tilliti til rakaskemmda og myglu.

Púsluspil fagaðila

Í raun má segja að úttekt á húsnæði vegna rakaskemmda sé fólgin í því að safna sem flestum vísbendingum eða púslum saman til að fá fram heildarmynd af ástandi byggingar vegna raka. Nauðsynlegt er að fagaðili safni nógu mörgum púslum og raði saman til þess að geta dregið ályktun um ástand og leggi til úrbætur. Eitt eða tvö púsl geta ekki gefið manni nema vísbendingu að heildarmyndinni.

Púslin geta verið eftirfarandi:

  • Skoðun á teikningum
  • Mat á húsagerð, byggingarlagi og byggingarefni
  • Rakaskimun með rakamæli
  • Sjónræn skoðun
  • Saga byggingar, tjón, viðgerðir og framkvæmdir
  • Skoðun með hitamyndavél
  • Skoðun og mat á rakaflæði og byggingareðlisfræði
  • Loftræsing og möguleiki til loftskipta
  • Önnur efni, efnisval
  • Mannmergð
  • Sýnataka; byggingarefni, ryksýni, loftsýni.

LOFTGÆÐI OG EFNI

Loftgæði innandyra skerðast ekki eingöngu vegna rakaskemmda þó þær séu veigamikill þáttur. Loftgæði ráðast af útilofti og þeim efnum og ögnum sem eru á sveimi í lofti á hverjum tíma. Sum efni sem við notum daglega geta verið skaðleg heilsu og umhverfi. Öll efni sem við notum skilja eftir sig leifar í umhverfinu sem safnast síðan fyrir í innilofti og skerða gæði þess og heilnæmi. Ýmsum efnum er bætt í vörur til þess að lengja líftíma þeirra, auka bakteríu- og sveppaviðnám, draga úr niðurbroti, gera eldtefjandi eða gefa góða lykt.

Mikilvægt er fyrir alla að draga úr notkun allra skaðlegra efna eins og unnt er og velja umhverfis- og heilsuvæn efni umfram annað.

Útgufun efna og rokgjörn lífræn efni (VOC)

Efni sem meðal annars safnast upp í innilofti eru svokölluð PAH efni ( polycyclic aromatic hydrocarbons) og getur uppruni þeirra verið frá bílamengun að utan, efni sem koma frá bruna eins og kerta, kola, tóbaks eða timburs.

Rokgjörn lífræn efni (volatile organic compounds= VOC) gufa auðveldlega út úr efnum eða vökvum við lágt hitastig. Þessi efni geta hlaðist upp í innilofti og valdið einkennum og heilsufarsvanda en það er háð því hvaða efni og sambönd eiga í hlut. Einhverjar lofttegundir geta haft áhrif á taugakerfið, slímhúð, verið krabbameinsvaldandi, truflað ónæmiskerfið eða verið hormónaraskandi (naaf.no). Þessi efni menga inniloftið ásamt því að þau geta bundist rykögnum og þannig komist í snertingu við fólk í rýminu. Rokgjörn lífræn efni leynast í mörgu í kringum okkur og geta losnað úr textílvörum, svefnvörum, efnum, leikföngum, tækjum eða hreinlætisvörum svo dæmi séu tekin. Önnur dæmi um uppruna er frá þurrhreinsuðum fötum, skordýraeitri, plastmýkingarefni, málningu, límefnum, fúavarnarefnum, ilmgjöfum, byggingarefnum, húsgögnum, ljósritunarvélum og prenturum.

Ilmefni

Lyktarskyn okkar er mikilvægt meðal annars til að vekja vellíðan og vara okkur við hættu. Hver þekkir ekki að finna ilminn af íslensku sumri og finna samstundis til vellíðunar. Að sama skapi vekur vond lykt með okkur ugg og í flestum tilfellum forðumst við þær aðstæður eða bregðumst við, s.s. brunalykt. Ilmur sem vekur vellíðan getur verið blómailmur, nýslegið gras eða ferskir ávextir svo eitthvað sé nefnt.

Grein 2.5.JPG


Á rannsóknarstofum eru þróuð efni sem líkja eftir þessum ilmi til þess að vekja hjá okkur vellíðan eða jafnvel hreinlætistilfinningu. Þessum ilmefnum (fragrance/perfume, sjá mynd 4)) er síðan bætt í vörur og búnað til þess að við kaupum hann frekar, eða til þess að við lyktum betur í amstri dagsins. Þannig nýta framleiðendur sér skynfæri okkar til þess að okkur líki betur við ákveðnar vörur eða aðstæður, jafnvel fólk. En það sem við vitum núna er að þessi tilbúnu ilmefni eru samsett úr ýmsum efnum og mörg þeirra eru jafnvel á válista. Reglugerð Evrópusambandsins, REACH (Registration, Authoritasion and restriction), nær yfir og metur heilsufarsáhættu vegna efna sem eru notuð í aðildarríkjum Evrópusambandsins og gefur upp efni sem eru á válista og viðmiðunarmörk þeirra.

Magn einstakra efna sem mynda efnasúpuna ilmefni (e. fragrance/perfume) er oftast undir viðmiðunarmörkum en rannsóknir hafa sýnt að komi mörg slík efni saman í einni vöru er hægt að tala um kokteiláhrif. Við þær aðstæður geta viðmiðunarmörk hvers efnis verið lægri en áður hefur verið haldið fram vegna samlegðaráhrifa. Samverkandi áhrif og skaðleg áhrif geta því verið til staðar t.d. í ilmefnablöndum. Þetta á ekki eingöngu við um ilmefni heldur mörg efni sem eru notuð í snyrti-, hreinlætis- og rekstrarvörur ( EUR Lex, 2012).

Það hljómar kannski undarlega, miðað við þá þekkingu sem til staðar er nú þegar, en framleiðendur þessara vara eru ekki skyldugir til þess að tilgreina nákvæmlega hvaða efni eru í blöndu sem merkt er einfaldlega sem fragrance eða perfume í innihaldslýsingu. Það er því ennþá löglegt að leyna innihaldi eða gefa einungis upp brot þeirra sem eru til staðar. Efnagreiningar hafa sýnt, að mörg ólík efni geta leynst í þessari ilmefnasúpu. Nýjustu rannsóknir sýna, að mörg þessara efna eru hormónaraskandi og geta haft áhrif á kynþroska og frjósemi.

Hormónaraskandi efni

Mörg efna sem eru í vörum okkar eru hormónaraskandi e. EDC (Endocrine disrupting chemicals) t.d. þalöt (DEHP, DiNP, DnOP, DEP, DBP), PCB og parabenar, og geta haft áhrif á hormónabúskap, taugakerfi og ónæmisviðbrögð í lífverum. Þessi efni leynast m.a. í plastefnum, snyrti- og hreinlætisvörum. Rannsóknir sýna að hormónaraskandi efni eins og þalöt hafa áhrif á kynþroska, frjósemi og aðra hormónastarfsemi. Samantektarrannsóknir á faraldsfræðilegum rannsóknum gefa til kynna að þalöt auki líkur á astma og ofnæmi, auk áhrifa á taugaþroska í börnum. Einnig hafa komið fram vísbendingar um áhrif á virkni og gæði sæðisfruma og virkni skjaldkirtils. Það er því ávinningur af því að forðast notkun efna sem innihalda þalöt. Þau má meðal annars finna í ilmefnum, snyrtivörum og í þeim tilgangi að mýkja plastvörur og má því m.a. finna í gólfefnum og matarílátum (Jurewicz J ofl, 2011). einhver þessara efna eru komin á válista Evrópusambandsins (REACH) og notkun þeirra verið takmörkuð.

Heimilishald og efnisval

Það er vandasamt í dag að velja efni sem eru notuð við heimilishald. Eldtefjandi efni má finna í svefnvörum, bólstruðum húsgögnum og jafnvel fötum. Skordýraeitri, rotvarnarefnum, eldtefjandi efnum og ilmefnum er stundum úðað yfir föt áður en þau fara í sölu. Þvottaefni og mýkingarefni eru seld með miklu magni af efnablöndum og stundum er inniloftið svo mettað af þeim ilmefnum að lyktin loðir við alla hluti heimilisins og heimilisfólk. Snyrtivörur, hárvörur og krem geta innihaldið skaðleg ilmefni og hormónaraskandi efni. Þess vegna er fyrsta ráð til þess að takmarka þessi efni í nærumhverfinu að þvo öll föt áður en þau eru notuð, lofta úr húsgögnum og velja ilmefnalaus efni til þvotta og hreingerninga. Einnig er ráðlegt að kynna sér sérstaklega efni í snyrtivörum og vanda valið.

Framkvæmdir, endurbætur og nýbyggingar

Byggingarefni geta innihaldið mikið magn og jafnvel kokteil eða efnablöndur af ýmsum efnum sem geta talist skaðleg. Þar sem byggingarefni eru sett inn í hús og ekki er auðvelt að fjarlægja þau, þá er mikilvægt að velja efnin sem fara inn í húsin okkar strax í upphafi og við endurbætur. Rannsóknir og mælingar á rokgjörnum lífrænum efnum gefa til kynna að magn og styrkur þeirra er ávallt mestur rétt á eftir framkvæmd og endurnýjun. Til þess að geta valið heilnæma og betri kosti þarf að vera til þekking bæði hjá neytendum og seljendum.

VINNUSTAÐIR

Það sama á við um heimili eins og vinnustaði, opinbera staði og skólastofnanir að innivist þarf að vera góð og loftgæðin ásættanleg til þess að fólki líði vel, skili góðri framlegð, missi ekki úr daga og haldi góðri heilsu til langframa. Það er vel þekkt að loftgæði hafi gríðarleg áhrif á rekstur og velgengni fyrirtækja, frammistöðu nemenda í skóla og árangur við próftöku. Ávinningur fyrir vinnuveitanda er tvímælalaust starfsfólk með betri frammistöðu og mætingu.

HVERNIG GETUM VIÐ VANDAÐ VALIÐ?

Til þess að bæta loftgæðin er mikilvægt að velja vandlega þær vörur og efni sem við berum á okkur, innbyrðum eða notum innandyra, t.d. við þvotta, þrif og ræstingar. Loftskipti eru síðan mikilvæg til þess að draga úr áhrifum, þ.e. minnka/ lækka styrk þeirra efna sem inni eru. Lofthreinsitæki sem sía agnir úr lofti og fjarlægja þær gagnast að einhverju leyti. Til þess að bæta innivist er þá helst að halda húsum þurrum og hreinum án ilmefna og takmarka notkun skaðlegra efna.

Það væri hægt að telja upp þau efni sem ber að varast, en í amstri dagsins er það flókið og erfitt fyrir hinn venjulega neytanda. Í fyrsta lagi er góð regla að takmarka alla efnanotkun og útbúa sín eigin hreinsiefni úr einföldum heilnæmum hráefnum. Síðan eru nokkrar vottanir sem hægt er að fylgja (sjá mynd 5). Þess vegna er gott að hafa eftirfarandi í huga og velja:

  • Ilmefnalausar vörur, eða með náttúrulegum ilmi
  • Málningu með lágu útgufunargildi (VOC), innimálning sem næst 1g/l
  • Byggingarefni sem vottuð eru af viðurkenndum aðilum, með lágt VOC gildi (A+, M1)
  • Hreinsiefni án gervi ilmefna og þalata
  • Þvottaefni án ilmefna og þalata, helst ofnæmisprófuð
  • Ilmkerti með náttúrulegum ilmi eða sleppa alveg, takmarka kertanotkun
  • Snyrtivörur án parabena, þalata, ilmefna og skaðlegra efna
  • Textílvörur sem merktar eru með vottunum
  • Svefnvörur, vottaðar og með lágmarks ertandi efnum
  • Vörur sem lykta ekki af sterkum kemískum efnum.

Grein 2.4.JPG

LOFTGÆÐI ERU MIKILVÆGUR UMHVERFISÞÁTTUR

Eftir lestur þessa pistils vonast ég til, að þeir sem náðu að klára, geri sér grein fyrir því hversu mikilvægur hluti það er af heilsu og vellíðan á allan hátt að loftgæði séu góð. Bæði tengist það útilofti, húsakosti, viðhaldi, loftskiptum, notkun og ekki síst efnisvali og því sem við komum með inn í húsin okkar. Heimilda er getið á stöku stað en heimildalisti þeirra heimilda sem notaðar voru við greinaskrifin er hér í lok greinar og gefur lesendum tækifæri til þess að afla sér frekari upplýsinga.

Það er mikilvægt að huga að loftgæðum innandyra þegar við horfum til framtíðar, ekki síst þar sem áhrifa loftslagsbreytinga gætir í vaxandi mæli með breytingum á veðurfari, hitastigi, úrkomu og breyttri samsetningu í lofthjúp og lofti utandyra.

Við þurfum því að horfa okkur nær í neyslu og vali á efnum, ekki bara hugsa um fjærumhverfið heldur einnig okkur sjálf og okkar nánasta umhverfi. Þannig höfum við áhrif á umhverfið hnattrænt til framtíðar.

Heimildir
Vefsíður

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir

Líffræðingur B.Sc., hjá Eflu verkfræðistofu

Nýtt á vefnum